Hún er nú óneitanlega fallegri...

Mér má svo sem í léttu rúmi liggja hver leiðir hvaða flokk í lýðveldinu þarna fyrir vestan.

Bæði vegna þess að ég konungssinni og einnig vegna þess að ég tel það skipta ákaflega litlu máli, jafnvel minna máli en víða annars staðar, hver velst til foryztu þar á bæ. Satt að segja finnst mér lítið annað en aldur, vaxtarlag og húðlitur skilja þá að sem nú berjast þar um völd.

Samt get ég þó ekki annað en fagnað því ef hún Sara kemst þar í leiðtogahlutverk. Hún er óneitanlega til muna fallegri en leiðtogarnir hafa verið hingað til.


mbl.is Palin næsta forsetaefni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er einfaldlega ekki rétt hjá þér, Valtýr.

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari lætur hafa eftir sér að hann haldi að "hvergi sé hægt að finna nokkurn mann [til að rannsaka þetta] sem er ekki í tengslum við einhvern sjóð, banka eða fyrirtæki."

Þetta er einfaldlega ekki rétt og þar með er röksemdafærsla hans fallin. Ég sjálfur er ekki í neinum tengslum við nokkurn sjóð, banka eða fyrirtæki né nokkur í minni nánustu fjölskyldu.

Ég leyfi mér því að bjóða fram krafta mína "til að sinna frumrannsókn á starfsemi viðskiptabankanna þriggja, í aðdragandanum að falli þeirra." Því ég er greinilega maðurinn sem Valtýr taldi að væri ekki til.

Nú kann einhver að finna að því að ég sé hvorki hag- né lögfræðimenntaður en ég vísa öllum slíkum aðfinnslum á bug. Tengslaleysi mitt við sjóði og banka hlýtur að vega meira en einhver skólamenntun.


mbl.is Álíta sig hæfa til að rannsaka syni sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar hittum við sanna vini fyrir.

Undrast nokkur þó maður klökkni?

Það er gott að vita hvar maður hittir vini fyrir. Færeyingar hafa sjálfir þurft að ganga í gegnum erfiða tíma og skilja líklega betur en margir aðrir hvernig ástatt er fyrir okkur.

Nú bjóða þeir okkur hjálp að fyrra bragði. Þetta eru sannir vinir og frændur.

Takk, góðu vinir. Hetta gloyma vit ongantíð.


mbl.is Færeyingar vilja lána Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott á ykkur!

Bezt væri náttúrulega að finna okkur annan markað fyrir fiskinn okkar. Bretar hafa sýnt sig að vera samvizkulausir þrjótar og það er aldrei gott að eiga viðskipti við óheiðarlegt fólk.

Fari hins vegar svo að við neyðumst til þess að verzla áfram við þennan óþjóðalýð er rétt að leyfa þeim að svitna aðeins undan fiskskortinum og bjóða þeim síðan vöruna aðeins gegn fyrirframgreiðslu og á okurverði. Látum þeim aðeins blæða.

Og þið, sem segist gera greinarmun á brezkum ráðamönnum s.s. Jarpi (lesist Brown) og Ástmögri (lesist Darling) og hinum almenna Breta. Við ykkur segi ég: Hver stjórn endurspeglar þá þjóð sem kaus hana yfir sig. 


mbl.is Bretar óttuðust skort á fiski og frönskum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við getum ekki látið þetta líðast

Þetta er ólíðandi. Við eigum að slíta stjórnmálasambandi við Breta strax í gær. Við getum svo sem ekki mikið annað, enda smá og máttlítil, en þetta yrði þó allavega táknræt mótspil.

Svo mætti kannske breyta réttritunarreglum og mæla svo fyrir að Bretland og Bretar skuli eftirleiðis ritast með litlum staf.


mbl.is Landsbanki í slæmum félagsskap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamir hagfræðingar, einmitt.

Því er ekki logið upp á hann Össur að hann getur verið fyndinn og skemmtilegur. Ég var nú farinn að efast um að til væru skynsamir íslenzkir hagfræðingar. Össur virðist hins vegar vita um þá og kannske búinn að hitta annan þeirra, eða jafnvel báða.
mbl.is Krónan tifar á mjóum fótum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinlæti er dyggð

Að hugsa sér á 21. öld og á Norðurlöndum.

Er fólk virkilega svona miklir sóðar? Þvílíkur viðbjóður. 

Vonandi verður þetta atvik kærulausum starfsmönnum í matvælaiðnaði og veitingaþjónustu til áminningar.


mbl.is Fengu magakveisu vegna skorts á handþvotti starfsmanna hótels
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rís þú unga Íslands merki...

Það er bara mjög gott hjá Eimskip og Enn einum að taka upp á þessu. Betra að fleiri fylgdu í kjölfarið.

Sjálfur er ég með fánastöng í mínum garði og hef fyrir sið að flagga alltaf á sunnudögum, svo famarlega sem ég er heima, auk lögboðinna fánadaga.

Sumir nágranna minna hafa spurt mig, þegar þeir sjá fánann við hún, hvert tilefnið sé. Svara ég þá einatt að ég flaggi bara fyrir lífsgleði og föðurlandsást.

Það er ekkert að því að vera elskur að föðurlandi sínu og slíkt þarf á engan hátt að gefa í skyn að maður líti niður til annara. Auðvitað eiga allir að vera stoltir af sínu föður- eða fósturlandi.

Kannske á núverandi kreppuástand eftir að þjappa okkur enn frekar saman um það sem við eigum sameiginlegt: Föðurland, menningu, sögu og tungumál.

Kannske hættir sumum að þykja það hallærislegt að vera Íslendingur og í framtíðinni munum við  hlæja að þeim sem vildu skipta íslenzkunni út fyrir útvatnaða samskiptaensku í viðskipum. Rétt eins og við hlæjum í dag að þeim sem eitt sinn töldu sig meiri heimsborgara fyrir að tala dönsku.


mbl.is Eimskip flaggar íslenska fánanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hví að hlýða á Bubba í Köben?

Ég hef aldrei skilið þessa áráttu að hópast til útlanda í örstutta ferð til þess eins að hlýða á tónleika íslenzkra tónlistarmanna (karla og kvenna).

Í fyrsta lagi verður það varla til að auka hlustun á viðkomandi snilling í útlöndum ef landinn er búinn að kaupa öll sætin á tónleikunum og í öðru lagi eru tækifærin líklega fleiri hér heima að komast á tónleika þessara manna.

Annars má mér svo sem vera sama í hvaða afþeyingu fólk kýs að eyða sínu fé. Það eru varla vildarvinir bankanna sem eru að skemmta sér á annara kostnað á þessum tónleikum. Ætli það verði ekki langt þangað til fjármálastofnanir láta umbreyta heilu þotunum í fyrsta farrými til að bjóða síðan nokkrum flugvélafyllum að gæðingum til útlanda að hlýða í íslenzka tónlistarmenn auk þess að splæsa í fimm stjörnu uppihald.

Ég verð samt lýsa yfir vanþóknun minni á niðurlagi þessarar fréttar. Ég hef reyndar enga skoðun á því hversu góða eða slæma tónlist Bubbi á að hafa samið "á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar". Né hef ég nokkra skoðun á því hversu miklu betri eða verri sú tónlist er sem hann semur nú. Það er heldur ekki blaðamannsins, sem ritar þessar frétt, að tjá sig um slíkt.

Hér er verið að skrifa frétt en ekki gagnrýni og mér þykja þessi vinnubrögð ákaflega ófagmannleg.


mbl.is Engin kreppa hjá Bubba í Köben
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt skal vera rétt, Eiríkur

Gott hjá Eiríki að skrifa þessa grein í Guardian. Vonandi sér brezkur almenningur hlutina í réttara ljósi á eftir. Vonandi gera þeir sér grein fyrir að Jarpur (lesist Brown) beitir sömu aðferðum og vondir menn beittu til að komast í valdastóla í Evrópu fyrir miðja síðustu öld og Bretar dansa eftir sömu múgæsingu og þær þjóðir sem studdu slíka menn til valda á sínum tíma.

Þó hef ég mína efasemdir eftir að hafa lesið nokkrar þeirra á fjórðahundrað athugasemda sem nú er komnar inn á vefinn.

Mér fannst samt að Eiríkur hefði vel getað látið það vera að hnýta í okkar eigin ríkisstjórn. Nú ríður á að við stöndum saman. Jarpur er vondur, Bretar eru óvinir en Íslendingar eiga að standa saman. Skot Eiríks á ráðamenn okkar, sem nú róa lífróður til bjarga því sem bjargað verður, dró mjög úr grein hans og er honum til vanza.

Þá fannst mér líka merkilegt að maður sem ber starfsheitið prófessor er ekki betur að sér í Íslandssögu en raun ber vitni. Vissulega er íslenzka lýðveldið ungt og vissulega var það stofnað 1944. Íslendingar hlutu hins vegar sjálfstæði (independence) árið 1918. Sumum kann að þykja ég smásmugulegur og segja mig vera að tapa mér í smáatriðum en rétt skal vera rétt.

 


mbl.is Grimmúðlegt og úthugsað auglýsingabragð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband