Veruleikafirrt þvergirðing...

Ég ætla ekki að tjá mig um nýorðnar ráðherrahrókeringar nema að segja: Verst að þeir skyldu ekki skipta um forsætisráðherra.

Ég held að flest hefði verið betra en þessi veruleikafirrta þvergirðing til þess að leiða ríkisstjórn.


mbl.is Hefur áhyggjur af stjórnarandstöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tepran ég...

Æ, þetta var pínlegt. Líklega verður þetta þó fljótt gleymt. Þórunn er búin að biðjast afsökunar og segja að þetta hafi nú bara verið í gríni.

Vissulega var Þórunni ögrað og þingmenn eru aðeins mannlegir auk þess sem þetta var bara sagt í einkasamtali. Eftir sem áður finnst mér þetta þó ósköp ljótur munnsöfnuður og ekki það sem ég hefði átt von á frá Þórunni Sveinbjarnardóttur.

Eins og ég sagði þá verður þetta samt fljótlega gleymt. Þórunn er hvorki meiri eða minni sem stjórnmálamaður í mínum augum á eftir en álit mitt á henni sem prívatpersónu hefur óneitanlega litast aðeins. Ekki vegna viðbragðanna, þau eru skiljanleg, heldur vegna orðavalsins.

Tepran ég hefði frekar sagt "hoppa upp í óæðri endann á sér" eða "hoppa upp í svartholið".


mbl.is „Ég biðst innilega afsökunar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrræðaleysi og aumingjaskapur

Þvílíkir stjörnustælar. Heldur maðurinn í alvöru að við höfum einhvern áhuga á því hvernig honum gengur í tyggjóbindindinu? Heldur hann kannske að fólk gleymi getuleysi hans, fáránlegum yfirlýsingum og gerræði ef hann bara vælir nóg? Á nú að gera út á vorkunnsemina?

Mér þætti ekki skrýtið þó fólk sem kaus Jón Gnarr í síðustu kosningum færi með veggjum... samt, það er eins og gullkálfs heilkennið geri vart við sig um leið og hann er gagnrýndur. Fjöldi manns er tilbúinn að verja gripinn með einhverjum fáránlegum rökum eins og þeim hann sé ekki verri en margur annar! Hvenær hafa það þótt rök?

Svo eru aðrir sem vorkenna karlinum í úrræðaleysinu og nefna til sögunnar að hann sé nú ágætur leikari og skemmtikraftur, fyndinn og skemmtilegur.

Í fyrsta lagi er það engan veginn nóg til þess að valda borgarstjóraembætti og í öðru lagi þá finnst mér persónulega þessi maður vera stórlega ofmetinn sem leikari og skemmtikraftur. Mér var t.a.m. fyrirmunað að sjá eitthvað fyndið við sk. Vaktamyndir, Svínasúpan var bara leiðinleg, tvíhöfði var klénn og Maður eins og ég er líklega næst-ofmetnust íslenzkra kvikmynda (ATH. þetta eru persónulegar skoðanir vefritara).

Hvað mig varðar hefur Jón Gnarr ekki lagt neitt til samfélagsins annað en ljótt prakkarastrik, sem á eftir að bitna á Reykvíkingum næstu 4 árin... reyndar fannst mér brandarinn um drekann vera fyndinn.


mbl.is Pirringur vegna nikóktínfíknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gersamlega vanhæfur borgarstjóri

Jón Gnarr varð þess heiðurs aðnjótandi í síðustu viku að fá að skíra skip í höfuðið á sér. Skipið heitir Gnarr og er í skemmtigarðinum á Gufunesi.

Mér þótti það vel við hæfi að skíra skip á þurru landi í höfuðið á honum.

Maðurinn hefur sýnt það með algeru getu- og aðgerðarleysi að hann er gersamlega vanhæfur sem borgarstjóri. Ég gæti bezt trúað því að ef ég fletti upp í nýju íslenzku orðabókinni að orðasambandinu vanhæfur stjórnmálamaður að þá sé þar að finna mynd af Jóni Gnarr.

Jón Gnarr og þeir sem kusu hann eru einn af þessum ólæknandi fylgikvillum lýðræðisins, sem gera reglulega vart við sig og lítið hægt að gera við.


mbl.is Sýni auðmýkt en fæ töffaragang á móti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfalt reikningsdæmi...

Bíðum nú við... Ötzi fannst fyrir 19 árum og þá var mér sagt að hann hefði dáið fyrir um 5300 árum.

Núna segja menn enn að hann hafi dáið fyrir um 5300 árum... Væri ekki réttara að segja að hann hefði dáið fyrir um 5319 árum síðan.... eða þannig.

Þessir menn geta ekki leyst einföldustu reikningsdæmi en telja sig samt þess umkoma að segja til um hvernig Ötzi kallin dó og á hvaða tíma árs hann var jarðaður með viðhöfn.

Ætli afkomendur hans viti af þessu?


mbl.is Ötzi var grafinn með viðhöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkuveitan getur ekki farið á hausinn...

Þetta er náttúrulega laukrétt hjá Hönnu Birnu. Það er einfaldlega ekki réttlátt að skella öllu á neytendur.

Mér þótti háalvarlegt að heyra sagt að Orkuveitan yrði aldrei gjaldþrota því þar gætu menn alltaf hækkað gjaldskrána og látið orkukaupendur (les. neytendur) borga.

Hverslags hugsunarháttur er þetta eiginlega? Látum fólki bara blæða! Það eru einu lausnir þeirra sem nú ráða hjá ríki og borg þ.e.a.s. Samfylkingunni.

Almenningur lætur ekki bjóða sér hvað sem er og alls ekki svona viðhorf. Það kemur þá bara að því að fólk hættir að nota heita vatnið og fer í Öskjuhlíðina og Heiðmörk og nær sér í timbur. Síðan verða settir langeldar að fornum sið í híbýli Reykvíkinga.


mbl.is Hanna Birna: Íbúar geta ekki tekið meira á sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að láta þetta yfir okkur ganga?

Í starfi mínu sem leiðsögumaður hef ég oft og með nokkru stolti sagt erlendum gestum frá því hve snilldarlega Íslendingar hafi komizt upp á lag með að nýta sér innlenda orku. Enda sé orkuverð til neytenda hér sérlega hagstætt. Ég bæti því stundum við til gamans að mánaðarlegur hitunarkostnaður á húsinu mínu sé um það bil sama og flaska af þokkalegu viskí myndi kosta og þá einnig að viskíflaska nái engan veginn að ylja mér, hvað þá öðrum fjölskyldumeðlimum, svo lengi.

Núna held ég þó að ég þurfi að taka upp vasareikninn, reikna upp á nýtt og finna mér einhver önnur viðmið. Já, og einnig að skoða það af hve miklu stolti maður getur sagt frá snilli okkar og útsjónarsemi.

Mér þykja það grafalvarlegar fréttir að Orkuveita Reykjavíkur skuli skulda um 240 milljarða króna og mér þykja það líka grafalvarlegar fréttir að nú eigi að stórhækka, menn segja um tugi prósenta, verðskrár Orkuveitunnar til þess að mæta þessari skuldastöðu. Maður spyr líka sjálfan sig: Hvernig gat þetta farið svo? Hafa neytendur verið að greiða of lítið verð fyrir orkuna? Er viskíflöskuviðmiðið ekki raunhæft?

Hefðum átt að vera búin að greiða 240 milljörðum meira fyrir orkuna er við höfum gert?

Nei, svo sannarlega ekki. Menn fóru einfaldlega offari í fjárfestingum og létu stjórnast af lítilli fyrirhyggju, sérstaklega á árunum 2001-2006. Orkuveita Reykjavíkur blés út  í stað þess að gæta að því hlutverki, sem hún var upphaflega stofnuð til: Að veita orku.

Það er óásættanlegt að þessum skuldabagga verði öllum velt yfir á neytendur í formi gjaldskrárhækkana. Orkuveitan þarf líka að hagræða og selja eignir. Reyndar hefur mikið verið unnið í því síðustu 2-3 árin. Hætt hefur verið við fjárfrek verkefni, hagrætt í rekstri og svo mætti áfram telja.

Það vekur því furðu að þegar nýir aðilar setjast að völdum í Reykjavíkurborg láta þeir það verða eitt af sínum fyrstu verkum að skipa "starfandi" stjórnarformann á ofurlaunum til Orkuveitunnar (þó laun hans séu kannske "baunir" miðað við þær upphæðir sem um ræðir). Stjórnarformann, sem án frekari skýringa, rekur forstjórann sem hefur unnið, að manni skilst, í þokkalegri sátt við stjórn fyrirtækisins að hagræðingu og endurfjármögnun skulda, svo ekki þurfi að velta öllum pakkanum á neytendur. Stjórnarformann, sem síðan tilkynnir kinnroðalaust að nú í miðri efnahagskreppu megum við eiga von á tugprósenta hækkunum á orkuverði ofan á allt annað.

Ég tek það fram að ég þekki Hjörleif Kvaran ekki neitt og veit ekkert hvaða mann hann hefur að geyma en þetta hljóta að þykja vægast einkennilegir stjórnarhættir og neytendur eiga skilið að fá skýringar.

Þegar ég hins vegar hugsa aðeins betur um þessa hringavitleysu alla þá vekur þetta í raun enga furðu. Það er varla við öðru að búast nú þegar þeir eru aftur farnir að stjórna í borginni, sem á sínum tíma steyptu Orkuveitunni þessar skuldir sem hún þarf að glíma við.

Munurinn er bara sá að núna skýla þeir sem ráða sér á bak við nýjar strengjabrúður:Borgarstjórann og hirð hans, sem dansar eftir takti Samfylkingarinnar.


Staðleysa...

Þessi frétt er nú ekkert annað en lestur gamalla heimilda í ljósi nútíma aðstæðna.

Á þessum tíma var einfaldlega ekki til nein pólitísk heild sem kallast gat Þýzkaland og enginn sem sá þá fyrir að það myndi verða innan 7 ára, nema kannske Bismarck sjálfur.

Þýzkaland hefur nefnilega sjaldnast í sögunni verið sameinað og er það í raun ekki í dag. Samkvæmt sögulegri skilgreiningu er t.d. Austurríki hluti Þýzkalands... þ.e.a.s. sem landsvæðis.

Þýzka sambandið, sem hér um ræðir, var lauslegt bandalag sjálfstæðra ríkja, sem var meira á orði en borði og innan þess tvö af stórveldum Evrópu á þeim tíma: Prússland og Austurríki.

Að Danmörk gengi í Þýzka sambandið hefði þá ekki haft nein raunveruleg áhrif á sjálfstæði danska ríkisins en hefði hugsanlega náð að halda hertogadæmunum undir dönsku krúnunni. Annað hertogadæmið, Holstein var þá þegar aðili að Þýzka sambandinu og þar með danakonungur sem hertogi í Holstein.

Annað tveggja er þessi bók léleg sagnfræði eða þeir blaðamenn sem um fjalla illa upplýstir.


mbl.is Bauð Þjóðverjum Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að loknum lestri Hrafnkötlu...

Ég var að ljúka við lestur Hrafnkels sögu Freysgoða... líklega í þriðja sinn. Ég get ekki neitað því að mér þótti hún öllu skemmtilegri núna en þegar ég las hana fyrst. Verð reyndar að viðurkenna mér þótti sagan eitt sinn hundleiðinleg en finnst hún bara virkilega skemmtileg núna. Hvað mig varðar mætti líklega segja um Hrafnkels sögu að hún eldist vel, svona rétt eins og eðalvín og vænar konur.

Talandi um konur þá vekur það nokkra athygli hvað hlutur kvenna er lítill í Hrafnkötlu og má segja að eina konan sem kemur á einhvern hátt við sögu sé kona sú sem er þvo við Löginn þegar Eyvindur Bjarnason ríður þar hjá. Þáttur hennar er þó ekki lítill og konu þeirri hefði reyndar verið nær að halda áfram að þvo og halda sér saman. Ég hefði alveg getað unnt Eyvindi þess að lifa lengur og Hrafnkell hefði vel mátt una áfram á Hrafnkelsstöðum. Ég skil ekkert í þessum kvenmanni að þurfa endilega að hleypa öllu upp þegar sæmilegur friður hafði náðst og menn virtust vera farnir að una nokkuð sáttir við sitt.

Það er nú reyndar svo að í fornum sögum segir að "oft stendur illt af kvennahjali" og "köld eru kvenna ráð". Voru það ekki einmitt ráð konunnar í Njarðvík sem ollu drápi Þiðranda Geitissonar og ógæfu Gunnars Þiðrandabana? Það þarf heldur ekki leita lengi til að finna frekari dæmi. Skaðræðiskvendin vaða hreinlega uppi í Njáls sögu... Bergþóra, Hallgerður, Hildigunnur... alltaf skulu þær verða til þess að hleypa öllu í báli og brand þegar aðrir reyna að halda friðinn. Ekki var nú Guðrún Ósvífursdóttir heldur neitt sérstakt góðmenni þó hún hefði að vísu reynzt Gunnari Þiðrandabana vel þegar á þurfti að halda og Þórdís Barkardóttir var ekki beinlínis siðprýðin uppmáluð.

Það er líklega bezt að ég taki það fram, áður en sk. "femínistar" grýta mig og krossfesta, að ég er ekki þar með að segja að allir karlmenn fornsagnanna séu stakir sómamenn, öðru nær. Það eru s.s. ekki færri dusilmennin og friðarspillarnir þeim megin.

Ég er heldur ekki að segja að allar konur Íslendingasagnanna séu vargar og varmenni, aldeilis ekki. Meðal þeirra er að finna stórhöfðingja á við Auði djúpúðgu, hetjur sem  nöfnu hennar Vésteinsdóttir og hreystimenni eins og Þorgerði Brák.

Reyndar er það svo að þegar maður rifjar upp kappa þá sem maður hefur kynnst við lestur fornsagna þá fer ekki hjá því að sumir eru meira í uppáhaldi hjá manni en aðrir og einna mest dáist ég að Auði Vésteinsdóttur. Það fer alltaf um mig sæluhrollur þegar ég minnist orða hennar: "... og skaltu það muna, vesall maður, svo lengi sem þú lifir að kona hefur barið þig". Þar bauð óttalaus kona ofureflinu byrginn og hafði betur. Satt að segja fer ekki hjá því að ég klökkni í hvert sinn sem ég les þennan kafla Gísla sögu, slík eru hughrifin af því að sjá fyrir sér hvernig illmennin telja sig hafa fundið Auði sem uppgefinn og niðurbrotinn flóttamann en finna í staðinn kraftmikla og óbugaða hetju, sem er full baráttuvilja.

Nú er aðeins spurning hvaða sögu maður tekur sér næst í hönd; Eglu, Eyrbyggju, Vatnsdælu... eða á maður kannske að skipta um gír og demba sér í Sturlungu. Einhverjar tillögur?


Ógnvænleg þróun

Mér þykja þetta ógnvænlegar fréttir. ESB er nú orðið slíkt yfirþjóðlegt vald að það getur tjáð sig eitt og sér á alþjóðavettvangi. Jafnvel þvert á hagsmuni aðildarríkja sinna.

Þess verður kannske skammt að bíða að "utanríkisráðherra" ESB fari með atkvæði allra aðildarþjóðanna á vettvangi sameinuðu þjóðanna.

Er þetta bákn virkilega það sem sumir Íslendingar vilja binda trúss sitt við?


mbl.is ESB fái stöðu á við ríki innan SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 4909

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband