Mér þykja það alvarlegar fréttir, ef sannar reynast, að á næsta vori verði engir slökkviliðsmenn starfandi á Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt fréttum stendur til að ráða ófaglært fólk í staðinn.
Það er í raun einkennilegt að rekstaraðilar flugvallarins geti komizt upp með þetta. Ætti það ekki að vera skilyrði að á flugvelli með slíka umferð sé ævinlega til taks slökkvilið? Höfum í huga að slökkviliðsmaður er lögverndað starfsheiti og það ætti að vera borgurunum hagur og traust í því að þeir sem sinna slíku starfi séu með tilskylda menntun og þjálfun.
Nú getur svo sem vel verið að einhver sem vinnur á Reykjavíkurflugvelli þekki snjalla menn (karla og konur) sem þeim finnst að geti alveg sinnt þessu. En hvað ef þetta líðst? Hvað er þá næst? Geta borgararnir kannske ekki lengur verið vissir um að það séu fagmenntaðir kennarar sem kenni börnunum þeirra? Að það séu fagmenntaðir læknar og hjúkrunarfræðingar sem annist þá á sjúkrahúsunum? Aðeins vegna þess að rekstaraðilum hentar betur að ráða amatöra því það er svo miklu hagkvæmara.
Það ætti að vera metnaðarmál að faglært fólk skipi hvert rúm þar sem því verður komið við. Slíkt er samfélaginu öllu til hagsbóta.
Reyndar vil ég koma því að í leiðinni að leiðsögumenn, eina fagmenntaða stéttin í ferðaþjónustunni, sem er einn af okkar mikilvægustu framtíðaratvinnuvegum, hafa ekki lögverndað starfsheiti. Þó hefur lengi verið til námsskrá fyrir leiðsögunám og slíkt nám verði í boði í áratugi. Það en aðilum ferðaþjónustunnar til vanza að hafa ekki haft metnað til að berjast fyrir lögverndun starfsheitis leiðsögumanna. Það hlýtur að vera hverri atvinnugrein til framdráttar að þeir sem að henni vinna séu hvattir til að leita sér menntunar í sínu starfi.