Gott hjá þér, Lilja

Maður á ekki að setja sig upp á móti góðum hugmyndum og þetta þykir mér góð hugmynd.

Bankar og aðrar lánastofnanir, sem hafa lánað fólki til íbúðakaupa og tekið veð í viðkomandi íbúð eiga að sjálfsögðu ekki að geta gengið að neinu öðru en því húsnæði sem til var lánað. Hrökkvi húsnæðið ekki fyrir eftirstöðvum lánsins þá hefur lánastofnunin ekki metið stöðuna rétt. Það er ekkert réttlæti í því að hægt sé að ganga að öðrum eignum fólks, sem ekki var lánað til.

Sama á að gilda um bifreiðalán. Bifreiðin á að sjálfsögðu að standa undir láninu. Annað er óeðlilegt. Nema eigandinn hafi vísvitandi eða af vanrækslu skemmt bifreiðina.

Gott hjá þér, Lilja.


mbl.is Opnar möguleikann á að skila lyklunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einræðistilburðir

Þarf einhvern að undra svona vinnubrögð?

Samfylkingin er í eðli sínu ólýðræðislegur flokkur og þ.a.l. bezt trúandi til að hafa uppi grímulausa einræðistilburði.

Samfylkingin er skilgetið afkvæmi R-listans. R-listinn var myndaður með aðeins eitt markmið: Að koma Sjálfstæðisflokknum frá. Samfylkingin var mynduð í nákvæmlega sama tilgangi. Eina hugsjónin sem Samfylkingin á er að útrýma Sjálfstæðisflokknum. Eini tilgangur Samfylkingarinnar er því að fækka valkostum kjósenda.

Enginn annar stjórnmálaflokkur á Íslandi á sér slíkt markmið. Hins vegar átti sovézki kommúnistaflokkurinn sér samskonar takmark. Hann á sér fáa formælendur í dag.


mbl.is Sjálfstæðismenn yfirgáfu þingsalinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Festina lente...

Það er vissulega löngu tímabært að endurskoða kosningalöggjöfina hér á landi. Það væri ekki verra ef hinn almenni kjósandi fengi að hafa meira um það að segja hvar atkvæði hans lendir. Það er stjórnmálamönnum einnig hollt að vita hvert raunfylgi þeirra er og hugsanlega gæti vandað frumvarp um nýja kosningalöggjöf komið í veg fyrir uppnám, vandræðagang og deilur þegar kjörnum fulltrúum dettur í hug að skipta um flokk á miðju kjörtímabili.

Það er jafnvel hugsanlegt að það myndi ekki endilega henta að hafa sama háttinn á í sveitarstjórnarkosningum annars vegar og þingkosningum hins vegar.

Það er morgunljóst að það þarf að vanda vel til þegar slíkt stórmál er til umfjöllunar og það þolir enga flýtimeðferð.

Það má ekki kasta til höndum við gerð nýrra kosningalaga. Þá er betur heima setið en að stað farið.

Flýttu þér hægt, Jóhanna, við þolum vel einar sveitarstjórnarkosningar með gömlu aðferðinni megi það verða til þess að vandað frumvarp til kosningalaga hljóti þá meðferð sem það á skilið fyrir næstu alþingiskosningar.

 


mbl.is Persónukjörið að falla á tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varamaður, líttu þér nær...

Ekki mun það bölið bæta að bent sé á annað verra. Þó getur maður ekki orða bundizt þegar svona fréttir koma fyrir augu manns.

Ég þekki Sigmund Davíð ekki neitt og ætla ekki að taka að mér að svara neitt sérstaklega fyrir hann. Mér þykir þó að Björk Vilhelmsdóttir ætti bara að hafa sig hæga í þessari umræðu.

Hvað gengur henni og hennar samherjum eiginlega til að vera tjá sig í fjölmiðlum, með tilheyrandi reikningsdæmum, um mætingu Sigmundar Davíðs eða yfirleitt nokkurs annars á nefndarfundi borgarinnar? Ekki er allir flekklausir þar á bæ.

Varaformaður Samfylkingarinnar og leiðtogi hennar í borgarstjórn, Dagur B. Eggertsson hefur t.a.m. verið nokkuð duglegur að tilkynna forföll á stjórnarfundum Faxaflóahafna þar sem hann situr sem fulltrúi síns flokks. Á þessu ári hafa verið haldnir 11 fundir hjá stjórn Faxaflóahafna, þar af hefur Dagur B. séð sér fært að mæta á 5 þeirra. 

Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það en ég hef heyrt að Dagur þiggi 100þúsund krónur á mánuði fyrir þessa stjórnarsetu þrátt fyrir að hafa ekki mætt á helming þeirra funda sem stjórnin hefur haldið á þessu ári. Varamaður hans hefur hins vegar verið duglegur að mæta fyrir hann. Ekki veit ég hvað varamaðurinn þiggur í laun en líklega ætti það ekki að vefjast fyrir honum að gefa það upp. Varamaður Dags B. Eggertssonar í stjórn Faxaflóahafna er nefnilega enginn annar en áðurnefnd Björk Vilhelmsdóttir.


mbl.is Mæting Sigmundar Davíðs gagnrýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð í tíma töluð

Þetta eru orð í tíma töluð enda ekkert nýtt að vel reknum fyrirtækjum sé refsað fyrir ráðdeildina.

Það eru til mýmörg dæmi þess að fyrirtæki sem eru með allt sitt á þurru og standa skil á sínum sköttum og skuldum þurfa að eiga í samkeppni við fyrirtæki sem eru með allt niðrum sig og skipta um kennitölur og ábyrgðarmenn eins og óhreinar nærbrækur skiljandi eftir sig sviðna jörð ógreiddra gjalda og skulda.

Það er ekki skrítið þó fólk hafi stundum spurt sjálft sig hvort heiðarleikinn borgi sig virkilega.

Nú er jafnvel enn meiri ástæða en áður til þess að vera á varðbergi. Það má ekki líðast að óráðsíufólk geti haldið áfram sukka á kostnað alls samfélagsins.

Það er engum greiði gerður að púkka upp á óreiðupésana. Nær væri að hygla þeim sem leggja sitt til samfélagsins með heiðarlegum vinnubrögðum og skilvísi.


mbl.is Má ekki refsa vel reknum fyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þó ekki væri nema fyrir nafnið eitt...

Ég veit harla lítið um forsögu þessa máls. Mér finnst bara nafnið vera með eindæmum bjánalegt og skera í augu og eyru þeirra sem unna vönduðu máli og nafngiftum.

Það er grátbroslegt að sjá hvernig sumir veitinga- og verzlunarmenn reyna að sýnast heimsborgaralegri með því að nefna fyrirtæki sín einhverjum fáránlegum nöfnum upp á ensku.

Ég leyfi mér líka að efast um að svona fyrirtæki lifi eitthvað lengur fyrir vikið. Alla vega veit ég ekki betur en að sambærileg fyrirtæki, sem heita góðum, gjaldgengum og oft frumlegum íslenzkum nöfnum hafi lifað nokkuð góðu lífi og í langan tíma. Ég nefni sem dæmi: Austurindíafjelagið, Lækjarbrekku, Ítalíu, Hornið, Eldsmiðjuna og Bæjarins beztu og er þá fátt nefnt.

Ég endurtek: Ég veit lítið um forsögu þessa máls. En mér finnst full ástæða til að gera athugsemd við fyrirtæki hvers aðstandendur hafa ekki til að bera meiri metnað og frumleika þegar velja skal nafn á það.

"Núdul steisjon"... maður veit ekki einu sinni hvers kyns það er.

 


mbl.is Noodle Station ekki lokað að kröfu borgarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er maðurinn að væla?

Af hverju telur Þorgrímur Þráinsson að hann eigi einhverja kröfu til listamanna"launa"? Er hann ekki einn af þessum sk. "metsöluhöfundum"? Hafa bækur hans ekki selst nokkuð vel? Er hann ekki að fá ágætis pening fyrir þær?

Ég skil ekki að þeir eigi að fá sérstök listamannalaun sem eru að fá ágætlega greitt fyrir listaverk sín (myndverk, bækur o.sv.fr.). Enn síður skil ég að þeir eigi að fá listamannalaun sem geta ekki komið verkum sínum í verð.

Listamanna"laun" ættu aðeins að eiga rétt á sér sem nk. styrkur til ungra listamanna (karla og kvenna), sem eru að koma sér á framfæri og ætti slíkur styrkur aðeins að vera veittur hverjum og einum einu sinni á ævinni. Hér væri því um nokkurskonar "startkapítal" að ræða. Nái viðkomandi listamaður að koma sér það vel af stað að hann geti lifað af list sinni á hann á hann ekki frekari rétt á styrk enda þá orðinn sjálfstæður skattborgari og atvinnurekandi. Dugi honum hins vegar ekki styrkurinn til að koma sér á framfæri og nái hann ekki að gera list sína að söluvöru er honum hollast að snúa sér að einhverju öðru og stunda list sína sem áhugamál.

Það að titla sjálfan sig listamann gefur enga kröfu til fjár úr opinberum sjóðum.

 


mbl.is Neitað 19 sinnum um listamannalaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málfarshornið

Málfarslöggan er mætt á svæðið.

Líklega hefur umræddur skemmdarvargur ekki átt eyri og því reiðst með þessum óútskýranlegu afleiðingum.

Maður sem á ekki aur á ekki drullu, leðju, skít... eða þannig.

Sá sem skítblankur á ekki eyri.


mbl.is Átti ekki aur og braut rúðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af spunakringlum Samfylkingarinnar...

Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi ritar grein í Fréttablaðið í dag og fer mikinn.

Hún óskapast mikið yfir því að til standi að flytja þjónustumiðstöð Miðbæjar og Hlíða frá Skúlagötu í Höfðatorg við Borgartún. Finnur hún húsinu í Borgartúni ýmislegt til foráttu, sem helzt virðist þó tengjast andúð hennar á téðu húsi. 

Ég get svo sem tekið undir með þeim sem telja glerhúsið við Borgartún óttalega sjónmengun en ég fæ ekki séð að rök Bjarkar um takmarkaðan aðgang eigi við nokkur rök að styðjast. Né heldur sé ég að húsið sem slíkt eigi eftir hamla eitthvað innhringingum inn á þjónustumiðstöðina.

Björk viðurkennir að vísu að þetta hús sé mjög vannýtt og einnig að full ástæða sé fyrir borgina að nýta betur það húsnæði sem hún á eða hefur gert bindandi leigusamninga um.

Hún bendir réttilega á að verið sé að flytja þjónustumiðstöðina út fyrir hverfið. Reyndar er ekki verið að flytja hana nema um nokkur hundruð metra við þessar tilfæringar og sízt verið að gera aðkomu verri eða færa hana fjær íbúum Hlíðahverfis.

En svo slær Björk út sínu trompi: Nær væri að flytja þjónustumiðstöðina í annað vannýtt hús borgarinnar; nefnilega Tjarnargötu 12.

Hamingjan sanna, ef þessi tillaga Bjarkar toppar ekki bara veggjakrotsumræðu Dags B. Eggertssonar?

Hvernig væri að Samfylkingarliðið hætti að lítilsvirða borgarbúa með svona spuna? Hvaða alvara býr að baki svona tillögum?

Björk segir að staðsetning Tjarnargötu 12 sé í þjónustuhverfi miðstöðvarinnar. Það er rétt en mætti þó varla tæpara standa. Ekki þarf annað en að fara yfir Suðugötuna til að vera kominn yfir í næsta þjónustuhverfi. Tjarnargata 12 liggur líka fjær flestum íbúum þjónustuhverfisins en Höfðatorgið. Þá er aðkoma að Tjarnargötu 12 mun verri og bílastæði af skornum skammti.

Hvernig væri að kjörnir fulltrúar Samfylkingarinnar hættu þessum leikaraskap og gerðu kjósendum sínum þann greiða að fara að vinna eins og fólk.

Hafi Björk einhverja betri lausn að bjóða, en þá sem borgarstjóri býður, komi hún þá fram með hana.

Að kjafta Tjarnargötu 12 upp sem einhvern betri valkost, með fullri virðingu fyrir því fallega og sögufræga húsi, er ekkert annað en froða.


Ég er svo aldeilis hissa...

Svei mér þá, þrífst líka spilling í ESB?

Já, vissulega og það ekki lítið. Við erum ekki að tala um Rúmeníu eða Litháen. Hér er það Frakkland, stærsta og næstfjölmennasta ríki Evrópusambandsins, sem er til umræðu.

Og ekki bara spilling, heldur grímu- og kinnroðalaus spilling og eiginhagsmumagæzla.

S.s. spilling í Frakklandi, valdníðsla í bretlandi og Írland á hausnum. Fyrirgefið var einhver hérna að  mæla því bót að ganga í téð bandalag?


mbl.is Umdeildur Sarkozy
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 4911

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband