Það er ekki seinna vænna.

Það eru vissulega 100 hlutir sem ég við ná að gera áður en ég dey... og reyndar miklu fleiri en hundrað. Svo það er kannske bezt að byrja bara strax, maður er nú einu sinni kominn á sextugsaldur.

Alla vega entist Dave Freeman ekki ævin til að gera þá hundrað hluti sem hann ætlaði sér áður en hann dó og þó ímynda ég mér að hann hafi haft fleiri tækifæri en margir aðrir til að "klára pakkann".

Ég held samt að þeir hundrað hlutir sem ég vil ég gera finnist ekki endilega í þessari bók og í henni sé jafnvel ýmislegt sem ég er ákveðinn í vera ekkert að eyða tíma mínum í.

Alla vega hef ég engan áhuga á að vera viðstaddur óskarsverðlaunaafhendingu né heldur að taka þátt í nautahlaupi.


mbl.is Feigur höfundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðugt verkefni

Já, það er víða sem mávarnir hrella. Nú þegar stríðið er hafið í Skotlandi má segja að Gísli Marteinn hafi valið sér hentugan stað fyrir nám sitt í borgarfræðum. Hann getur því í leiðinni kynnt sér allt það nýjasta í mávaveiðum og jafnvel má búast við að námskeið í mávadrápi verði skyldugrein í borgarfræðanámi.

Ég hlakka til að sjá hvaða lausnir hann mun hafa í farteskinu þegar hann snýr heim frá námsdvöl sinni í skozku höfuðborginni.


mbl.is Í stríð við borgarmáva
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, hættu nú alveg, Ólafur!

Hvaða skæruhernað þykist Ólafur nú vera kominn í? Útbíar fyrrum samstarfsfólk sitt auri með lygum, hálfsannleik og hagræðingum og hvítþvær sjálfan sig í leiðinni.

Maður lifandi, hvað þetta hefur verið vont fólk sem Ólafur vann með og maður lifandi hvað hann hlýtur að hafa verið annað tveggja bláeygur eða samsekur ef satt væri.

Passaðu þig nú, Ólafur F. að skjóta þig ekki í fótinn og hugsaðu áður en þú talar. Þetta eru bæði ljótar og óþroskaðar baráttuaðferðir og segja meira um þá sem beita þeim en þá sem þeim er beint gegn.


mbl.is Fjöldauppsagnir ekki á döfinni hjá borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvílíkur farsi!

Sem sagt Ólafur er þá kominn í F, en Margrét sem var í F gekk ásamt Guðrúnu úr F og í S,VogB. Fyrir stuttu gekk B svo úr samsteypunni S,VogB en þá gekk Marsibil úr B og í SogV þar sem fyrir voru kjörnir fulltrúar þeirra ásamt þeim Margréti og Guðrúnu.... eru menn enn að fylgjast með?

Hvar skyldu þær svo sitja ef SogV verður einhverntíma bara S og V?

Fylgir því engin skuldbinding eða ábyrgð gagnvart kjósendum og meðframbjóðendum sínum að setja sig á framboðslista?

Geta varafulltrúar bara endalaust leyst sig frá sínum listum og flokkum og látið svo tryggja sér launaðar nefndarsetur sem áheyrnarfulltrúar? Í krafti hvers?

Til nánari skýringa: B=Framsókn, S=Samfylking og V=Vinstri græn


mbl.is Ólafur F. til liðs við Frjálslynda flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málfarshornið og Marsibil

Það er kannske bara bezt að Marsibil láti sig hverfa úr stjórnmálaumræðunni... alla vega þangað til fjölmiðlafólk lærir að beygja nafnið hennar. Núna síðast heyrði ég talað um stöðu Marsibil í tíufréttum Ríkissjónvarpsins og hér á mbl.is er vísað í bloggvef Marsibil.

Eignarfallið af Marsibil er náttúrulega Marsibilar. Mér var eitt sinn sagt, hjá ekki ómerkari stofnun en Oðabók Háskólans, að ekkert kvenmannsnafn á íslenzku væri eins í öllum föllum... ég held reyndar að Salóme sé þar undantekning.

Annars er þessi fallbeygingaflótti farinn að verða áhyggjuefni. Flestum finnst til að mynda í lagi að spyrja: Hvenær er opin í Byggt og búið? Þegar rétt er að segja: Hvenær er opið í Byggðu og búnu?

Sama gildir um Eymundsson. Þeir auglýsa: Þú færð það í Eymundsson. Rétt er: Þú færð það í Eymundssyni. Einnig eru auglýstar Viðskipabækur Eymundsson, sem ættu með réttu að heita Viðskiptabækur Eymundssonar.

Fólk getur ekki bara klæmst eins og því sýnist á móðurmálinu.


mbl.is Marsibil segir sig úr Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umsýslugjald hvað???

Þett er náttúrulega bara bezta mál. Tolla og skatta er nú samt hægt að rökstyðja en sk. umsýslugjald Íslandspósts hef ég aldrei skilið.

Fyrir stuttu fékk sonur minn senda bók að gjöf erlendis frá. Þar lagðist ofan á virðisaukaskattur sem var einhver lítil upphæð en svo fylgdi eitthvert umsýslugjald upp á einhverjar hundruðir króna. Þegar ég spurði hvernig því sætti var mér svarað að að það væri alltaf lagt ofan á pakka án þess að það væri rökstutt frekar.

Fyrirgefið, Íslandspóstur, en þetta þykir mér nú frekt. Til hvers er sendandi búinn að greiða fullt póstburðargjald til þess eins að þið takið svo viðlíka gjald af móttakanda án þess hafa nokkuð annað haft af pakkanum að segja en að koma honum til viðtakanda?

Þetta er mál sem umboðsmaður neytenda mætti taka að sér. Svona einhliða gjaldtaka getur ekki átt rétt á sér. Það kostar sko engan fimmhundruðkall að reikna út 70 krónur.


mbl.is Vill fella niður tolla og skatta af ódýrustu pökkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akið varlega...

Í einum sígildum þætti um fjölskylduna gulu, Simpsons, er fjallað um þá tíð er fjölskyldufaðirinn Hómer starfaði með söngvasveitinni Bee-Sharps. Eitt af vinsælustu lögum sveitarinnar var lagið "Baby on Board", sem Hómer samdi þegar eiginkona hans, Marge, keypti samhljóðandi límmiða (barn um borð) til að líma á bifreið þeirra. Að eigin sögn svo: Ökumenn hætti að aka vísvitandi á okkur.

Þessi þáttur rifaðist upp fyrir mér í dag (lesist nú "í gær") þegar ég ók á eftir bifreið sem bar límmiða með merki félags hjúkrunarfræðinga og textann: Aktu varlega, það er hjúkrunarfræðingur í bílnum og það sárvantar hjúkrunarfræðinga.

Eitt augnablik fannst mér þetta fyndið en svo fór ég að velta fyrir mér hvaða hugmyndir hjúkrunarfræðingar hafa um umferðina og hvaða skilaboð þeir eru að senda með þessum límmiðum.

Ég tek það fram að ég virði mjög störf hjúkrunarfræðinga og tel þau ómetanleg. Rétt eins og svo margra annara, eins og til dæmis lögregluþjóna, flugumferðarstjóra, kennara, og ótal, ótal fleiri.

Mér finnst svona áróður samt bara hallærislegur og svolítið hrokafullur. Það er eins og einhver ímyndi sér að þegar ökuþórarnir halda út í umferðina þá hugsi þeir eitthvað á þessa leið: Nú er bezt að aka varlega, hann Siggi bakari er í bílnum á undan mér og það er víst skortur á bökurum... en þarna er hún Rannveig viðskiptafræðingur, það er sko nóg af svoleiðis liði og við hlið hennar get ég ekið eins og svín.

Svo mætti eins ímynda sér að þegar einhverjir óharnaðir ökumenn sjá svona merkingar þá fari þeir jafvel að haga ökulagi sínu samkvæmt því. Hjúkrunarfræðingum finnst kannske að það ætti að skylda fólk til að merkja bíla sína starfsheiti ökumanns svo aðrir í umferðinni geti metið hversu varlega eða óvarlega þeir ættu að aka í hvert sinn.


Hvað gengur konunni til?

Mér koma ekki innanhússmál Framsóknarflokksins neitt sérstaklega við en ekkert skil ég hvað henni Marsibil gengur til. Óskar er sá sem leiðir listann nú, þegar Björn Ingi er hættur í borgarstjórn. Það er því hans að taka ákvörðun um það við hvern flokkurinn gengur til samstarfs.

Marsibil getur verið sátt eða ósátt við það en það breytir því ekki að hún er varamaður Óskars og henni ber því að virða ákvörðun hans á sama hátt og Óskar virti ákvarðanir Björns Inga á sínum tíma.

Hvernig færu menn yfirleitt að því að mynda starfhæfa pólitíska meirihluta ef hver og einn frambjóðandi þykist geta svarið sig í sveit með hverjum sem honum sýnist strax að loknum kosningum algerlega óháð framboðslista?

Sér er nú hver flokkshollustan, segi ég nú bara. Vilji Marsibil ekki starfa með nýjum meirihluta þá er hennar eini kostur að segja sig úr Framsóknarflokknum.

Svo óska ég Reykvíkingum til hamingju með nýja borgarstjórn og ekki sízt með nýjan borgarstjóra. Hanna Birna er dugandi og traustur stjórnmálamaður sem á sannarlega eftir að láta til sín taka.


mbl.is Hleypir spennu í sambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvort er svo skárra?

Þó mér megi í léttu rúmi liggja hvað menn (karlar og konur) aðhafast í lýðveldinu þarna fyrir vestan verð ég að segja að þessi kona hafði þó vit á því að aka ekki undir áhrifum. Eftir einn ei aki neinn. Kannske verður það virt henni til afsökunar.

Þetta er í raun bara spurningin um það hvort sé hættulegra undir stýri tólf ára gamalt stúlkubarn eða hífuð kona á fertugsaldri.


mbl.is Tólf ára ók mömmu á barinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætti ekki einu sinni að vera til umræðu!

Að þurfa yfirleitt að velta sér upp úr því hvernig drepa skuli menn!

Vissulega á samfélagið rétt á því að þessir menn taki út sína refsingu og samfélagið á heimtingu á því að vera verndað gegn þessum mönnum. En það á enginn rétt á því að dæma annan mann (karl eða konu) til dauða.

Hvaða hvati liggur að baki þeirra sem krefjast dauðarefsingar? Er það hefnigirni? Þá hefnigirni hverra: samfélagsins, dómstólanna eða löggjafans?

Dauðrefsing ætti ekki að viðgangast í nokkru nútímaríki. Það er enginn maður þess umkominn að dæma meðsystkini sín til dauða... eins og þessir sakborningar gerðu sig seka um. Sá sem fyrir vikið telur sig þess umkominn að senda þá í dauðann er kominn niður á nákvæmlega sama plan.


mbl.is Fara fram á mannúðlegri aðferð við aftöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband