Þvílíkur hálfvitaháttur!

Ætli þessi sk. samtök séu ekki endanlega búin að ganga frá sjálfum sér.

Hvernig á að vera hægt að taka svona fólk alvarlega? Láta öllum illum látum og svo þegar þeim er boðið til viðræðna þá hafna þau boðinu.

Mér sýnist að það fari lítið fyrir hugsjónum hjá þessu liði og nú eru þau búin að gera svo heiftarlega í brækurnar að það  verður varla nokkur viti  borinn maður (karl eða kona) sem vill kannast við hafa sýnt þessu hyski samúð.


mbl.is Þáðu ekki boð um fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjúhundruðþúsundkall!

Fimmþúsund nýsjálenzkir dalir, það eru rúmar 300.000,- krónur. Dálagleg upphæð en ég held að ég láti það eiga sig. Ætli maður yrði ekki látinn borga skatt af því.

Það er líka spurning hvert ætti að framselja hana. Ég veit ekki til þess að hún sé eftirlýst.

Ekki þar fyrir að það er umhugsunarvert að ýmislegt sem ríkisstjórn hennar er ábyrg fyrir láta menn kyrrt liggja en draga fulltrúa annara stjórnvalda fyrir dómara fyrir áþekkar sakir. Ég leyfi mér að vísa í tveggja daga gamla færzlu mína á þessari síðu.

Svo væri það nú líka voðalega gott ef Kondólísa og hennar félagar í lýðveldinu þarna fyrir vestan tækju upp jákvæðara viðmót og viðhorf til annara þjóða og hættu að vera með nefið ofan í hvers manns koppi.


mbl.is Vilja að Rice verði handtekin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru menn að kvarta?

Allar frístundafjárfestingar (var ég að finna upp nýtt orð?) hljóta að draga dilk á eftir sér. 

Auðvitað væri ekkert réttlæti í því að maðurinn (karlinn eða konan) á Toyota Yaris bílnum greiddi sama gjald og sá sem ekur skrímslajeppanum með hjólhýsið í eftirdragi. Það þarf ekki nema meðal skynsaman mann til þess að skilja það. Jeppinn með afatan-í-vagninn tekur bæði mun meira pláss og slítur miklu meira malbiki. Ég var að skoða verðskrána hjá Speli og satt að segja finnst mér að hjólhýsaeigandinn megi bara vel við una. Það er frekar að halli á þann í Yaris-bílnum.


mbl.is Dólgslæti og dónaskapur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bambi kom og sótti Leif Arnar.

Það er beinlínis ömurlegt þegar aulafyndni foreldra bitnar svona á börnunum. Svo þegar fáránlegar og rakalausar nafngiftir eru gagnrýndar þá rýkur fólk upp í heilagri reiði og vandlætingu og talar um valdníðslu og afturhaldssemi.

Nei, Mannanafnanefnd á fullan rétt á sér og mætti jafnvel hafa meira vald en henni er nú gefið.


mbl.is Einkennileg mannanöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá á ekki von á góðu

Svo Karadzic skrifaði um heilsu... og hvað með það? Karlinn er nú einu sinni læknir og eitthvað varð hann að hafa fyrir stafni til að hafa ofan í sig og á. Það eru kannske ekki margir sem vilja ráða meinta stríðsglæpamenn í vinnu.

Hann á hins vegar ekki von á góðu núna og á eftir að komast að því að það er ekki gott að hafa verið í tapliðinu. Það er engu líkara en Evrópusambandið sé á fullu að reyna að auðmýkja Serba áður en þeir hugsanlega velta því fyrir sér að taka þá inn þann umdeilda félagsskap.

Ég ætla ekki að verja gjörðir Karadzic en hefði hann verið öðru liði þá væri kannske ekki í þessum sporum í dag.

Stríð og allt sem því fylgir er andstyggilegt og stríðið í Bosníu var sérstaklega andstyggilegt, eins og oft vill verða um borgarastríð. Uppgjör sigurvegaranna er líka andstyggilegt og eru um það mýmörg dæmi. Það er eins menn læri ekki af mistökum eins og t.d. áttu sér stað í við Versalasamningana eftir fyrri heimstyrjöld. Þar voru sigurvegararnir svo uppteknir af því að auðmýkja þá sem töpuðu, sérstaklega Þjóðverja, að þeir hleyptu af stað nýju stríði; annari heimsstyrjöldinni.

Nú eru menn á sama hátt að auðmýkja Serba. Það er varla tilviljun að 3/4 sakborninga eru Serbar og það er varla tilviljun að bæði Tudjman frá Króatíu og Izetbegovic frá Bosníu sluppu við ákærur meðan Milosevic var dreginn fyrir Alþjóðadómstólinn.

Já, og hvað með Alþjóðadómstólinn? Þarna situr hópur dómara í Haag, sem hefur það eina hlutverk að fjalla um meinta stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu. Ég efast ekki um að þessir dómarar eru allir frómir menn (karlar og konur) og réttsýnir. En hvaða þjóðir eiga þarna fulltrúa?

Þær eru reyndar 28 og hvaðanæva að úr heiminum en ég ætla að nefna nokkur dæmi: Kína (Torg hins himneska friðar, Tíbet, Menningarbyltingin), Bandaríkin (Víetnam, Írak, Afganistan), Pakistan (sem studdu hvað dyggilegast við Talibana) og Tyrkland (þjóðarmorð á Armenum, kúgun og skiplagðar ofsóknir gegn Kúrdum). Maður spyr: Hvers er að dæma?

Tvískinnugur alþjóðasamfélagsins birtist líka í því að meðan menn eins og Milosevic og Karadzic eru ákærðir fyrir stríðsglæpi þá fellur Ariel Sharon í varanlegt dá sem fínn kall og forsætisráðherra í Ísrael og enginn virðist heldur þurfa taka á sig ábyrgð vorðaverkanna sem framin voru á Tímor fram á síðustu ár.

Er ekki betra að læra af reynzlunni: Láta af hefnigirninni, leyfa sárunum að gróa og láta Drottni eftir að dæma?


mbl.is Hyggst verja sig sjálfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögverndum starfsheiti leiðsögumanna.

Ein þeirra atvinnugreina sem íslenzkt atvinnulíf mun án efa byggja á í framtíðinni er ferðaþjónustan. Ferðaþjónusta er mannfrek og  skapar því mörg störf og hver og einn ferðamaður sem hingað leggur leið sína skilur eitthvað eftir í hagkerfinu, þó mismikið sé.

Nú skyldi maður ætla að það væri stykur hverrar atvinnugreinar að starfsfólk hennar sé hvatt til að afla sér fagmenntunar. Það hefur hins vegar skort mjög á að til staðar sé markvisst nám sem menntar og þjálfar fólk til starfa í ferðaþjónustu.

Það er því einkennilegt að sá hópur fólks sem lengst af hefur verið sá eini sem hefur átt þess kost að afla sér fagmenntunar í ferðaþjónustu, leiðsögumenn, hefur barizt árangurslausri baráttu í áratugi að fá starfsheiti sitt lögverndað.

Hverjum og einum er frjálst að kalla sig leiðsögumann og selja vinnu sína sem slíkur. Það væri vissulega ekkert athugavert við það væri ekki til staðar lög- og námskrárbundið nám fyrir leiðsögumenn sem kennt hefur verið í hartnær 30 ár í Leiðsöguskóla Íslands. Skóla sem er viðurkenndur fagskóli af yfirvöldum.

Það kæmi víst hljóð úr horni færu ófaglærðir menn, karlar og konur, að kalla sig t.d. rafvirkja, kennara, tannlækna, málara o. sv. fr. og selja vinnu sína sem slíkir án þess að hafa aflað sér tilskildrar menntunar. Þó er ekki þar með sagt að ófaglært fólk fáist ekki við kennslu, húsamálun o.fl. Það má hins vegar ekki nota þau starfsheiti sem eru lögvernduð hafi það ekki aflað sér þeirrar menntunar og réttinda sem að baki búa.

Þetta er samt það ástand sem leiðsögumenn hafa mátt þola alla tíð. Það var því fagnaðarefni þegar Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ályktun um ferðamál á síðasta landsfundi sínum þar sem eitt af yfirlýstum markmiðum flokksins í ferðamálum hljóðar svo: “Tryggja þarf lögverndun starfheitis leiðsögumanna og annarra sem sótt hafa sérmenntun til að gegna afmörkuðum störfum í ferðaþjónustu.”

Nú er því lag fyrir leiðsögumenn að sækja sinn sjálfsagða rétt og ekki degi of snemma.


Við viljum minna ykkur á að láta fagmann vinna verkið...

Kúnstug frétt en svona getur farið þegar fólk vill gera hlutina sjálft án þess kannske að geta nóg eða kunna. Vonandi hafa hjónin ekki verið á leið landafræði- eða ferðamálaráðstefnu.

Það mun þó vera tízkan í dag að gera hlutina sjálfur og þetta minnir mig á þegar þjóðþekkt fréttakona var spurð í laugardagsþætti á Rás 2 hvað hún hefði nú verið að gera þessa vikuna. Hún svaraði því þá til að hún hefði nú setið allar stundir fyrir framan tölvuna sína til að finna leið til að komast til Rómar. Án árangurs þó og nú sæi hún fram á að ekkert yrði af Rómarferðinni.

Þá spuðri annar þáttargestur hvort það hefði þá ekki verið einfaldast að snúa sér til einhverrar ferðaskrifstofu með vandamálið fyrst hún gat ekki leyst það sjálf. Virtist féttakonunni þá verða mjög misboðið og sagðist hún sko ekki hafa leitað til "svoleiðis fyrirtækja" í mörg ár.

Það er auðvitað fréttakonunnar að ákveða hvort hún kýs að verða af Rómarferðinni og það er hennar að ráðstafa tíma sínum. Hins vegar bar svar hennar keim af ákveðnum fordómum í garð ferðaskrifstofa, eins og það væri hin endalega uppgjöf að leita til "svoleiðis fyrirtækja". Frekar vildi hún eyða öllum sínum tíma í árangurslausa leit. Það er nefnilega ekkert mál að komast til Rómar og á ferðaskrifstofum er að finna fagfólk sem kann að leysa slíkan vanda.

Annars vissi ég ekki að flugvöllurinn fyrir Rijeka væri á eynni Krk. Það er reyndar rangt frá sagt í fréttinni að Rijeka sé flugvöllur á Krk. Rijeka er borg uppi á meginlandinu. Borg sem á sér merkilega sögu. Eitt sinn tilheyrði hún Ungverjalandi, á árunum milli heimsstyrjalda og í lok seinna stríðs var hún bitbein Ítala og Júgóslava og svo var hún var sjálfstætt borgríki um tíma... líklega fyrsta ríkið þar sem fasistar náðu völdum.

Ég óska þessum seinheppnu ferðamönnum ánægjulegrar dvalar í Króatíu og hvet þau til þess að fara sér hægt í farbókunum framtíðarinnar og jafnvel leita sér aðstoðar fagfólks.


mbl.is Ætluðu til Reykjavíkur - lentu í Rijeka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skammist ykkar bara.

Það má kannske segja að Bubba komi það ekkert sérstaklega við gegn eða með hverju Björk og aðrir syngja. Það er náttúrulega þeirra mál svo framarlega sem það er ekki eitthvað glæpsamlegt eða í meira lagi siðlaust. Hvort Bubbi á að vera tjá sig um það í blöðum er líka álitamál en honum er fyllilega frjálst að hafa skoðun á því.

Það slær mann hins vegar svolítið hvað liðið í kringum Björk og Sigurrós og allt það er viðkvæmt og hörundssárt og hvað þau geta lagst lágt í andsvörum sínum. Ég er enginn staðfastur aðdáandi Bubba en ég las umrætt viðtal. Þar kom Bubbi hreint fram, því fór fjarri að hann færi einhverju offorsi eða væri eitthvað að stælast við aðra tónlistarmenn. Hann tjáði sig svolítið um peningamál sín og var alls ekki að barma sér en Bjarkar- og Sigurrósarliðið ætti samt að hafa hugfast að fjármál Bubba eru hans einkamál.

Það stendur upp úr að Bubbi var bara málefnalegur í títtnefndu viðtali en viðbrögð ýmissa annara hafa einkennst af ofstæki og skætingi.


mbl.is Bubbi liggur undir ámælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordómar!

Eitt ofnotaðasta orð á íslenzku á okkar tímum er orðið fordómar. Fólki er tamt að nota það um skoðanir þeirra sem hugsa á skjön við almenningsálitið, tízkuna, pólitískan réttrúnað eða einfaldlega þeirra sem ekki eru sammála viðkomandi.

Fordómar þýðir að mynda sér skoðun að óathuguðu máli... án þess að hafa kynnt sér allar forsendur. Tveir aðilar geta komizt að sitt hvorri niðurstöðunni, jafnvel að vel athuguðu máli, en það þýðir ekki að annar fari með fordóma þó þeir séu ekki sammála.

Því hefur Cat Stevens eða Yusuf Islam hér orðið fyrir fordómum og ég fagna því að hann hefur fengið leiðréttingu sinna mála. Megi viðkomandi fréttritari hjá WEN svo bara skammast sín.


mbl.is Cat Stevens fær skaðabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að míga utan í náungann.

Frá því var greint í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi að Listaháskóli Íslands muni innan fárra ára flytja á lóð við Laugaveg og að samkeppni hafi farið fram um hús skólans.

Einhvernveginn fór það framhjá mér að skólinn hefði fengið lóð úthlutað á þessum stað og einnig þessi samkeppni. Ekki svo að skilja að ég hafi ætlað mér að taka þátt í samkeppninni. Ég ætla ekki einu sinni að tjá mig um verðlaunatillöguna enda fengið yfir mig ýmsa bununa frá hinum ýmsu "listamönnum" fyrir að hafa tjáð mig um hluti sem ég, að þeirra mati, hef ekki og á ekki að hafa neitt vit á.

Það sem mig langar hins vegar að vita er hvar menn hafa hugsað sér að láta verðandi náms- og starfsmenn þessa skóla leggja bifreiðum sínum. Það þarf gera ráð fyrir að flestir ef ekki allir muni koma til vinnu og í skóla á sínum einkabíl og þó sumir sjái listamenn fyrir sér sem einhverjar "strætótýpur" þá held ég að sú sýn sé ekki raunhæf.

Annað: Nú er átak í Reykjavík að fá fólk til að hætta þeim ljóta sið að kasta af sér vatni upp við vegg og í húsasundum í miðbæ Reykjavíkur. Það þarf reyndar ekki að hafa áhyggjur af því að það aukist þó Listaháskóli Íslands flytji í miðbæinn. Þar eru menn þekktir fyrir að míga hver utan í annan.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband