Færsluflokkur: Bloggar

Ég er fylgjandi (alvöru) stjórnlagaþingi...

Ég er íhaldsmaður og þrátt fyrir móðursýkislegar upphrópanir forsætisráðherra þá sé ég ekkert að því að kalla saman stjórnlagaþing.

Stjórnarskrá eða stjórnskipunarlög eru þær reglur sem stjórnvöldum ber að fara eftir við stjórn ríkisins. Stjórnarskráin þarf því að vera einföld og knöpp og þar má undir engum kringstæðum finna einhver vafaatriði sem menn (karlar og konur) geta túlkað á mismunandi hátt sér í hag.

Það er því nauðsynlegt að þeir sem koma að gerð hennar sé vel upplýst og ofstopalaust fólk, sem hefur góða heildarsýn og missir ekki sjónar af tilganginum vegna smáatriða og sérhagsmuna. Ég treysti þjóðinni vel til þess að velja þetta fólk og ég tel alþingismenn ekkert endilega vera bezt í stakk búna til þess að búa sjálfum sér til starfsreglur.

Hins vegar þá græt ég ekki að boðað stjórnlagaþing á þessu ári verður nú líklega blásið af. Það þing var ekkert annað en léleg afsökun fyrir því að slíkt þing yrði haldið. Skammarleg tilraun til þess að  kveða niður óskir fólks um endurskoðun stjórnarskrárinnar með því að kalla saman einhverja samkundu hverrar tillögur stjórnvöld gátu síðan farið með að lyst. Enda sýndi kjörsóknin að öllum almenningi fannst lítið til koma… þótt ég hafi reyndar kosið sjálfur, því mér var annt um að þarna sæti hæft fólk þó vettvangurinn væri ekki eins ég hefði viljað sjá hann.

Vel skal til vanda, sem lengi skal standa. Stjórnlagaþing er ekki eitthvað sem forsætisráðherra hristir fram úr erminni. Stjórnlagaþing krefst langs og vandaðs undirbúnings. Ég vil sjá blásið til stjórnlagaþings að loknum Alþingiskosningum þar sem tvö þing hafa samþykkt þá r (eins og krafist er við slíkar breytingar) að þar til boðað stjórnlagaþing hafi, ásamt þjóðinni, vald til þess að setja ríkinu nýja stjórnarskrá.

Ég vil að slíku stjórnlagaþingi sé gert að bera drög sín undir þjóðaratkvæði og það sé í valdi þjóðarinnar að samþykkja slík drög eða hafna þeim. Ég vil einnig að áskilið sé að ákveðið lágmarkshlutfall atkvæðabærra manna (karla og kvenna) verði að taka þátt í þeirri kosningu svo hún geti talizt gild.

Þá vil ég að í tengslum við gerð nýrrar stjórnarskrár verði kveðið á um að stjórnarskránni verði í framtíðinni ekki breytt nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu um áætlaðar breytingar. Einnig vil ég sjá ákvæði í nýrri stjórnarskrá, sem gefur íslenzkum kjósendum rétt til þess að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um lagasetningar fari ákveðið lágmarkshlutfall atkvæðabærra manna fram á það. Þjóðaratkvæðagreiðslur eiga ekki að vera eitthvert hótunartæki ráðamanna og ég sé enga ástæðu til þess að Alþingi og ríkisstjórn eigi að hafa frumkvæði að þeim.

“Stjórnlagaþing” 25 þingmanna verður aldrei sá vettvangur, sem þarf til svo virk umræða verði um setningu stjórnskipunarlaga. Ég myndi vilja sjá 50 – 100 manna samkundu, sem tæki sér góðan tíma til að vinna sómasamlega af hendi það stórvirki sem ætlast er til af stjórnlagaþingi.

Nú kann einhver að segja að slíkt þing myndi verða talsvert kostnaðarsamt og það er alveg rétt. En ég endurtek: Vel skal til vanda, sem lengi skal standa. Það reisir enginn hús nema hann hafi efni á því að byggja undir það styrkan grunn. Ég held að okkur væri nefnilega nær að reyna að vinna að lausn þeirra vandamála, sem nú eru mest aðkallandi og bíða með að kalla saman stjórnlagaþing þar til aðstæður hafa breyzt, þar til um hefur hægst. Síðan má vinda sér það í stórvirki að kalla saman alvöru stjórnlagaþing, sem okkur væri sómi að og sem skilaði þeirri vinnu sem af því er ætlast.

Að ætla sér að afgreiða stjórnlagaþing með einhverri fljótaskrift er núverandi stjórnvöldum til vanza og forsætisráðherra ætti að skammast sín fyrir að hafa ætlað að svindla á þjóðinni með því að gefa sjáfum sér einhvern afslátt af sjálfsögðum kröfum um vönduð vinnubrögð.


mbl.is Stjórnlagaþingskosning ógild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér leiðist borgarstjórinn...

Þó lýðræðið sé skásta stjórnarfar sem við þekkjum þá er það ekki fullkomið og einn af göllum þess er einmitt að spéfuglar eins og Jón Gnarr og hirðin í kringum hann geta komizt til valda án þess hafa nokkurn yfirlýstan eða raunverulegan vilja eða áhuga á að vinna fyrir borgarana.

Borgarbúar létu því hafa sig að fífli þegar þeir kusu sér borgarstjóra, sem hafði það yfirlýsta markmið að svíkja öll loforð og sagði hreint út að hann byði sig fram til þess eins að komast í þægilega og vel launaða innivinnu.

Þar sem ég geri ráð fyrir að við viljum flest búa við lýðræði, með öllum kostum þess og göllum, þá höfum við aðeins þann eina kost í stöðunni að þreyja þorrann og góuna og bíða þess að geta sagt álit okkar í næstu kosningum.

Þangað til sitjum við líklega uppi með borgarstjóra, sem virðist telja það eitt helzta hlutverk sitt að skemmta sér á kostnað borgarbúa og að Reykvíkingar eigi helzt að einbeita sér að því  að borgarstjóranum líði sem bezt og gæta þess að koma honum ekki í uppnám.

Borgarstjórinn hefur t.a.m. komizt að því að borgarstjórastarfið er umfangsmeira en svo að hann nái að sinna því einn. Hann hefur nú ráðið sér nk. "aðstoðarborgarstjóra" sem á að vera milliliður milli hans og sviðsstjóra borgarinnar. Hingað til hafa borgarstjórar getað sinnt starfi sínu án slíkrar milligöngu og fengið greidd sín laun fyrir það. Mér spurn hvort Jón Gnarr hafi lækkað launin sín, sem því nemur.

Það er samt merkilegt að þrátt fyrir allar þær annir, sem fylgja borgarstjórastarfinu og Jón Gnarr kemst ekki yfir að sinna, þá virðist hann hafa tíma fyrir sjónvarpsþáttagerð... hann skemmtir sér kannske betur við þá iðju.


mbl.is Samskiptin við minnihlutann tímaeyðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef ég væri Björn Valur Gíslason...

Ég skil nú ekki þetta fár þó Björn Valur Gíslason kjósi að tjá sig. Maðurinn getur nú ekki talist sérlega marktækur.

Í fyrsta lagi ber hann mönnum á brýn alvarleg og refsiverð afbrot, þ.e.a.s. mútuþægni, án þess að færa fyrir því nokkur rök og í öðru lagi þá getur Björn Valur varla talist vel upplýstur eða víðlesinn maður.

Það er ekki langt síðan að ég heyrði hann tjá sig af mikilli alvöru um yfirstandandi efnahagsörðugleika sem "mesta hrun sem gengið hefur yfir nokkra þjóð á nokkrum tíma". Hann hefur einnig látið hafa eftir sér í þingræðu að gjaldeyrishrunið hér eigi sér varla hliðstæðu. Að svona menn skuli sitja á þingi segir líklega meira um kjósendur en þá sjálfa. Það breytir því þó ekki að menn ættu að varast að tjá sig um hluti sem þeir hafa ekki meira vit á.

Að bera upp á samborgara sína glæpsamlegt athæfi án þess að færa fyrir því gild rök og sannanir er glæpsamlegt í sjálfu sér og Björn er kominn þar á hála braut.

Húsasmíðameistari nokkur hafði það fyrir vana að segja lærlingum sínum að mæla tvisvar og saga einu sinni. Ég held að Björn Valur ætti að temja sér að hugsa tvisvar áður en hann mælir... og jafnvel að hugsa sig um þrisvar og sleppa því yfirleitt að tjá sig.

Ef ég væri Björn Valur Gíslason myndi ég njóta hvers þess dags sem ég hefði vit á að grjóthalda kjafti.


mbl.is Biður Kristján Þór afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei má maður ekki neitt

Án þess að ég ætli að tjá mig efnislega um orð Ásbjarnar þá verð ég að segja að það er orðið vandlifað í þessu landi ef maður má ekki lengur segja það sem manni býr í brjósti á einfaldri íslenzku án þess að  einhver hagsmunahópur hörundsárra og hávaðasamra minnihlutahópa rísi upp á afturlappirnar og fari fram á opinbera krossfestingu.

Reyndar held ég að Ásbjörn hafi aðeins sagt það sem margir aðrir vildu sagt hafa en voga sér það ekki vegna hugsanlegra viðbragða.

Ég sagði reyndar áðan að ég ætlaði ekki að tjá mig efnislega um orð Ásbjarnar en ég er t.a.m. ósammála honum um sk. tónlistarhús. Ég vil sjá það rísa en reyndar með nokkuð öðrum formerkjum en áætlað er. Að byggja þetta hús skapar vinnu og bærum við gæfu til þess að skilgreina það í fyrsta lagi sem ráðstefnuhús og í öðru lagi sem tónlistarhús og markaðsettum það rétt gæti það skapa enn meiri og varandi vinnu.

Ég get alls ekki lesið það út úr orðum Ásbjarnar að hann telji listamenn almennt ekki vinna fyrir sér. Hann er í þessu samhengi að tala um sk. listamanna-"laun" og eins og þau eru hugsuð í dag þá er ég og örugglega þúsundir annarra Íslendinga fyllilega sammála honum. Ég skil ekki hvernig sk. listamenn telja sig, umfram aðrar starfstéttir, geta sótt fé í opinbera sjóði án þess að gera neitt.

Ég get vel ímyndað mér sjóð sem styrkti unga og efnilega listamenn (karla og konur) til að koma undir sig fótunum, t.d. með því að greiða þeim þokkalega laun í ár eða tvö. Ef að þeir síðan að því loknu væru búnir að hasla sér völl og farnir að lifa af list sinni þá er það vel og framlag þeirra til samfélagsins í framtíðinni í formi skatta og afleiddrar vinnu myndi fyllilega réttlæta slíkan styrk.  Ef hins vegar listamaðurinn er ekki farinn að geta lifað af list sinni eftir að hafa þegið slíkan styrk þá væru honum hollast að leita sér að einhverri annarri vinnu og hugsanlega stunda list sína sem aukavinnu eða "hobbý".

Hins vegar að greiða listamönnum, eins og gert er í dag, fúlgur fjár fyrir að gera ekki neitt er fyrir ofan minn skilning. Sérstaklega þegar litið er til þess að þeir sem þiggja eru helzt þeir sem þegar eru fyllilega matvinnungar umfram aðra kollega sína. Með fullri virðingu fyrir því fólk þá leyfi ég mér að spyrja: Hvað eru Þráinn Bertelsson, Einar Már Sigurðsson, Hallgrímur Helgason, Andri Snær Magnason og Kristín Steinsdóttir að gera á fullum launum hjá hinu opinbera án þess að þurfa að leggja nokkuð í staðinn? Ég veit ekki betur en þetta fólk sé betur sett en margir starfsbræður þeirra og systur. Og hvað á það að þýða á tímum niðurskurðar að hækka launin við þetta fólk meðan aðrir taka á sig skerðingar?

Það væri þá lágmarkskrafa að meðan listamenn þiggja laun frá ríkinu þá þyrftu þeir að skila einhverju því framlagi til hins opinbera að það gæti réttlætt slíkar greiðslur.


mbl.is Ásbjörn fundar með listamönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirring Jóhönnu

Er þetta ekki bara enn ein sönnun þess að Jóhanna Sigurðardóttir lifir í einhverskonar sýndarveruleika þar sem hún heldur að hlutirnir séu að gerast eins og hún ímyndar sér þá?

Að öðrum ólöstum þá held ég að Jóhanna Sigurðardóttir sé líklega "jafn-ómögulegasti" stjórnmálamaður, sem Ísland hefur alið. Þá á ég við að hún er jafn vita vonlaus á öllum sviðum en ekki eins og svo margir aðrir, sem þrátt fyrir alla galla hafa þó eitthvað til síns ágætis.


mbl.is Fengu ekki fundarboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrumari og múgæsingamaður

Ekki sakna ég Harðar og ég skil ekki hvernig hann telur sig þess umkominn að hvetja fólk til stillingar. Það var hann sem æsti fólk upp á sínum tíma til þess að ráðast á lögreglustöðina, það var hann sem hvatti fólk til ofbeldis og íkveikju og það var hann sem hélt því fram að fólk mætti túlka lög að eigin vild. Það var Hörður Torfason, sem ól á reiði fólksins.

Svo þykist hann vera einhver boðberi friðar og stillingar og vælir yfir því að fólk sé hætt að koma á tónleika hjá sér vegna þessa. Skyldi engan undra.

Merkilegt samt hvernig maðurinn hvarf gersamlega af sjónarsviðinu þegar VG var komið í ríkisstjórn. Ætli það sé ekki vegna þeirra sem nú sitja í ráðherrastólunum að hann þykist geta komið fram sem einhver friðarins maður? Hvað mig varðar þá hefur hann afhjúpað sig gersamlega sem þægt þý Steingríms Joð og kumpána hans.

Það er réttur minn og annarra að mótmæla og fólk á að mótmæla ef það sér ástæðu til. Það er réttur okkar og við eigum að nota hann. Ég sé hins vegar enga lausn í því að hvetja til ofbeldis og óeirða og ætli menn, karlar og konur, að mótmæla einhverju þá verða þeir að  vita hverju er verið að mótmæla og gera sér grein fyrir því hvað þeir vilja sjá í staðinn. Að mótmæla mótmælanna vegna eru ekki mótmæli.


mbl.is Reiðin ráði ekki för
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og talað út úr mínu hjarta

Ég viðurkenni að ég hef ekki verið sérlega hrifinn af Ólafi Ragnari í embætti... og er það satt að segja ekki.

En menn mega eiga það sem þeir eiga og væri ég með hatt tæki ofan fyrir honum fyrir að tala hér hreint út um hlutina. Hann hefur tekið skynsama og rökstudda afstöðu til Æsseif og EB-aðildar og liggur ekki á henni.


mbl.is Hvers konar klúbbur er þetta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkindatólið Jenis av Rana og bakþankar Fréttablaðsins

Það er með eindæmum hvernig orð Jenisar av Rana og afstaða hans hafa komið af stað nokkurs konar múgæsingu. Meðan sumir fara mikinn í því að verja Færeyinga og fullyrða að þeir séu flestir bezta fólk eru aðrir uppteknir við að kalla þessa vini okkar og frændur öllum illum ónefnum, sem ég vil alls ekki hafa eftir.

Utanríkisráðherra Íslands lætur eins og hrekkisvín á leikvelli og notar orðbragð, sem líklega ekki einu sinni umræddum Jenis dytti í hug að nota og RÚV veður af stað  og fiskar upp Færeyinga á götu sem eru tilbúnir til þess að lýsa vanþóknun sinni á manninum. Allir virðast telja sér skylt að slá skjaldborg um Jóhönnu Sigurðardóttur. Forsætisráðherrann sem ekki enn farinn að draga til stafs með skjaldborgina sem hann sjálfur var búin að lofa.

Færeyskir stjórnmálamenn skamma þennan starfsbróður sinn blóðugum skömmum í þeirri von að geta sefað reiði Íslendinga, sandkassaleikurinn er kominn á fullt og allt virðist leika á reiðiskjálfi.

Það er greinilegt að einhverjum er misboðið og einhver hefur ekki talað samkvæmt því sem pólitísk rétthugsun býður.

Ég ætla ekki að tjá mig um ummæli Jenisar av Rana en það fór virkilega um mig í morgun þegar ég las sk. bakþanka í Fréttablaðinu. Þar segir orðrétt annars vegar:"Hrikalega hlýtur það að vera vandræðalegt fyrir eðlilega Færeyinga að maður eins og Jenis skuli fá að tjá sig opinberlega" og hins vegar: "Sem betur fer er svona röfl ekki lengur samþykkt í opinberri umræðu hér á land". Hér hefur títtnefndur Jenis sem sagt ráðist á heilagar kýr að mati bakþankaritara, sem finnst greinilega að þeir sem ekki syngja í kór eigi ekki að fá að tjá sig og virðist jafnframt halda að hér á landi séu til einhverjar reglur um það hvað má segja og hvað má ekki segja.

Sem betur fer ríkir hér tjáningarfrelsi en það væri ekki mikið lengur ef fólk eins og bakþankaritari fengju að ráða, sem telur sér skylt að kalla títtnefndan Jenis öllum mögulegum ónefnum en vill helzt að honum verði sjálfum bannað að tjá sig.

Voltaire sagði einhvern tíma eitthvað á þessa leið: "Ég er algerlega ósammála skoðunum þínum en ég mun með lífi mínu verja rétt þinn til að halda þeim fram".

Mér þykir þetta hollt viðhorf og þess vegna finnst mér að  Jenis av Rana, Hólmfríður Helga bakþankaritari og allir aðrir eigi að fá að tjá skoðanir sínar hvort sem ég er sammála þeim eða ekki. Orð þeirra dæma sig sjálf.

Eins og ég sagði áðan þá ætla ég ekki að tjá mig um orð Jenisar av Rana en mín vegna mætti hann halda því fram að Jörðin væri flöt.


mbl.is Danir blása Jenis-málið út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með þá, sem málið varðar?

Þessi könnun segir nákvæmlega ekki neitt... ekki fyrr en það fæst uppgefið hve margir aðspurðra eru Reykvíkingar og hvernig svörin litu út hjá þeim. Fólk úr öðrum sveitarfélögum gæti s.s. haft áhuga og skoðun á borgarstjóranum í Reykjavík en álit þeirra í svona könnun skiptir ekki nokkru máli.

Það kæmi mér ekki á óvart að margir utan Reykjavíkur væru bara hamingjusamir með það að Jón Gnarr er ekki sveitarstjórinn þeirra og þ.a.l.  þokkalega ánægðir með hann af þeirri ástæðu einni.

Það læðist að manni sá grunur að leita hafi þurft út fyrir borgina til þess að fá þokkalega jákvæða útkomu í pantaðri könnun.


mbl.is 40% ánægð með störf borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirrt þvergirðing...

Ég ætla ekki að tjá mig um nýorðnar ráðherrahrókeringar nema að segja: Verst að þeir skyldu ekki skipta um forsætisráðherra.

Ég held að flest hefði verið betra en þessi veruleikafirrta þvergirðing til þess að leiða ríkisstjórn.


mbl.is Hefur áhyggjur af stjórnarandstöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 4661

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband