Málfarshornið-Þetta er fyrir neðan allar hellur!

Á einni af þeim íslenzku sjónvarpsrásum sem ég hef aðgang að tíðkast ekki að þýða nöfn erlendra þátta. Þykir mér þetta nokkuð miður þar sem þýðingar titla geta oft reynzt hreinustu listaverk. Frægt dæmi er t.d. íslenzkur titill bókarinnar og stórmyndarinnar "Gone with the Wind", sem var þýddur "Á hverfanda hveli". Ólíkt tilkomumeira en danska þýðingin "Borte med blæsten".

Nú er ég ekki að tala um að fólk eigi að sitja með sveittan skalla að finna nöfn á þætti sem bera mannanöfn, eins og t.d. Fraiser, Anna Pihl eða Simpsons en "Law and Order" mætti t.d. léttilega kalla "Lög og regla". Þeir hjá RÚV hittu líka á skemmtilegan titil þegar "Desperate Housewifes" fékk nafnið "Aðþrengdar eiginkonur".

Ástæða þess að ég set þessar hugleiðingar á skjá núna eru tvær dagskrárauglýsingar sem ég sá á nefndri sjónvarpsrás nú fyrir stuttu.

Þeir ætla nefnilega að fara að sýna þátt um útlagann fræga Hróa hött. Þættir þessir lofa góðu en því miður eru stjórnendur þarna á bæ svo uppteknir af því að sýnast heimsborgarar (en afhjúpa um leið eigin afdalamennsku) að þeir kynna þáttinn sem "Robin Hood". Hér á landi hefur þessi heimsþekkti útlagi og þjóðsagnapersóna ævinlega verið þekktur sem Hrói Höttur og aldrei þótt ástæða til að kalla hann annað. Svo frægur er hann að meira að segja hans helztu félagar eiga sér einnig nöfn á íslenzku; t.d. Vilhjálmur skarlat, Litli-Jón og Tóki munkur. Ég verð að segja að mér er gróflega misboðið.

Annar þáttur sem þessir snillingar eru að taka til sýningar er íslenzk útgáfa af erlendum þætti, sem á frummálinu heitir "Singing Bee" og mannvitsbrekkurnar hjá Skjá einum hafa ekki meira hugmyndaflug en það að nota erlenda nafnið hrátt: "Singing Bee" (Singing bí). Svona metnaðarleysi og menningarskortur þykir mér bara fyrir neðan allar hellur.

Látum vera þó menn þarna á bæ séu að éta upp erlendar hugmyndir því hingað til hafa þeir oft borið gæfu til þess að gefa þáttunum vel heppnuð íslenzk nöfn eins og "Allt í drasli" og "Ertu skarpari en skólakrakki". Þessi sóðaskapur verður hins vegar til þess að ég mun sniðganga þennan annars áhugaverða þátt og einnig þættina um Hróa hött þar til gáfnaljósin á Skjá einum hafa tekið upp aðra og betri málfarsstefnu.


Þvílíkt metnaðarleysi!

Þetta er skammarlegt, ef satt er. Það á að vera metnaður hverrar atvinnugreinar, þ.m.t. unnönnunar aldraðra, að hvetja fólk til að afla sér fagmenntunar og það á að verðlauna fólk sem leggur á sig að afla sér starfsréttinda samhliða vinnu.

Svona framkoma lýsir einstöku metnaðarleysi og einnig mannfyrirlitningu og skeytingarleysi gangvart bæði vistmönnum og starfsfólki.


mbl.is Fá ekki að vinna sem sjúkraliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki alveg það sama.

Ekki finnst mér samlíkingin við Róbinson Krúsó vera rökrétt.

Á Reunion búa nú um 800þúsund manns en Róbinson karlinn lenti á eyðieyju. Svo vill til að á Reunion er póstþjónusta og þessi sjóari hefur varla þurft að betla lengi fyrir póstkorti og frímerki til að láta heimafólkið sitt vita af sér. Það eru líka símar á Reunion og við skulum ætla að maður í veitingarekstri hljóti að eiga svoleiðis tæki. Þaðan eru líka dagleg flug til hinna ýmsu staða og þó Tævan sé ekki einn þeirra þá er ekki vandkvæðum bundið finna tengiflug.

Það held ég sé ljóta firran að karlinn hafi verið fastur í 27 ár án þess að geta gert vart við sig. Hann hefur bara gleymt sér eða ekki langað heim aftur.


mbl.is Nýr Róbinson Krúsó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skammsýni

Á meðan farþegar IE bíða á Kastrup og eiga heimtingu á gistingu og fæði á meðan, þó kannske séu ekki allir sem gangast eftir því, þá eru 4 vélar Flugleiða búnar að hefja sig til flugs til Keflavíkur. Hefði IE ekki verið nær að semja við Flugleiðir um flutning farþega sinna og vinna sér jafnvel smá prik í leiðinni?

Ó nei, fólkið skal hanga og bíða nýjustu frétta, alltaf í viðbragðsstöðu, um leið og það verður sífellt svekktara. Það eina sem IE græðir eru enn óánægðari farþegar sem eiga eftir skila óánægju sinni áfram inn á markaðinn og eyðileggja orðspor flugfélagsins enn frekar.


mbl.is Sólarhringsbið á Kastrup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málfarshornið-Mér blöskra svona vinnubrögð

Ég fékk inn um lúguna hjá mér í morgun bækling frá einu af mörgum flatbökufyrirtækjum borgarinnar. Þar á bæ hafa menn verið svo frumlegir að nefna flestar bökur sínar eftir hinum ýmsu borgum, bæjum og kennileitum á Ítalíu.

Hugmyndin er góð en ekki er fyrir samræminu að fara. Við skulum hafa í huga að þetta er íslenzkur staður sem gefur sig út fyrir að bjóða upp á ítalskan mat. Eðlilegast væri þá að annað tveggja væru borgarnöfnin eingöngu á ítölsku eða á ítölsku og íslenzku þar sem til er sérstakt nafn á móðurmáli okkar fyrir viðkomandi borg (t.d. Róm og Feneyjar).

Snillingarnir hjá Rizzo hafa hins vegar kosið að fara þá leið að blanda saman nöfnum á ítölsku og ensku, án nokkurs samræmis!

Til dæmis bjóða þeir flatböku með ítölsku nafni höfuðborgarinnar “Roma” (ekki Róm eða Rome) en svo er einnig til baka sem heitir “Milan”, sem enskt heiti borgarinnar “Milano”. Þá má nefna að ein bakan heitir “Florence” en sú borg heitir á ítölsku “Firenze” og svo ber önnur nafn landsins en þá á ensku “Italy” í stað “Italia”. Svona mætti áfram telja Feneyjar eru t.d. kallaðar “Venice” en ekki “Venezia” en þó finnst mér steininn taka úr þegar ein bakan ber nafnið “Napoli” en önnur heitir “Naples”, sem er enskt heiti sömu borgar!

Hugmyndasmiðirnir hjá Rizzo ættu nú að taka sig á, læra landafræðina sína aðeins betur og koma á samræmi í nafgiftum sínum á flatbökum. Þangað til mun ég beina flatbökukaupum mínum annað.


Líklegt!!!

Já, líklegt að Pólverjar lesi Lögbirtingarblaðið "spjalda á milli" í leit að auglýsingum á pólsku.

Annars tek ég undir með öðrum bloggara sem hefur tjáð sig um þessa frétt að þetta er "misskilin hjálpsemi".  Þessi svokallaða fjölmenningarstefna, sem enginn hefur reyndar skilgreint, er að leiða okkur út í algerar ógöngur.

Ég varð fyrir því í fyrra að fá smávægilega umferðarsekt í ítölsku borginni Brescia. Var þar um að kenna vankunnáttu minni, enda greiddi ég sektina möglunarlaust, sem var heilar 650,- krónur. Henni fylgdi reyndar langt og ítarlegt bréf frá lögreglu staðarins og var það á ítölsku... að sjáfsögðu.

Það hvarlaði aldrei að mér ég myndi fá bréf á íslenzku frá ítölsku lögreglunni. Reyndar hvarflaði ekki heldur að mér að bréfið ætti að vera á nokkru öðru máli en ítölsku. Þó ég sé ekki læs á það mál er það ekki þeirra vandamál, heldur mitt.


mbl.is Auglýsingar á pólsku í Lögbirtingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, hættið nú alveg

Ekki misskilja mig. Mér finnst vinnuveitanda bæði rétt og skylt að greiða ferðakostnað vegna starfsmanna sem ferðast vegna vinnunnar. Mér blöskrar heldur ekki 168þúsund króna reikningur fyrir 13 manna snæðing á veitingahúsi og hótelgistingu fyrir 6 manns.

Hins vegar finnst mér þetta bara fáránlegt. Hvar er siðferðið hjá fólki finnst þetta vera í lagi? Látum vera þó þau "slútti" fundi með sameiginlegri máltíð á kostnað vinnuveitanda (þ.e.a.s. skattgreiðenda) en hvað er fólk að hugsa að láta greiða fyrir sig gistingu þegar þau eru ekki einu sinni að heiman? Ætli Árni Þór eigi ekki búsetu lengst í burtu af þeim sem þarna gistu, en hann á heima á Tómasarhaga, sem er innan við hálftíma akstur.

Það veitti líklega ekki af að skóla suma þingmenn svolítið til í almennu siðgæði. Mér er alveg sama þó þeir hafi þurft að funda fram á kvöld og halda svo áfram næsta dag. Annað eins hefur nú gerzt án þess að fólk þurfi að kaupa undir sig gistingu í Kópavogi. Ætli það hafi ekki verið tímafrekara að pakka niður fyrir eina nótt en að leggja aðeins fyrr af stað að heiman til fundarsetu.

Enn og aftur: Mér blöskrar ekki upphæðin sem slík en hvernig fer það fólk með almannafé sem finnst þetta í lagi?


mbl.is Gisting á kostnað skattgreiðenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betur heima setið en af stað farið

Hversu mikill kjáni getur konugreyið verið? Hversu hrapallega er hægt að misskilja leiðbeiningar?

Maður skyldi nú ætla að allt venjulegt fólk hefði hváð og beðið um leiðbeiningarnar endurteknar. Þetta er alla vega engin venjuleg kona... og líklega er flugvallastarfsmaðurinn varla stafi sínu vaxinn. Hann er kannske svona þvoglumæltur.


mbl.is Hrakfarir eldri borgara á Arlanda-flugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagur gripur er æ til yndis

Nei, Austurríkismenn eru líklega ekkert sérstaklega þjófóttir enda segir Bianca að hún hafi einfaldlega týnt hringnum. Missir hennar hlýtur að vera sár enda virðist hringurinn hafa tilfinningalegt gildi fyrir hana.

Konan hefur látið margt gott af sér leiða um ævina en ég spyr nú samt: Hvað er fólk að gera með eitt íbúðarverð á puttanum? Það þykir mér ekki bera vott um mikla skynsemi.


mbl.is Jagger tapar hring
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betur má ef duga skal.

Það er ótækt hvað bifreiðaeigendur geta stundum verið plássfrekir. Eitt sinn fór ákveðið dagblað af stað með herferð þar sem birtar voru myndir af bílum sem lögðu í stæði fyrir fatlaða á heimildar. Mér finnst að það ætti að fara af stað með herferð myndbirtinga af bílum sem leggja undir sig 2 stæði.

Maður veltir því fyrir sér hvort sumt fólk hafi einfaldlega fengið ökuskírteinið sitt í kókópuffs-pakka. Alla vega hefur því ekki verið kennt að leggja bifreið... nema það sé bara svo hrokafullt og firrt að því sé skítsama þó bíltíkin þeirra taki þátt í því að minnka bílastæðafjölda borgarinnar um helming.

Svo ætti líka að leggja sérstakt "lóðagjald" á tröllajeppana, þessa bíla sem fólk notar sem stöðutákn án þess að fara nokkurn tíma með þá út fyrir malbik. Ef fleiri keyrðu um á smábílum þá myndi nú plássið aldeilis aukast, bæði á götum og í stæðum.


mbl.is Hert eftirlit með bifreiðum á gangstéttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband