Geta menn ekki lært þetta?

Enn og aftur rugla blaðamenn Morgunblaðsins saman Evrópuráðinu og Evrópska ráðinu.

Evrópuráðið (Council of Europe) hefur ekkert með Schengensamstarfið að gera. Það er ráð, sem 46 evrópuríki eiga aðild að. Öll, nema Hvíta-Rússland, Páfagarður og, síðan fyrir skömmu, Rússland.

Evrópska ráðið (e. European Council)er leiðtogaráð Evrópusambandsins. En það samband hefur 27 ríki innan sinna vébanda sem, vel að merkja, eru öll einnig aðilar að Evrópuráðinu.

Ekki svo að skilja að blaðamenn Morgunblaðsins séu einir um þennan rugling. Látum vera þótt við óupplýstur almúginn skiljum ekki alltaf munninn. En þeir, sem matreiða ofan í okkur fréttirnar ættu að vera betur upplýstir.


mbl.is ESB muni ekki taka við „rússneskum“ vegabréfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furstynja, ekki prinsessa

Það er alltaf gaman að lesa um blessað kóngafólkið og ekki ónýtt að því séu gerð skil við og við í blöðunum.

En rétt skal vera rétt... Charlene af Mónakó er ekki prinsessa. Hún er furstynja enda er Albert eiginmaður hennar fursti af Mónakó og ríkjandi þjóðhöfðingi í þessu litla ríki síðan 2005. En það ár lézt faðir hans Rainer fursti.

Á íslenzku og fleiri tungumálum, s.s. þýzku og dönsku, er þó nokkur munur á prins og fursta. Prins er er óskilgreindur titill, sem oftast er notaður af sonum ríkjandi þjóðhöfðingja. Fursti er hins vegar titill höfðingja sem ríkir yfir furstadæmi.

Hér í eina tíð var nokkur fjöldi þjóðhöfðingja sem bar titilinn fursti þó í dag séu  sjálfstæðu furstadæmin í Evrópu aðeins þrjú en það eru Andorra, Liechtenstein og Mónakó. Og vel að merkja þá er Andorra ekki erfðafurstadæmi.

Á ensku er hins vegar notað sama orðið yfir prins og fursta (prince) og það kann oft að rugla við heimildaöflun. Á ensku eru furstarnir Albert í Mónakó og Hans Adam í Liechtenstein kallaðir "sovereign prince" á þýzku "Fürst", á dönsku "fyrste" og á íslenzku fursti og það setur þá þó nokkuð ofar óskilgreindum prinsum annarra konungsætta í virðingarröðinni og þar af leiðandi eiginkonur þeirra ofar venjulegum prinsessum.

Þetta hefur einmitt oft leitt til þess að Albert hefur verið ranglega kallaður prins og móðir hans, Grace, var oft ranglega nefnd prinsessa.

Það væri í raun nær sanni hefði fyrirsögnin verðið "Drottningin er komin heim til sín". Þó það hefði s.s. ekki verið hárrétt heldur.


mbl.is Prinsessan er komin heim til sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og síðan hvenær hefur Evrópuráði eitthvað með Evrópusambandið að gera?

Merkileg frétt hjá mbl.is.

Af einhverjum ástæðum virðist Evrópuráðið vera orðinn eihverskonar sendiboði fyrir Pfizer og Evrópusambandið, samkvæmt þessari frétt.

Það getur einfaldlega ekki verið.

Kannske er blaðamaðurinn einfaldlega ekki upplýstari en það að hann heldur að "European Commission" sé Evrópuráðið. En þar er stór munur á.

Það, sem kallast á ensku "European Commission" er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og ekkert eðlilegra en að hún sjá um að koma áríðandi skilaboðum áleiðis til aðildarríkja þess.

Evrópuráðið er allt annað félag og hafa það og Evrópusambandið í raun ekkert yfir hvort öðru að segja. Þó reyndar séu öll þau ríki sem mynda Evrópusambandið einnig aðilar að Evrópuráðinu. 

En meðan 27 ríki mynda Evrópusambandið þá eru 47 ríki aðilar að Evrópuráðinu. Eða öll ríki Evrópu, auk Kákasuslandanna, að Páfagarði og Hvíta Rússlandi undanskildum.

Enda er hlutverk þessara tveggja nokkuð ólíkt.


mbl.is Afhending bóluefnis til ríkja ESB frestast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur sjómaður

Ég man þá tíð þegar blómstraði ákveðin tegund dægurlaga, sem kölluð voru sjómannalög. Reyndar eru menn (karlar og konur ) enn að semja sjómannalög en þegar mest var áttu sjómenn sér sérstakan óskalagaþátt á þeirri einu útvarpsstöð sem almenningi stóð til boða á þeim tíma.

Það fór því ekki hjá því að stóran hluta ævi minnar ómuðu gjarnan sjómannalög í útvarpinu þar sem gjarnan var sungið um hýreyg og heillandi sprund, brimsorfna kletta, Sigurð sjómann, kútter frá Sandi, Sjipp ojhoj og fleira sem ég kunni lítil skil á.

Ég get svo sem vel unnt sjómönnum þess að heil grein dægurtónlistar skuli hafa verið lögð undir það að mæra störf þeirra. Hugsanlega var það gert meðvitað til þess að eiga betur með að manna stéttina. Mér hefur þó alltaf þótt þetta frekar einkennilegt. Ekki hafa t.a.m. löggiltir endurskoðendur, pípulagningamenn eða ljómæður fengið slíka athygli fyrir störf sín, sem þó eru sízt ómerkilegri.

Einn þeirra sjómanna sem oft var sungið um var hann Ólafur sjómaður, sem sagt er frá í samnefndu lagi. Þar hljóðar eitt erindi textans svo:

Er hafaldan háa við himininn gnæfir
og allt er stormasamt og kalt,
þá vex mönnum kjarkur,kraftur og þor
og kappið er þúsundfalt.

Þetta er nú kannske ekkert sérstaklega vel kveðið en svona kveðskap urðu sjómenn reyndar oft að láta sér lynda.

Þessi texti er einn þeirra sem mér þótti sérlega torskilinn. Því ég gat aldrei heyrt annað en að í síðasta vísuorði væri sagt “og kaffið er þúsundfalt”. Þótti mér það sérkennilega að orði komizt og taldi vera dæmi um ósvikið sjómannamál, sem mér landkrabbanum væri fyrimunað að skilja.

Nú í dag komst ég hins vegar að því að það er kappið, sem er þúsundfalt. Mér þykir það ekkert sérstaklega skemmtilega komizt að orði, satt að segja frekar hallærislega. Ég er þó feginn því að hafa nú á efri árum fengið að vita að hvað átt er við í vísunni og get hætt að eltast við þúsundfalt kaffi, sem ég hélt að væri eitthvað óskaplega eftirsóknarvert.

 

(Þessi pistlill hefur áður birzt á öðrum vettvangi)


Afturhvarf til skelfilegrar fortíðar

Við sem höfum búið lengi í Grafarvogshverfinu munum vel hversu skelfilegt ástandið gat verið á leið í úr vinnu á álagstímum í umferðinni.

Þegar Gullinbrú var aðeins með eina akrein í hvora átt og var önnur tveggja umferðatenginga við Grafarvogshverfi. Umferðin gat gengið mjög hægt með tilheyrandi svifryksmengun og bensínútblæstri. Hvað þá þegar eitthvað gerði að veðri á vetrum.

 

Á þeim tíma voru tvö stjórnmálaöfl sem tókust á um völdin í Reykjavík, Sjálfstæðisflokkurinn og R-listinn. Bæði þessi framboð voru með það á stefnuskrá sinni að breikka Gullinbrú enda ástandið skelfilegt.

 

Nú bregður svo við að í lýsingu Samfylkingar og BF að hverfaskipulagi fyrir Grafarvog er gert ráð fyrir því að mjókka Gullinbrú aftur niður í eina akrein í hvora átt. Og þó hefur íbúafjöldi hverfisins heldur aukist. Áætlanir þeirra gera ráð fyrir hjóla- og göngubraut á miðri brúnni. Brú sem er sérstaklega vel hönnuð fyrir með blandaða umferð í huga, með akbraut á efri hæð en hjóla- og göngubraut á neðri hæð.

 

Lýsing að hverfaskipulagi er, eðli málsins samkvæmt, stefnuyfirlýsing viðkomandi stjórnmálaafls um það hvernig viðkomandi hverfi skuli byggjast og þróast til framtíðar. Núverandi meirihluti í borgarstjórn lét vinna lýsingu að hverfisskipulagi fyrir 8 hverfi borgarinnar sem samþykkt voru úr nefndum með öllum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar og BF og sem síðan voru lögð fyrir borgarráð. Þegar innihald væntanlegs hverfaskipulags fyrir Vestubæ leit dagsins ljós voru viðbrögð slík að meirhlutinn laumaði öllum lýsingum að hverfaskipulagi út af vef borgarinnar nú í aðdraganda kosninga og hafa síðan neitað innihaldi þeirra fullum hálsi.

 

Téðar lýsingar eru eftir sem áður til, unnar samkvæmt framtíðarsýn Samfylkingar og BF og ekkert einfaldara en að draga þær fram að kosningum loknum ef svo fer sem horfir.

 

Hvað okkur Grafarvogsbúa varðar er þetta ekki allt. Því það stendur einnig til að setja upp þrengingar á Borgarveg, sem er mikilvæg tengibraut í hverfinu, en á sama tíma að opna botngötur og veita umferð í gegnum íbúðagötur, sem hingað til hafa verið lausar við erindislausa bílaumferð.

 

Hvað gengur þessu fólki til?

 

 

 

 


Allir á kjörstað...

 

Um leið og óska öllum löndum mínu gleðilegs sumars hvet ég alla, sem hafa aldur til, að fara nú og neyta kosningaréttar síns. Það er alls ekki eins sjálfsagt og sumir vilja telja að við fáum að segja álit okkar á valdhöfum og fá að leggja okkar litla lóð á vogarskál lýðræðisins.


Víða um heim býr fólk við einræði og harðstjórn, er meinað segja skoðun sína og hefur enga möguleika á því hafa áhrif á valdstjórnina. Að við hér á Íslandi skulum hafa búið við almennan kosningarétt í næstum eina öld er aðeins vegna þess að á undan okkur hafa gengið menn, karlar og konur, og lagt líf sitt að veði til þess að tryggja komandi kynslóðum þennan rétt.


Það er því vanvirðing við bæði þá, sem á undan okkur eru gengnir og eins þá sem enn berjast fyrir þessum lágmarksmannréttindum að gera lítið úr kosningaréttinum og gefa sér einhvern fyrirslátt til þess að nýta hann ekki eða fara með hann sem eitthvert grín.


Hafðu þig hægan, Björgólfur Thor...


Ég hefði nú, í hans sporum, haft vit á að grjóthalda kjafti.

Öll þessi málaferli og karp hefðu aldrei orðið til nema fyrir hans tilstilli. Betra hefði verið að vera alfarið laus við þetta allt saman en svo var Björgólfi Thor fyrir að þakka að hér var allt næstum farið á versta veg.

Hefði þessi maður haft snefil af viðskiptaviti hefði þessi "tæra snilld" Æsseif aldrei orðið til og við hefðum losnað við mikið umstang, leiðindi og heinar hættur.

Hafðu hljótt um þig BTB... þetta er allt tilkomið vegna þín og þinna líka.

Til hamingju, Ísland... og það er ekki þér að þakka, Björgólfur Thor...


mbl.is „Grýla gamla er loksins dauð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta spurning...

Mér finnst lang frá því allt vera ómögulegt sem frá stjórnlagaráði hefur komið. En, með fullri virðingu fyrir því fólki sem það skipaði, þá þykja mér það ekki góð vinnubrögð að 25 manns komi saman og skrifi nýja stjórnarskrá á innan við 4 mánuðum. Það var hægt á 18. öld en í dag tíðkast önnur vinnubrögð.

Ef það væri ætlunin að skrifa nýja stjórnarskrá og til þess þyrfti stjórnlagaþing þá ætti slíkt þing að sjálfsögðu að vera bæði fjölmennara og hafa lengri tíma til verksins.

Það vill til að stjórnarskráin okkar er að mörgu leyti ágætisplagg, sem hefur tekið ýmsum breytingum í takt við tímann. Allar fullyrðingar um að hún sé leifar af konungseinveldi og hafi ekkert breyzt frá því á 19. öld eru einfaldlega rangar.

Á lista Economist yfir lýðræðislegustu ríki veraldar trónir Noregur á toppi, Ísland er í öðru sæti, Danmörk í þriðja og Svíþjóð í fjórða. Öll þessi lönd búa við svipað stjórnarfar svo ekki getur stjórnarskráin okkar verið slíkur gallagripur, sem sumir halda fram.

Í umræðunni hefur manni virzt eins og valið standi aðeins um það hvort samþykkja eigi nýja stjórnarskrá Stjórnlagaráðs eða sitja uppi með afgamla og úrelta stjórnarskrá. En valið stendur ekki bara um það. Við höfum miklu víðtækara val og núgildandi stjórnarskrá er fráleitt úrelt.

Við höfum líka val um að halda stjórnarskrá okkar og breyta henni og endurskoða hana eftir kröfu tímans hverju sinni, eins og gert hefur verið, og vanda þá til verka.

Sjötta spurning

Mér þykir löngu tímabært að tilskilinn fjöldi atkvæðabærra manna, karla og kvenna, geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp frá Alþingi. Og sakna ég þess í tillögum stjórnlagaráðs að þar sé t.a.m. ákvæði um að stjórnarskrábreytingar skuli alltaf settar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Einnig sakna ég þess að skilyrt sé hve stór hluti kjósenda taki þátt í slíkri atkvæðagreiðslu til hún teljist marktæk. Þá þykir mér 10% kjósenda full lágt hlutfall. Það á að þurfa meira en eitt íþróttafélag til þess að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu.

En mér þykir ástæðulaust að setja inn ákvæði þess eðlis að ákveðinn fjöldi fólks geti lagt fram frumvarp til laga. Það er starf þingmanna og það er aumt er þeir eru í svo slæmu sambandi við kjósendur sína að ekki sé hægt að fá þá til að taka upp mál sem brenna á fólki.

Fjórða spurning...

Það gæti verið spennandi kostur að geta haft eitthvað meira um það að segja hvaða persónur veljast í kosin embætti.

Ég sé samt ekki að slíkt ákvæði eigi heima í stjórnarskrá. Það er eðlilegra að slíkt ákvæði sé í kosningalögum.

Á vefnum „thjodaratkvaedi.is" er bent á að persónukjör sé alls ráðandi á Írland, í Hollandi og Finnlandi. Ég hef kynnt mér stjórnarskrár þessara ríkja lítillega hvað þetta varðar og þar er ekki að finna neitt slíkt ákvæði. Enda segir t.a.m. í finnsku stjórnarskránni að nánar skuli tilgreint um framkvæmd kosninga o.sv.fr. í lögum.


Næsta síða »

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 4892

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband