Forboðnar skoðanir...

Um þarsíðustu helgi birti DV grein um beztu og verstu “bloggara” landsins að mati nokkurra álitsgjafa blaðsins. Að mati flestra var Lára Hanna Einarsdóttir bezti “bloggarinn”.

“Bloggarinn JensGuð gerði þessa grein að umfjöllun á “bloggi” sínu. Athugasemdir við þá færslu hans urðu á annað hundrað og átti ég tvö innlegg í þá umræðu.

Hljóðaði það fyrra svo: " Eins og fram hefur komið þá bráðvantar skilgreiningu á góðum "bloggara" og slæmum "bloggara". Ég er anzi hræddur um að margir, jafnvel flestir, detti í þá gryfju að kalla þá góða sem eru þeim sammála og slæma sem eru það ekki.

Reyndar fer því fjarri að ég sé yfirleitt nokkurn tíma sammála Láru Hönnu. Ég hef samt reynt að leggja hlutlaust mat á "bloggið" hennar og niðurstaða mín er sú að hún er arfaslakur "bloggari" hvers "blogg" einkennist iðulega þvílíkum fjölda myndbrota að minnir helzt á úrklippubók og textinn þar á milli óttalegt torf fullt af hnjóði og gífuryrðum.

Hvað mig varðar þá segir þessi niðurstaða matsnefndar DV mér meira en margt annað um téða nefnd og gef ég því lítið fyrir þessa niðurstöðu.

Til þess að færa rök fyrir meintu hlutleysi mínu er mér ljúft að nefna að þó ég sé oft mjög ósammála Jennýu Önnu þá þykir mér hún meðal betri "bloggara".

Tek fram að mér er óljúft að rita orðin "blogg" og "bloggari". Vildi frekar sjá orðin vefrit og vefritari meira notuð. "

Í síðari innleggi mínu kom svo þessi málsgrein í lokin: "Ég get svo tekið undir með Matthíasi [Ásgeirssyni] að "blogg" Láru Hönnu er ekki eiginlegt "blogg". Það er frekar, eins og hann segir, nk. vefbókasafn.... þar sem allar bækurnar eru reyndar mjög á einn veg."

Ég er náttúrulega enginn vísindamaður á sviði vefrita og því tek ég kannske nokkuð stórt upp í mig með slíkum skilgreiningum og virði eða misvirði það við mig hver sem vill eftir atvikum.

Næsta dag gerði títtnefnd Lára Hanna þessar athugasemdir mínar og áðurnefnds Matthíasar að umfjöllunarefni á hinu víðlesna vefriti sínu og var henni greinilega ekki skemmt. Satt að segja var henni mjög misboðið.

Mér þótti ákaflega áhugavert að sjá með hverskonar viðkvæmni landsfrægur vefritari, sem ekki hefur sparað mönnum (körlum og konum) skammirnar bregst við, að mínu mati meinleysislegri, athugasemd. En mesta undrun mína vöktu viðbrögð mikils fjölda jábræðra  hennar og –systra. Lára Hanna er greinilega á stalli hjá fjölda fólks, sem telur hana yfir alla gagnrýni hafna. Hún á sér hirð sem gætir þess að enginn hallmæli henni og er tilbúin að hugga hana og hughreysta þegar slíkt gerist. Og greinilega tilbúin að fordæma þá sem að henni "vega" án þess að kynna sér málið frekar. Að hafa skapað sér slíka persónudýrkun er einfaldlega aðdáunarvert, hversu jákvætt sem það kann að vera.

Ég get ekki neitað því að ég hafði lúmskt gaman af því að vera svolítið milli tannanna á þessari hundtryggu hirð hennar Láru Hönnu. Ég hef t.d. verið kallaður gapuxi, auli og  gúbbi auk þess sem á mig hefur verið borið að ég sé að reyna að þagga niður í fólki (lesist Láru Hönnu).

Ég sé samt enga ástæðu til þess að biðjast afsökunar. Ég tel mig hafa fullan rétt á að taka þátt í umræðum sem þessum og tjá hug minn, jafnvel þótt ég tali ekki eins og pólitískri rétthugsun Láru Hönnu og hirðar hennar þóknast.


Firra...

Þetta náttúrulega firra. Við þurfum ekki svona mörg sendiráð.

Það væri nær að semja við einhverja hinna Norðurlandaþjóðanna um að aðstöðu, gegn sanngjarnri greiðslu, fyrir einn starfsmann inni á sendiráðum þeirra og fá þá einnig að festa skjöldinn með skjaldarmerki íslenzka ríkisins utan á húsið við hlið hins. Þetta myndi spara milljarða.

Það væri ekki nema á örfáum stöðum sem Íslendingar þyrftu að halda úti eigin sendiráði.

Síðan mætti leigja aðstöðu til að standa fyrir opinberum móttökum o.þ.h. þegar svo ber undir.


mbl.is Sendiráð upp á 1,5 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri það?

"...hvernig þeir hugsa sér að þeir geti staðið að því að samþykkja fyrirvarana." segir Indriði. Hvaða bull er þetta? Annað hvort samþykkja þeir þá fyrirvara sem Alþingi hefur sett eða ekki. Það er engin spurning um hvernig.

Er ekki kominn tími til að Indriði finni sér eitthvað annað að gera?


mbl.is Hugmyndir Breta og Hollendinga kynntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegt...

Ekkert skil ég fólki sem hefur tjáð sig um þessa frétt og heldur ekki vatni yfir ræðu Sóleyjar.

Þessi "ræða" hennar er bull og hálfsannleikur spunninn upp til þess að skreyta sjálfa sig óverðskulduðum fjöðrum og ata auri þá sem eru einfaldlega að vinna vinnuna sína.

Eins og VG-menn (karlar og konur) hafa klappað Svavari Gestssyni á bakið fyrir Æsseif-samkomulagið þá ættu þeir að sjá sóma sinn í því að vera yfirleitt ekkert að tjá sig um samninga og samningsgerð.

Samfylkingarliðið í Hafnarfirði sá sér leik á borði að koma höggi undir beltisstað á borgarstjórnarmeirihlutann í Reykjavík og VG spilar með. Þetta lið ætti að skammast sín.

Ef fólk ynni saman að hagsmunum fjöldans í stað þess að standa í pólitískum skotgrafarhernaði á kostnað almennings þá hefði jafnvel verið hægt að finna enn betri lausn á þessu máli.

Skítkast Sóleyjar á borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, dæmir sig sjálft. Sóley Tómasdóttir hefur afhjúpað sig sem meinfýsinn, þröngsýnan og siðblindan stjórnmálamann, sem lætur sig sannleikann litlu skipta.


mbl.is Heitt og rafmagnað í Ráðhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, takk...

Mér finnst það einfaldlega niðurlægjandi að vera að þiggja eitthvað frá Evrópusambandinu.

Ég tek það fram að ég er Evrópumaður og ég er evrópusinni, ef svo má að orði komast, en ég er fjarri því að vera evrópusambandssinni. Mér þykir framkoma Evrópusambandsins í okkar garð hafa verið með þvílíkum eindæmum að okkur væri líklega hollast að leita okkur vina utan þess og við ættum ekkert að vera að fikta við að það að "auka gæði og aðdráttarafl evrópska starfsmenntakerfisins".

Þar fyrir utan þá mislíkar mér þessi einokun ESB á orðinu Evrópa og evrópskt. Þetta bandalag á engan einkarétt á að kenna sig og sitt við Evrópu.

Ég held að við ættum bara að segja "nei, takk" við þessum peningum.


mbl.is Fá 131 milljón í styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrusamstarf, nei takk...

Já, einmitt. Taka upp evru og binda okkur enn frekar á klafa Evrópusambandsins, sem hefur reynzt okkur svo vel. Kanntu annan?

Ég held það sé kominn tími til þess að við hugsum út fyrir hinn þrönga hring Evrópusambandsins og leitum leiða til þess að verða óháðari því en við erum þegar orðin. Heimurinn er svo miklu stærri og svo miklu stærri markaðir sem við getum og eigum að beina viðskiptum okkar að.

Þetta er ekki bara spurning um krónu eða evru. Það verður að skoða alla hugsanlega möguleika  þegar ákveða skal framtíðarpeningamálastefnu fyrir Ísland. Þegar upp er staðið þá held ég að evran verði fjarri því að vera ákjósanlegasti kosturinn.


mbl.is Ísland taki upp evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættið nú alveg...

Halló, halló, halló...

Nú þykir mér týra. Eiga sem sagt einhverjir kallar og kellingar úti í heimi að hafa eitthvað um það að segja hvort lánastofnun leyfist að ganga að veði, sem lán hefur verið veitt út á og lántakandi hefur ekki staðið í skilum með?

Ég segi nú eins og Ragnar Reykás: Maður áttar sig nú bara ekkert á þessu.

Það fer að verða vandlifað ef veð er ekki veðhæft vegna þess að einhverjir óviðkomandi aðilar telja sig hafa eitthvað um það að segja og það eftirá. Það kemur kannske að því að ekki er hægt að ganga að veði í húseign vegna þess að nágrannarnir telja bankann ekki nógu huggulegan nágranna. Né heldur að veði í bifreið vegna þess að bifreiðaumboðið telur viðkomandi bifreið ekki henta lánastofnuninni.

Nema málið eigi sér aðra skýringu.

Hversu meðvitaður, jafnvel meðvirkur, skyldi Magnús Kristinsson vera í þessari vitleysu? Hann er allavega gulltryggður.

Það er ekki ofsögum sagt af fjárglæframönnunum, sem eru búnir að setja okkur á höfuðið. Þeir hafa sitt greinilega á þurru.

Hættum að eltast við embættis- og stjórnmálamenn í leit að sökudólgum. Glæponarnir og siðblindingjarnir eru í hópi fjárglæframanna og útrásarvíkinga og skósveina þeirra úr stétt viðskipta- og hagfræðinga sem hafa verið önnum kafnir við að finna leiðir til að kreista fé frá almenningi með sem minnstri áhættu.


mbl.is Toyota samþykkir ekki Landsbanka sem eiganda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki erindi, nei...

Ekki ætla ég að tjá mig efnislega um þessa frétt en mér þykir það mjög einkennilegt að fólk sé ekki talið eiga nokkurt erindi í þær götur sem það býr við...
mbl.is Annar hver bílstjóri á Laugaveginum á erindi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættið nú alveg...

Það er vissulega full ástæða til þess að skerpa á mannasiðum þingmanna. Það er ekki laust við að okkur almennum borgurum sé svolítið brugðið við að sjá útsendingar af þingfundum.

Mér þykir þó sérstakt, sem fram kemur í þessari frétt, að menn skuli vera að gagnrýna Sigmund Erni fyrir að "taka þátt í störfum þingsins eftir að hafa drukkið léttvín með mat". Ég vissi ekki að það væri bannað í sjálfu sér. Framkoma Sigmundar var hins vegar gagnrýniverð og hafi hann verið drukkinn í ræðustól er það einnig gangrýnivert. Hvort sem það er vegna þess að hann hafi "drukkið léttvín með mat" eða skellt í sig nokkrum snöfsum á bar.

Gæti menn hins vegar hófs er þeir dreypa á öli eða rauð- eða hvítvíni með máltíð og neyti aðeins þess magns að þeir séu eftir sem áður allsgáðir þá kemur það engum við.

Mér þykir þetta ósköp hallærislega orðað og reyndar þykir mér mál að linni umræðum um meinta ölvun Sigmundar Ernirs. Það er búið að draga nógu mikið dár að manninum fyrir vikið og atburðurinn búinn að fá þá athygli sem til þarf. Það er margt meira aðkallandi sem þarf að ræða og tími til kominn fyrir Sigmund Erni að fá frið til að vinna úr sínum málum.

Ég tek þó fram að ég er enginn sérstakur stuðningsmaður Sigmundar og tel hann hvorki skara fram úr sem stjórnmálamaður eða skáld.


mbl.is Ræddu hegðun þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ,æ...

Jæja, svo Sigmundur Ernir hefur beðist afsökunar á því að hafa ekki fundið til áfengisáhrifa eftir að hafa drukkið tvö glös, sem hann reyndar drakk ekki, áður en hann lét skutla sér niður á Austurvöll.

Gott og vel, það er enginn minni maður (karl eða kona) fyrir að biðjast afsökunar á því sem maður hefur hugsanlega gert en kannast samt ekki við.

Það er samt pínlegt að sjá að Sigmundur Ernir hafi "góðfúslega" beðist afsökunar. Menn gera hluti góðfúslega af greiðasemi við aðra. Fyrir hvern er Sigmundur Ernir "góðfúslega" að biðjast afsökunar?

Á sem sagt að þakka Sigmundi Erni auðmjúklega fyrir að biðjast afsökunar?


mbl.is Sigmundur Ernir baðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 4911

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband