Áhugaverð frétt.

Áhugaverð frétt og skemmtileg nálgun hr. Stuarts Hill á aldagömlu þrætuepli. Reyndar held ég að rök hans geti ekki staðist fyrir eina eyju í klasanum heldur verði röksemdafærslan og þá um leið stjálfstæðisyfirlýsingin að gilda fyrir eyjarnar allar.

Gragnrýnislaus og hrá þýðing fréttamanns angrar mig samt og eyðileggur ánægjuna af lestrinum. Á íslenzku hefur aldrei verið til neinn "James" á konungsstóli í Skotlandi, ekki frekar en í postulahópi Krists. Konungur sá sem tók veð í eyjunum fyrir heimanmundi konu sinnnar var Jakob III. Skotakonungur.

Kristján I. var vissulega Noregskonungur en réttara er að hann var Danmerkur- og Noregskonungur (og þá um leið konungur yfir Íslandi).

Annars átti þessi löggjörningur konunganna sér stað árið 1469 og Kristján hélt inni í samningnum ákvæði þess efnis að Danmörk/Noregur gæti leyst veðið aftur til sín. Tvöhundruð árum síðar lýsti Karl II. konungur Englands, Skotlands og Írlands (Sameinaða konungdæmið (U.K.) varð ekki til fyrr en 1706 (er ekki annars komið nóg af svigum?)) því yfir að Hjaltland væri krúnuland og heyrði því ekki undir skozka ríkisráðið, heldur beint undir konung (s.s. skozku krúnuna, ekki brezku eins og segir fréttinni (í alvöru ég verð að hætta að nota alla þessa sviga)). Þess vegna ætti Hjaltland ekki að heyra undir Sameinaða konugdæmið heldur vera sjálfstætt landsvæði sem heyrði beint undir konung.

Þetta er svipuð rök og Íslendingar notuðu í sjálfstæðisbaráttu sinni þegar þeir höfnuðu því að Ísland tilheyrði Danmörku. Heldur heyrði það beint undir konunginn í Danmörku, sem var arftaki þess konungs sem Íslendingar játuðust sjálfviljugir undir samkvæmt Gamla sáttmála.

Hafa verður þó í huga að yfirlýsing Karls II. gengur þvert á samkomulag Jakobs III. og Kristjáns I. og því vafasamt að rök Stuarts Hill séu gild ef Margréti Alexandríu Þórhildi Ingiríði dytti í hug að leysa veðið til sín... eða bara ef eyjarskeggjar sjálfir söfnuðu í pott og keyptu sig lausa undan brezka konugdæminu og aftur undir það danska.


mbl.is Lýsir yfir sjálfstæði frá Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stolt

Það yljar að sjá eigin sérvizku endurspeglast í börnum manns.

Sjálfsmat-ofmat

Manni hættir oft til að ofmeta eigin samtíð í sögulegu samhengi.

Ég er þess t.a.m. fullviss að sagnfræðingar framtíðarinnar eiga ekki eftir að nota hugtökin Fyrri og Seinni heimsstyrjöldin. Líklega munu þeir tala um 20. aldar ófriðinn, sem stóð yfir frá 1914 til 1945 með löngu og afdrifaríku vopnahléi 1918 - 1938.

Kalda stríðinu munu þeir sennilega lýsa sem því tímabili, eftir lok ófriðarins, sem einkenndist af mikilli spennu milli fyrrum bandamanna í ófriðinum en munu trauðla sjá þennan tíma í jafn dramatísku ljósi og við sem upplifðum hann.

Já, okkur hættir nefnilega til ofmeta okkur sjálf í víðu samhengi.


Hátíð fer að höndum ein

Senn rennur upp mesta trúarhátíð kristinna manna. Margir munu gera sér dagamun og þykja fríið sjálfsagt án þess að leiða hugann að því hversvegna hátíðin er haldin og jafnvel þykja lítið til tilefnisins koma.

Því rifjast upp fyrir mér lítil saga sem gerist um það leyti sem kristnir menn halda aðra mestu trúarhátíð sína.

Birna litla og Hassan litli voru samferða heim úr skólanum í byrjun desember. "Hlakkar þú ekki til jólanna, Hassan?", spurði Birna.

"Nei, veiztu það, Birna", sagði Hassan þá. "Við erum ekki sömu trúar og þið og við höldum ekki jól."

Þegar Birna kom heim hljóp hún beint til mömmu sinnar og var mikið niðri fyrir. "Veiztu hvað mamma?", sagði hún. "Hassan og fjölskyldan hans trúa ekki á jólasveina".


Enn við málfarshornið.

Alveg er það óþolandi að hvað orðskrípin "reynzlumikill" og "reynzlulítill"  ber oft fyrir augu. Mér virðist þau verða stöðugt meira áberandi í atvinnuauglýsingum, blaðagreinum og jafnvel fréttum.

Þekkir fólk ekki lengur orðin "reyndur" og "óreyndur"?

Vöndum mál okkar.


Tebolli hvað? Hot spring river this book?

Ekki ætla ég að fara að tjá mig um verðandi framlag okkar til Evróvisíon þetta árið. Fannst reyndar úrvalið óttalega klént auk þess sem mér finnst keppnin hafa sett verulega niður við að helmingur keppenda eða meira er farinn að syngja á blæbrigðalausri ensku. Væri ekki nær, fyrst okkar fólki er svona meinilla við að syngja á okkar ástkæra ylhýra, að syngja texta á þýzku eða frönsku og tryggja sér um leið fullt hús stiga hjá ákveðnum þjóðum... eða jafnvel að semja texta með léttu viðlagi á íslenzku en hvert erindi fyrir sig hvert á sínu evrópumáli. Þá fyrst færum við að moka inn stigunum.

Það er samt kannske ekki við öðru að búast en atvinnupopparar og poppskríbentar líti svo á að eina tungumálið, ef mál skyldi kalla, sem vert er að tjá sig á er útvötnuð poppenska. Enska sem á reyndar lítið skylt við ensku Jane Austen, Byrons lávarðar og Hemingways.

Ég las nefnilega þá umfjöllun sem hér er vitnað til í 24 stundum í morgun og eru þar birt dæmi um umsagnir ýmissa notenda "Exctoday.com" og þar kemur tvisvar fram að eihver notandinn segi lagið "ekki vera beint sinn tebolla".

Ósköp hafa þýðendur og prófarkalesarar 24 sunda litla tilfinningu fyrir málinu. Orðatakið "not my cup of tea" er fyllilega gilt í ensku og er þekkt alla vega frá 19. öld. Það verður hins vegar ekki þýtt beint á íslenzku þar sem engin hefð er fyrir því og textinn verðu bara kjánalegur. Réttast hefði verið að segja "fellur ekki alveg að mínum smekk" eða "ekki beint að mínu skapi" eða eitthvað í þá áttina.

Fólki sem þýðir orðtök svona hrátt í stað þess að koma merkingu þeirra áleiðis væri vel trúandi til þess að þýða íslenzka orðtakið "hann kom alveg af fjöllum" yfir á ensku sem "he came totally from the mountains" eða "það liggur í augum uppi sem "it lies in eyes upstairs"... og lesendur væru líklega litlu nær.

Reyndar rifjast upp fyrir mér að fyrir u.þ.b. 20 árum sá ég auglýsingu á ensku frá íslenzkri leifangaverksmiðju og þar var fyrirtækið kynnt sem "The Playthings Factory". Stundum er betur heima setið en af stað farið.


mbl.is Rusl eða sigurvegari?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Kvennó!

Það var spennandi viðureign MH og Kvennaskólans í "Gettu betur" síðastliðið föstudagskvöld. Því miður var hárrétt svar Kvennaskólaliðsins dæmt rangt af dómara og tapaði liðið á einu stigi eftir bráðabana.

Hefði dómarinn aulast til þess að dæma rétt hefði Kvennó verið sigurvegari með eitt stig yfir í lok keppninnar og því ekki þurft að koma til bráðabanans. Kvennó er því hinn rétti sigurvegari en sá sem tapaði er í raun hinn illa upplýsti dómari.

Kvennó á ekki að sætta sig við þessi úrslit. Þetta er eins og að ranglega dæmdur maður sem síðar er fundinn saklaus verði samt látinn sitja af sér dóm sem byggður er á röngum forsendum.

Það verður hins vegar ekki hægt að dæma MH frá keppni. Þrátt fyrir allt klúðrið þá svöruðu þessi lið sannanlega jafn mörgum spurningum rétt og eiga því jafnmörg stig. Það væri hins vegar hallærislegt að leiða þau tvö aftur saman til að útkljá málið og myndi bara skapa fleiri vandamál.

Réttast væri að bæri liðin héldu áfram keppni en myndu ekki mætast aftur nema hugsanlega í úrslitaviðureign eða keppni um 3.-4. sætið.

Verði Kvennó hins vegar látinn una þessum ranga dómi mun ég taka ofan fyrir liði þeirra og líta þá rétta sigurvegara keppninnar árið 2008.

Til hamingju Kvennó!

P.S. Hét ekki ein Lukku-Láka bókanna "Rangláti dómarinn"?


mbl.is MH og Kvennaskólinn senda frá sér yfirlýsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

List...

Fyrir nokkrum árum vogaði ég mér að tjá mig um staðsetningu ákveðins listaverks í borginni. Fyrir vikið var ég opinberlega átalinn af bæði einstökum listamönnum og samtökum listamanna fyrir að tjá mig um hluti sem ég hefði ekkert vit á. Það væri listamanna að meta listaverkin til fegurðar og fjár og þeir borgarar sem ekki hefðu til þess menntun eða þekkingu ættu bara að venja sig við þau en ekki mynda sér skoðun á þeim.

Ég tek fram að ég tjáði mig aðeins um staðsetningu þessa listaverks en aldrei um listaverkið sem slíkt. Þrátt fyrir það var ég kallaður "listahatari" af þeim sem betur þekktu til þessara mála.

Þar sem ég hef fengið á mig þann stimpil að hafa ekki aðeins ekkert vit á list heldur einnig að vera "listahatari" er það líklega mjög djarft af mér að tjá mig um þessa frétt.

Ég ætla nú samt að leyfa mér að segja að mér þykir þessi súla hvorki frumleg né áhugaverð.

Næst þegar þið sjáðið mynd frá 20th Century Fox veitið þá athygli ljósasúlunni vinstra megin í vörumerki kvikmyndasamsteypunnar og sjáið þá hversu frumleg þessi sk. "Friðarsúla" er.

ATH.: Ég tek fram að þeir, sem á sínum tíma tóku að sér að dæma listþekkingu mína, féllu í þá sömu gryfju og margir aðrir að nota orðið list yfir myndlistina eina og sér. Sjálfur tel ég mig bæði smekk- og kunnáttumann á sviði bókmennta og annara orðsins lista.


mbl.is Kveikt á friðarsúlunni í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband