Fantar og fúlmenni...

Ofbeldi leysir engan vanda það kallar aðeins á meira ofbeldi.

Fólk á að geta verið öruggt heima hjá sér, sama hvaða embættum eða störfum það gegnir.

Ég er enginn já-bróðir Ögmundar Jónassonar en ég get vel unnt honum friðhelgi á eigin heimili og ég leyfi mér að lýsa vanþóknun minni á slíkum lyddum og pakki sem ræðst að heimili fólks í skjóli nætur.

Klukkan þrjú aðfararnótt laugardags var ég reyndar farinn að sofa... en það er önnur saga.


mbl.is Ráðist á heimili Ögmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frekja og yfirgangur

Það er erfitt fyrir Ólínu Þorvarðardóttur að kyngja því að hún þurfi að fara að lögum og reglu eins og aðrir. Er Álfheiður Ingadóttir nú búin að eignast skoðanasystur á þingi?

Væri ég með hatt tæki ég ofan fyrir Ástu Ragnheiði fyrir að fara að réttum fundarsköpum, óháð því hver stendur í pontu. Hún er maður að meiri.

Ólína heldur greinilega að fyrst hennar flokkur er ásamt samstarfsflokki sínum í meirihluta á þingi þá sé þeim allt heimilt... rétt eins og þegar kommúnistarnir komust til valda í A-Evrópu á sínum tíma og jörðuðu andstöðuflokka sína á skömmum tíma með yfirgangi og valdníðslu.


mbl.is Hvað er að gerast hér?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er ekki á móti stríði?

Ég er líka friðarsinni og ég er líka á móti hernaði. Og hver er ekki á móti stríði? Ég skil samt ekki hvernig borgarstjóri getur á þennan hátt færzt undan embættisskyldum sínum.

Hefðu þessi skipakoma átt sér stað seinni hluta árs 1939 hefði ég skilið viðbrögð hans. Þessi skip koma hins vegar ekki í hernaðarlegum tilgangi. Þvert á móti. Þessi skipakoma er friðsamleg og það er ekkert sem afsakar þessa afstöðu borgarstjóra. 

Hve lengi á hann að komast upp með fíflaganginn? Hvað kemur næst?

Ætlar hann kannske að vísa öllum sendiráðum þeirra ríkja, sem halda úti her, burt úr borginni? Rétt eins og hann vísaði þessum þýzku herskipum frá Miðbakka og út í Sundahöfn? Það yrði þá líklega ekkert sendiráð eftir í borginni.

Hann ætlar kannske líka að vísa utanríkisráðuneytinu útfyrir borgarmörkin?


mbl.is Á móti hernaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hoppa hvert?

Það er ekki að spyrja að fúkyrðunum og taktleysinu hjá Þórunni Sveinbjarnardóttur. Ekki er langt síðan hún bað ónefndan fréttamann um að skila því til ónefnds frænda hans að hann ætti að hoppa upp í nokkuð sem tepran ég vil ekki láta hafa eftir mér á prenti.

Nú sendir hún Ásmundi Einari tóninn á vettvangi Alþingis. Ætli Álfheiður hefði gert athugasemd hefði hún setið í forsetasól á þessum fundi?

Það er greinilega eitthvað að angra Þórunni. Ætli fólk verði ekki svona útrillt og úldið þegar það þarf stöðugt að bera lof á firringuna hjá Jóhönnu Sigurðardóttur?


mbl.is „Farið hefur fé betra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvílíkur vandræðagangur...

Það er alltaf sami vandræðagangurinn hjá þessu liði.

Það er ekki að furða þó ekkert miði áfram. Þetta fólk gerir hverja vitleysuna á fætur annarri og þarf síðan að staldra við til þess að lappa uppá skemmdirnar með jafnvel enn verri árangri. Við komust aldrei yfir á hinn bakkann með þessu móti. Þjóðin er föst úti í miðri á og fararstjórarnir vita varla lengur í hvora áttina vatnið rennur.


mbl.is Árni Þór víkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málfarshornið

Nokkuð er nú um liðið síðan ég tjáði mig síðast um málfar á þessum vettvangi. Þar með er ekki sagt að málfar hafi almennt batnað það mikið mér þyki ekki ástæða til þess að fárast yfir því. Öðru nær.

Eitt af því sem fer óskaplega í taugarnar á mér er orðið "snjóstormur". Það má alveg gefa sér að þegar þetta orð birtist í fréttum hefur einhver óvandvirkur blaðamaður verið að þýða frétt úr ensku um hríðarbyl einhversstaðar úti í heimi.

Það vill til að orðið "snjóstormur" er einfaldlega ekki til á íslenzku. Það er hins vegar til fjöldi skemmtilegra orða, sem grípa má til, þegar þýða skal enska orðið "snow storm".

Þar má t.a.m. nefna: Hríð, bylur, él, hríðarél, hríðarbylur, kafaldsbylur, blindöskubylur, stórhríð o.sv.fr.

Ég vildi óska þess að menn, karlar og konur, vönduðu sig betur í umgengni við móðurmálið.


Hrokafull og veruleikafirrt þvergirðing...

Það er alltaf sami hrokinn í forsætisráðherranum. Jafnvel kjaftforustu götustrákar "blogg"-heimsins verða orðlausir þegar Jóhanna Sigurðardóttir tjáir sig. Firringin, sjáfsumgleðin, hrokinn og kokhreystin er slík að maður spyr sjálfan sig: Er þetta virkilega formaður stærsta stjórnmálaflokksns á Alþingi og forsætisráðherra ríkistjórnar Íslands sem talar?

Heldur Jóhanna Sigurðardóttir virkilega að vantraust á ríkisstjórnina sé eitthvað sem skapar pólitíska upplausn í landinu? Gerir hún sér enga grein fyrir því að núverandi ríkisstjórn er ástæða póltískrar upplausnar í landinu? Er hún ekki enn búin að átta sig á því  að skiptir öllu máli fyrir "uppbyggingu atvinnulífsins og efnahagsþróun næstu árin" að þessi ríkisstjórn fari frá?

Hvenær í ósköpunun ætlar þessi manneskja að átta sig á því að hennar tími er löngu kominn og liðinn?

Jóhanna Sigurðardóttir er hrokafull og veruleikafirrt þvergirðing, sem ætti að gera okkur öllum þann greiða að láta sig hverfa sem fyrst af hinum pólitíska vettvangi.


mbl.is Loksins, loksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldið grímulaust...

Já fínt, segi ég nú bara. Við vitum þá hvar við stöndum gagnvart þessu liði.

Hér birtist ofbeldið grímulaust. Ekki svo að skilja að mér sé mikið í mun að sjá Ísland inni í Evrópusambandinu enda tel ég framtíð okkar betur borgið utan þess.

Þessi orð Sylvesters gefa samt alveg tóninn fyrir það sem koma myndi ef við færum þarna inn. Minni aðildarríkjum er greinilega stillt upp við vegg og þeim er ekki ætlað að komast að annarri niðurstöðu í stórum málum en þeirri sem stærri ríkjum hugnast.

Þar fyrir utan er frekjan með eindæmum. "Íslendingar ættu að skipta um forseta".  Já, einmitt! Ætli það sé ekki okkar að ákveða það, hvað sem okkur finnst um forsetann. Er þetta kannske líka það sem koma myndi?

Nei takk, Sylvester, við höfum ákaflega takmarkaðan áhuga á að einangra okkur frá umheiminum með því að gangast undir ofríki Evrópusambandsins. En þakka þér samt kærlega fyrir að gera okkur ljóst hvers við megum vænta og hvað við ættum að forðast.

Svo held ég að það ætti að vera blaut tuska í andlit já-sinna og Evrópusambandssinna að postularnir í ESB telja það "blekkingu" að eignasafn þrotabús Landsbankans nái að greiða það sem útaf stendur.

Mér hefur nú oftast fundist hollendingar óttalegir dónar en nú tók steininn úr. Ég mun halda áfram efnahagsþvingunum mínum gagnvart þeim og það verður enginn hollenzkur bjór, séniver eða hollenzkt rískex á mínum borðum fyrr þeir læra að koma fram við okkur af meiri kurteisi. 


mbl.is Hóta að standa í vegi aðildar að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og Lenín?

Þetta er nú ekki fallega gert og kom Guðfríði Lilju greinilega í opna skjöldu. Ætli Steingrímur sé ekki að skerpa línurnar í flokki sínum og losa sig við þá sem ekki eru honum leiðitamir?

Hann hugsar kannske eins og forverinn, Lenín, að betri sé fámennur "elítuflokkur" en fjöldahreyfing.

Annars ætla ég ekki að velta mér of mikið upp úr innanhússmálum vinstri-grænna. Þeir eru sjálfir fullfærir um auka eigin vandræði.


mbl.is Ótrúleg vinnubrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barður þræll...

Í skáldsögu Laxness “Eldur í Kaupinhafn” býðst Arnas Arnæusi að vinna með Þjóðverjum, sem hefur boðizt að kaupa Ísland, og verða landsstjóri þeirra.

Þrátt fyrir að geta orðið valdamestur manna á Íslandi og þrátt fyrir að geta tryggt samlöndum sínum meiri velmegun kýs Arnæus ekki að taka þessu boði. Hann veit sem er að frelsið er verðmætt og hann segir því við fulltrúa þýzku kaupmannanna: “Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður því í brjósti hans á frelsið heima”.

Við værukærir nútíma Íslendingar kunnum líklega ekki að meta frelsið á sama hátt og þeir sem eru á undan okkur gengnir og þurftu að berjast fyrir því.

Ég vil ekki kaupa mér frið og greiða fyrir hann með frelsinu. Ég ætla ekki að kyssa á vöndinn og þakka fyrir að mega það. Ég ætla að kjósa “NEI”.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 4909

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband