Í gær birtist opnugrein í Morgunblaðinu eftir Þór Magnússon. Gerir Þór að umtalsefni gönguferðir á vegum íslenzks ferðaþjónustufyrirtækis og leiðsögn í slíkum ferðum.
Sjálfur er undirritaður fagmenntaður leiðsögumaður, sem hefur starfað sem slíkur, og er félagi í Félagi leiðsögumanna.
Gagnrýnir Þór Magnússon að meðal þeirra sagna sem sagðar eru í téðum ferðum séu uppdiktaðar ljótar sögur um hans eigin skyldmenni auk þess sem snúið sé vísvitandi útúr hefðbundnum kristnum greftrunarsiðum og ferðamönnum talið trú um að í Hólavallagarði sé að finna gröf djöfladýrkenda.
Þó menn kunni að greina á um sannleiksgildi sumra íslendingasagna, hvað þá þjóðsagna, þá þykir sjálfsagt rekja þær á viðkomandi söguslóðum. Sjálfur er undirritaður ekki saklaus af því að lýsa t.d. fjálglega sturlun Bárðar Snæfellsáss og vesturferð Bjarnar Breiðvíkingakappa á ferðum um Snæfellsnes sem um sanna atburði sé að ræða. Einnig þykir sjálfsagt segja frá Gilitrutt tröllskessu þegar ekið er undir Eyjafjöllum og frá Bergþóri á Bláfelli þegar vel sést til Bláfells. Svona mætti lengi telja og víst að slíkar sögur skaða engan en eru frekar líklegar til að lífga upp á ferðalagið, sé vel sagt frá.
Öðru máli gildir þegar skáldaðar eru ósmekklegar og beinlínis rangar sögur um fólk sem enn á sér nána aðstandendur og afkomendur í þeim tilgangi einum að geta kryddað leiðsögn sína safaríkri frásögn.
Ég get vel tekið undir með Þór Magnússyni að þetta er ljót saga.
Í grein sinni beinir Þór Magnússon máli sínu til Félags leiðsögumanna og höfðar til þess og siðaregla þeirra og þar kemur Þór einmitt að því sem ég vil meina að sé eitt af vandamálum íslenzkrar ferðaþjónustu.
Eins og áður sagði er undirritaður fagmenntaður leiðsögumaður og félagi í Félagi leiðsögumanna. Ég vil einnig taka fram að ég tengist fyrirtækinu Draugaferðum ekki á neinn hátt og hef aldrei unnið fyrir það.
Nú vill þannig til að leiðsögumenn, eina fagmenntaða stéttin í ferðaþjónustunni, sem er einn af okkar mikilvægustu framtíðaratvinnuvegum, hafa ekki lögverndað starfsheiti. Þó hefur lengi verið til námsskrá fyrir leiðsögunám, slíkt nám verði í boði í áratugi og fjöldi manns hafa útskrifast sem fagmenntaðir leiðsögumenn. Auðvitað ætti það að vera metnaðarmál hverrar atvinnugreinar að faglært fólk skipi hvert rúm þar sem því verður komið við.
En Metnaðarleysi yfirvalda og ýmissa aðila ferðaþjónustunnar er slíkt að þar hafa menn ekki orðið til þess að beita sér fyrir lögverndun starfsheitis leiðsögumanna og sumir beinlínis lagst gegn því. Það hlýtur þó að vera hverri atvinnugrein til framdráttar að þeir sem að henni vinna séu hvattir til að leita sér menntunar í sínu starfi. Andstætt því sem svo margir hafa viljað halda fram, þá er ekki bara nóg "að kunna málið" þegar kemur að leiðsögn ferðamanna.
Félagi leiðsögumanna er því vandi á höndum að beita sér á nokkurn hátt gegna svona fúski. Eins og málum er háttað í dag getur nefnilega hver sem er titlað sig leiðsögumann ferðamanna og komið óorði á heila stétt atvinnumanna.
Hvað fyrirtækið Draugaferðir varðar þá er á heimasíðu þeirra hlekkur sem heitir "jobs" (atvinna) og þar bjóða þeir velkomna til vinnu, þá sem hafa áhuga á starfi þar sem karlar og konur varpa sér að fótum þeirra og allir eru tilbúnir að bjóða þeim í glas. Engar kröfur eru gerðar um menntun og reynzlu en fólk beðið að taka fram hve lengi það það hyggst dvelja á Íslandi.
Þá má einnig taka fram að leiðsögumann, sem nafngreindur er í grein Þórs Magnússonar, er ekki að finna á skrá yfir fagmenntaða leiðsögumenn, né heldur leiðsögumann þann sem ég sá nafngreindan á heimsíðu fyrir tækisins.
Þetta segir mér nóg um faglegan metnað Draugferða og undrar mig ekki hina ljótu sögu Þórs Magnússonar.