Að loknum lestri Hrafnkötlu...

Ég var að ljúka við lestur Hrafnkels sögu Freysgoða... líklega í þriðja sinn. Ég get ekki neitað því að mér þótti hún öllu skemmtilegri núna en þegar ég las hana fyrst. Verð reyndar að viðurkenna mér þótti sagan eitt sinn hundleiðinleg en finnst hún bara virkilega skemmtileg núna. Hvað mig varðar mætti líklega segja um Hrafnkels sögu að hún eldist vel, svona rétt eins og eðalvín og vænar konur.

Talandi um konur þá vekur það nokkra athygli hvað hlutur kvenna er lítill í Hrafnkötlu og má segja að eina konan sem kemur á einhvern hátt við sögu sé kona sú sem er þvo við Löginn þegar Eyvindur Bjarnason ríður þar hjá. Þáttur hennar er þó ekki lítill og konu þeirri hefði reyndar verið nær að halda áfram að þvo og halda sér saman. Ég hefði alveg getað unnt Eyvindi þess að lifa lengur og Hrafnkell hefði vel mátt una áfram á Hrafnkelsstöðum. Ég skil ekkert í þessum kvenmanni að þurfa endilega að hleypa öllu upp þegar sæmilegur friður hafði náðst og menn virtust vera farnir að una nokkuð sáttir við sitt.

Það er nú reyndar svo að í fornum sögum segir að "oft stendur illt af kvennahjali" og "köld eru kvenna ráð". Voru það ekki einmitt ráð konunnar í Njarðvík sem ollu drápi Þiðranda Geitissonar og ógæfu Gunnars Þiðrandabana? Það þarf heldur ekki leita lengi til að finna frekari dæmi. Skaðræðiskvendin vaða hreinlega uppi í Njáls sögu... Bergþóra, Hallgerður, Hildigunnur... alltaf skulu þær verða til þess að hleypa öllu í báli og brand þegar aðrir reyna að halda friðinn. Ekki var nú Guðrún Ósvífursdóttir heldur neitt sérstakt góðmenni þó hún hefði að vísu reynzt Gunnari Þiðrandabana vel þegar á þurfti að halda og Þórdís Barkardóttir var ekki beinlínis siðprýðin uppmáluð.

Það er líklega bezt að ég taki það fram, áður en sk. "femínistar" grýta mig og krossfesta, að ég er ekki þar með að segja að allir karlmenn fornsagnanna séu stakir sómamenn, öðru nær. Það eru s.s. ekki færri dusilmennin og friðarspillarnir þeim megin.

Ég er heldur ekki að segja að allar konur Íslendingasagnanna séu vargar og varmenni, aldeilis ekki. Meðal þeirra er að finna stórhöfðingja á við Auði djúpúðgu, hetjur sem  nöfnu hennar Vésteinsdóttir og hreystimenni eins og Þorgerði Brák.

Reyndar er það svo að þegar maður rifjar upp kappa þá sem maður hefur kynnst við lestur fornsagna þá fer ekki hjá því að sumir eru meira í uppáhaldi hjá manni en aðrir og einna mest dáist ég að Auði Vésteinsdóttur. Það fer alltaf um mig sæluhrollur þegar ég minnist orða hennar: "... og skaltu það muna, vesall maður, svo lengi sem þú lifir að kona hefur barið þig". Þar bauð óttalaus kona ofureflinu byrginn og hafði betur. Satt að segja fer ekki hjá því að ég klökkni í hvert sinn sem ég les þennan kafla Gísla sögu, slík eru hughrifin af því að sjá fyrir sér hvernig illmennin telja sig hafa fundið Auði sem uppgefinn og niðurbrotinn flóttamann en finna í staðinn kraftmikla og óbugaða hetju, sem er full baráttuvilja.

Nú er aðeins spurning hvaða sögu maður tekur sér næst í hönd; Eglu, Eyrbyggju, Vatnsdælu... eða á maður kannske að skipta um gír og demba sér í Sturlungu. Einhverjar tillögur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Mér líst vel á þetta hjá þér Emil, að lesa fornbókmenntir. Það er alltaf ánægjulegt að rifja upp söguna.

Eftir að hafa lesið upprifjun þína á þessum konum undrast ég málflutning femínistanna. Ég get ekki betur séð en að konur hafi ráðið því sem þær vildu ráða.

Ástæða þess að konum hefur gengið erfiðlega að fóta sig í karlaheimi er einföld. Þegar maður kemur nýr í eitthvað umhverfi þá þarf maður að sanna sig. En halda ber því til haga, til að vera ekki hataður af kvenþjóðinni og enda í svefnpoka í garðinum, að konur hafa staðið sig prýðilega á þeim sviðum sem þær hafa sótt á.

Ég þekki reyndar engan mann sem ekki tekur mark á konum. Hægt er að nefna dæmi um mörg stórmenni sögunnar. Í þeim tilfellum hefur verið tekið fram að þeir hafi átt góðar konur sem stóðu þétt með þeim og gáfu þeim holl ráð.

Það voru reyndar konur sem komu þeir skoðun á framfæri að húsmóður starfið væri ekki ýkja merkilegur starfsvettvangur, það voru konur ef ég man rétt sem bjuggu til hugtakið "bara húsmóðir".

En það voru konur sem ólu mestu mikilmenni sögunnar, flestum ber saman um að móðirin hafi mikil áhrif á mótun einstaklingsins.

Þú fyrirgefur Emil minn að ég fari aðeins út fyrir efnið, en ég vildi sannarlega óska þess að fleiri konur væru tilbúnar til að sinna því mikilvæga og virðulega starfi sem felst í því að sinna heimili og börnum. En þær hafa vissulega frelsi og möguleika á að gera hvað sem er.

Jón Ríkharðsson, 12.8.2010 kl. 07:05

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mæli með Eyrbyggju. Hún hefur allt. Þar eru kvenskörungar, draugasögur og hvaðeina. Líklega vanmetnasta Íslendingasagan.

Sæmundur Bjarnason, 17.8.2010 kl. 00:24

3 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Þakka ykkur fyrir innlitið. Það er nú einu sinni svo, Jón minn, að meint kvennakúgun verður í raun ekki til fyrr en eftir siðaskiptin. Á miðöldum var meira jafnræði milli hjóna. Hins vegar verðum við einnig að hafa í huga að hér á Íslandi voru menn (karlar og konur) fram á 20. öld fyrst og fremst bændur og hjón tóku jafnan þátt í því að reka sitt fyrirtæki, þ.e.a.s. búið. Karlinn bar yfirleitt ábyrgð á útivinnu og skepnuhirðingu en konan bar ábyrgð á heimilis- og birgðahaldi. Enda hafði hún lyklavöldin og einnig síðasta orðið um það hvernig matnum skyldi skipt. Þannig að það er óþarfi að lita meint kynjamisrétti of sterkum litum í ljósi Íslandssögunnar.

Það er rétt, Sæmundur, Eyrbyggja er ákaflega vanmetin og ég man t.d. ekki eftir að hafa séð hana í skólabókaútgáfu, sem er stórfurðulegt ef rétt er. Björn Breiðvíkingakappi er t.a.m. með eftirminnilegri fornhetjum. Annars er ég nýbyrjaður á Njálu og ætli ég ljúki henni ekki fyrst. Ég gríp svo Eyrbyggju þegar líður á haustið.

Emil Örn Kristjánsson, 19.8.2010 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 4616

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband