Skárri kostur...

Ég verð nú að segja að þetta er ekki alslæmt. Alla vega er mér rórra að vita af skólunum í höndum þeirra sem stýra borginni en þeirra sem stýra landinu.

Það er dýrt að reka grunnskólana og það hvílir þungt á sveitafélögunum. Það breytir því þó ekki að það er sama hvor aðilinn það er sem skrifar út tékkann. Skattborgarinn er sá sem borgar.

Auðvitað þarf að endurskoða framlag ríkisins til skólanna en ég treysti flestum sveitarfélögum betur til að tryggja uppbyggilegt og barnvænt skólastarf en ríkinu.

 


mbl.is Grunnskólinn ekki aftur til ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldið grímulaust

Þar afhjúpar ESB sig. Þetta er ekkert annað en kúgunar- og samtryggingarbandalag stórvelda Evrópu. ESB má eiga sig fyrir mér. Í ljósi þessarar grímulausu hótunar er ég sannfærðari en nokkru sinni fyrr að hag okkar er betur borgið utan þessa "bandalags".

ESB er einangrunarsinnað bandalag sem stundar hagsmunagæzlu fyrir stærstu aðildarlönd sín. Þvílík frekja, yfirgangur og afskiptasemi. Þetta minnir á Þýzkaland og Tékkóslóvakíu í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar. Viljum við í alvörunni framselja sjálfstæði okkar til þessara kúgara?

Heimurinn er miklu stærri en ESB og okkur er hollara að leita okkur vina á öðrum vettvangi.

Ég hvet alla til þess að heimsækja www.indefence.is

 


mbl.is Skora á Alþingi að samþykkja Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rólegan mysing... errare humanum est

Ég ætla ekki að mæla því bót að menn leggi leiðir sínar inn á klámbúllur, strippbari eða hvað þeir vilja kalla þá starfsemi sem um ræðir.

Þetta er ósiðleg iðja. Hvort heldur það er að selja eða kaupa kynlíf eða það að féfletta menn með því að ginna þá til að kaupa drykki sem kosta hálft bílverð eða meira.

Ég ætla ekki að verja það að starfsmenn KSÍ, íþróttamenn eða yfirleitt nokkrir aðrir séu að stunda slíka staði.

En mér er samt fyrirmunað að skilja heiftrækni og hefnigirnd sk. femínista. Hvað er þetta fólk eiginlega að fara fram á?

Til að byrja með þá er um 5 ára gamalt mál að ræða og ekki vitað til annars að það sé einsdæmi. Ég geri ráð fyrir að umræddur starfsmaður hafi lært af reynzlunni og hafi, síðan þetta gerðist, sneitt hjá slíkum stöðum.

Þar fyrir utan var hann ekki í erindagjörðum KSÍ á umræddum stað og þegar mistök/dómgreindarleysi/barnaskapur hans komst upp tók hann að sér að greiða reikninginn að fullu og stóð síðan sjálfur persónulega í því að sækja sitt mál.

Ég get ekki annað séð en að KSÍ hafi tekið rétt á málinu eins og það var orðið. Sambandið varð ekki fyrir neinu tjóni og sé starfsmaðurinn hæfur og sinni vinnu sinni vel þá er engin ástæða til þess að reka hann.

Eins og ég sagði áðan þá skulum við gera ráð fyrir þetta sé einsdæmi og maðurinn sem um ræðir hafi látið þetta atvik sér að kenningu verða. Sé hann hins vegar óforbetranlegur klámfíkill, sem ég hef ekki nokkra ástæðu til að ætla, og kemur óorði sem slíkur á KSÍ þá er náttúrulega eðlilegt að hann fjúki.

En ég spyr aftur: Hvað eru femínistar að fara fram á? Er blóðþorstinn slíkur að þeir vilji opinbera hýðingu... jafnvel aftöku? Hverju verðum við þá bættari?


mbl.is Fordæma niðurstöðu stjórnar KSÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð (starfs)menntun gulli betri

Mér þykja það alvarlegar fréttir, ef sannar reynast, að á næsta vori verði engir slökkviliðsmenn starfandi á Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt fréttum stendur til að ráða ófaglært fólk í staðinn.

Það er í raun einkennilegt að rekstaraðilar flugvallarins geti komizt upp með þetta. Ætti það ekki að vera skilyrði að á flugvelli með slíka umferð sé ævinlega til taks slökkvilið? Höfum í huga að slökkviliðsmaður er lögverndað starfsheiti og það ætti að vera borgurunum hagur og traust í því að þeir sem sinna slíku starfi séu með tilskylda menntun og þjálfun.

Nú getur svo sem vel verið að einhver sem vinnur á Reykjavíkurflugvelli þekki snjalla menn (karla og konur) sem þeim finnst að geti alveg sinnt þessu. En hvað ef þetta líðst? Hvað er þá næst? Geta borgararnir kannske ekki lengur verið vissir um að það séu fagmenntaðir kennarar sem kenni börnunum þeirra? Að það séu fagmenntaðir læknar og hjúkrunarfræðingar sem annist þá á sjúkrahúsunum? Aðeins vegna þess að rekstaraðilum hentar betur að ráða “amatöra” því það er svo miklu hagkvæmara.

Það ætti að vera metnaðarmál að faglært fólk skipi hvert rúm þar sem því verður komið við. Slíkt er samfélaginu öllu til hagsbóta.

Reyndar vil ég koma því að í leiðinni að leiðsögumenn, eina fagmenntaða stéttin í ferðaþjónustunni, sem er einn af okkar mikilvægustu framtíðaratvinnuvegum, hafa ekki lögverndað starfsheiti. Þó hefur lengi verið til námsskrá fyrir leiðsögunám og slíkt nám verði í boði í áratugi. Það en aðilum ferðaþjónustunnar til vanza að hafa ekki haft metnað til að berjast fyrir lögverndun starfsheitis leiðsögumanna. Það hlýtur að vera hverri atvinnugrein til framdráttar að þeir sem að henni vinna séu hvattir til að leita sér menntunar í sínu starfi.


mbl.is Slökkviliðsmenn mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverra erinda gengur þú, Árni Þór?

Ég tek fyllilega undir túlkun Ásmundar Einars og ég tek einnig undir með Birgi Ármannssyni.

Ég get hins vegar ómögulega skilið rök Árna Þórs. Hvað gengur manninum til?

Árni Þór er óvitlaus maður og mér er fyrirmunað skilja þessa niðurstöðu hans. Eigum við kannske að endurgreiða afkomendum þeirra manna sem létu glepjast á sínum tíma og keyptu norðurljósin af Einari Benediktssyni? 

Hverra erinda gengur þú eiginlega, Árni Þór?


mbl.is Klár og hrein tengsl Icesave og ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illur uppvakningur

Já, takk fyrir kærlega. Það eru engin takmörk fyrir því hvað þessu fólki dettur í hug.

Síðan 2003 hefur húsnæðisverð hækkað verulega, meira heldur en lánin hjá flestum og hafa þau þó hækkað nóg. Eignaskattur verður því töluvert hærri en hann var og mun leggjast á miklu fleiri.

Fólk, sem berst í bökkum að greiða lánin sín og lifa af á síðan að þurfa að bæta eignaskatti ofan á allt annað.

Já, það er mikið á manninn lagt.


mbl.is Verður eignarskattur endurvakinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, Ísland

Ég óska Jónasi Hallgrímssyni og íslenzku þjóðinni allri til hamingju með daginn.

Íslenzkan er arfleifð sem okkur ber skylda til að hlúa að og gera veg hennar sem beztan.

Því þykja mér sorglegar þær fréttir sem sagðar voru í sjónvarpi í gær af algerum skorti á íslenzkukennslu í almennu kennaranámi. Mér þykir að hér hafi háskólasamfélagið brugðist gersamlega. Sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands hefur greinilega verið slæmt skref og ábyrgð yfirmanna Kennslusviðs Háskóla Íslands er mikil. Nú er búið að útskrifa einhverja árganga af grunn- og leikskólakennurum sem eru í raun ekki fullnuma og eru ekki fullhæfir til starfa.

Þegar ég var á sínum tíma í námi í Kennaraháskóla Íslands var hann ungur og nýjungagjarn háskóli. Samt höfðu menn þar innandyra þó vit á því að hlúa að íslenzkunni. Hún var verulegur hluti af námi í svokölluðum kjarna og við sem tókum íslenzku sem val fengum, að mínu mati, metnaðarfulla og yfirgripsmikla kennslu í móðurmálinu, bæði í málfræði og bókmenntum.

Svo er það einnig löngu tímabært að íslenzkan verði lögbundin sem opinbert mál á Íslandi. Bezt væri að stjórnarskrárbinda ákvæði um íslenzku sem opinbert mál og þjóðtungu á Íslandi.


mbl.is Dagur íslenskrar tungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótt...

Það er margt og mjög ljótt sem mér dettur í hug að segja um þessa frétt. Svo ljótt að ég ætla að láta það ósagt.

Ólafur Þór hefur afhjúpað lítilmennsku sína. En hvað með Guðfríði Lilju? Hentaði það henni kannske mjög vel að byrja leyfið sitt núna frekar en eftir einhverja daga? Þykist hún geta komið sér hjá því að standa við sannfæringu sína með því kalla inn varamann á hentugasta tíma? Finnst henni hún vera með hreinsa samvizku?

Ég ætla ekki að tjá mig frekar um Ólaf Þór og afstöðu hans. Ég yrði þá orðljótari en ég kæri mig um.


mbl.is Kýs líklega með Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæf Jóhanna...

Ég þekki Mats Josefsson ekki neitt og veit ekkert hversu áreiðanlegur hann kann að vera. En það má vera meira en lítið óskynsamur maður sem veit minna en Jóhanna Sigurðardóttir.

Annars  minnir þetta svolítið á síðustu mánuðina fyrir "hrun". Í hvert sinn sem einhver mælti aðvörunarorð, í hvert sinn sem einhver dró fram svarta skýrslu, þá skyldu alltaf vera einhverjir aðrir sem gátu vitnað í aðrar skýrslur og önnur álit fagmanna sem sögðu allt vera í himnalagi.

Jóhanna hlustar bara á það sem hún vill heyra. Hún lifir í sýndarveruleika og trúir því sem henni hentar bezt.

Jóhanna hefur ekki efni á að láta álit Josefssons sig engu varða. Þjóðfélagið hefur ekki efni á að Jóhanna láti sig álit hans engu varða. Þó Mark Flanagan haldi öðru fram þá ber að skoða álit þeirra beggja með gagnrýnum huga en ekki bara trúa því sem Jóhanna vill trúa.

Það er kominn tími til að Jóhanna Sigurðardóttir geri sér grein fyrir því að hún situr í embætti sem hún veldur engan veginn og vanhæfi hennar bitnar á heilli þjóð.


mbl.is Jóhanna ósammála Josefsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að slátra gullgæsinni...

Þetta er alveg einkennileg nálgun hjá yfirvöldum. En ferðaþjónustan er heldur ekki alveg saklaus. Fyrst fengu allir dollaraglampa í augun vegna þess að það átti að vera von á svo mörgum ferðamönnum því krónan væri svo hagstæð. Síðan hækkuðu menn verðin upp úr öllu valdi til að fá sem mest út úr hverjum sem hingað kæmi og þar á eftir fóru menn að reikna alla verðlista í erlendum gjaldeyri svo farþeginn er í bezta falli að greiða það sama og hann gerði fyrir kreppu. Ef ekki meira... og svo kemur í ljós að það er kreppa um allan hinn vestræna heim og ferðamennirnir hugsa sig tvisvar um áður en þeir leggja í dýrt ferðalag, hvað þá fokdýrt.

Þetta bitnar síðan á landanum, sem ekki sér sér fært að fara erlendis í fríinu, en ætlar að eyða orlofspeningunum sínum heima í staðinn. Hann hefur ekkert frekar efni á að ferðast um á Íslandi því ef honum er ekki réttur verðlisti í erlendri mynt, aðallega evrum,  þá er erlendi verðlistinn lagður til grundvallar og síðan umreiknað í krónur samkvæmt gengi og gisti- og afþreyingarverðið er komið upp úr öllu valdi.

Og nú eru yfirvöld s.s. komin með glampann og ætla sér stóra sneið af kökunni. Því miður þá er bara búið að slátra gullgæsinni áður en hún byrjaði að verpa.

Ég tek fram að þessi "fabúlering" mín á alls ekki við alla ferðaþjónustuaðila, en fjölmarga samt. Einkennilegt að vilja byggja verðlista sína á erlendri mynt þegar mest af rekstarkostnaði ferðaþjónustufyrirtækja er greiddur í íslenzkum krónum.

Ferðaþjónustan er vissulega sóknarfæri í gjaldeyrisöflun og atvinnusköpun. Þar þarf bara, eins og allstaðar, að beita heilbrigðri skynsemi í stað þess að missa sig í óraunhæfum væntingum.


mbl.is Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýna skattahækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband