Mótlmælafund... nei, takk

Breiðfylking gegn ástandinu... er það sem sagt ástandið, sem fólkið er að mótmæla? Af hverju mótmælir það ekki bara skammdeginu líka?

Ég held að fólk sé komið svolítið langt frá raunsæinu. Mér heyrist helzt að fólk sé aðallega að mótmæla til að mótmæla. Síðustu helgi hóf laganemi við HR upp raust sína við mikla hrifningu. Þegar bent var á hrópandi rangfærslur og klára uppspuna í ræðu hans reis fjöldi manns upp á afturlappirnar og lýsti því yfir að það skipti engu máli hversu sönn eða ósönn ræðan hefði verið. Þetta hefði nefnilega verið svo góð ræða og einmitt það sem fólkið vildi heyra. Já, einmitt það sem fólkið vildi heyra. Það hafa nefnilega margir komist langt á því að skeyta engu um sannleikann en segja fólki bara það sem það vill heyra.

Þessi sami laganemi hvatti fólk líka til ofbeldis og það breytir engu þó hann beri slíkt af sér í morgnublaðsviðtali í dag. Þeir vita betur sem á hlýddu. Í téðu viðtali segist námsmaðurinn einnig að sér sé frjálst að túlka lögin að sinni vild. Já, einmitt, það hafa líka margir náð að réttlæta ótúlegustu hluti með því að túlka lög, reglur og staðreyndir að eigin vild.

Einn helzti skipuleggjandi þessara mótmælafunda hvatti líka fólk til óeirða við lögreglustöðina. Vegna þess, eins og hann sagði, það mætti ekki handtaka mótmælendur. Þá vitum við það, mótmælendur njóta friðhelgi. Reyndar vita allir hvernig þau mótmæli fóru. Fólk braut rúður og hurðir á lögreglustöðinni og ráðist var inn á stöðina. Eðlileg viðbrögð lögreglu er svo gagnrýnd og innbrotsmenn ganga burt með sjálfgefinn geislabaug.

Ég held að sumir ættu að fara að athuga sinn gang. Það ábyrgðarhluti að ala svona á reiði fólks og óvissu.

Áður en mótmæli eru skipulögð ætti fólk að gera sér grein fyrir því hverju það er að mótmæla og koma með raunhæfa valkosti. Sá er bara á móti ástandinu gæti allt eins verið á móti nóttinni.


mbl.is Útifundur boðaður á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Þér er að sjálfsögðu heimilt að sitja heima og taka ekki þátt. Og þú mátt líka skrifa blogg um hvað þér finnst um mótmælin. Sumir mæta ekki til að mótmæla í bókstaflegri merkingu, heldur til að sýna hug sinn, sýna að þeir séu ósáttir við ástandið og framvindum.

Ég held áfram að mæta á Austurvöll á mínum forsendum og tel þær ærnar. Jafnvel þó ég sé ekki sammála öllu sem allir ræðumenn segja.

Haraldur Hansson, 28.11.2008 kl. 17:26

2 identicon

Sauður

Gilli (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 17:53

3 identicon

Mikið dj... ertu orðinn gamall Emil minn. Þú tuðar endalaust eins og úrillt íhalds-gamalmenni á þessu bloggi þínu.  Þú ert greinilega mjög sáttur við þína menn.

Leitt að segja þetta kæri vin; en þegar flokkssauðir jarma svona eins og þú gerir hér þá sannfærist enn betur um að við verðum enn að herða róðurinn og andófið. Auk þessa þá ferð þú með rangt mál í færslu þinni, Hörður hvatti ekki til neinna óeirða, ég var á vellinum og veit að þetta er ósatt hjá þér hann hvatti fólk til að mæta og mótmæla handtökunni títtnefndu, hann hefur alltaf beðið fólk um að sýna stillingu.

Hver hefur reitt fólk til reiði?? Nei Emil; Hörður Torfa og þetta fólk er ekki ábyrgt fyrir reiði þessa fólks, það er framganga bjöllusauðanna (sem þínir líkar marsera nú eftir) sem svipt hefur fólk eigum sínum gert það atvinnulaust og fyllt það ótta um framtíðina. "Glæpur" laganemans voru orð á fundi , berðu þann glæp saman við tilefni mótmælanna.

 Emil, Þessi fyrirlitning þín á venjulegu fólki sem skýn af þér í þessari færslu er ærið tilefni vinslita.... sjáum til hvort mér rennur reiðin gagnvart þér á næstunni en reiði mín gagnvart þínum flokki og forystu hans hverfur ekki í bráð. 

Jón Baldur Hlíðberg (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 18:11

4 Smámynd: Rabbabara

Vil ég þakka  þér fyrir greinina Emil. Það er farið að ala svo á heift og illindum í þjóðfélaginu að það er með ólíkindum 

Mótmæli eiga vissulega rétt á sér en það sem ég sá af síðasta fundi fannst mér bera nokkuð mikinn vott af  múgæsingu. Þar kom vilji sterklega í ljós að mótmælendur vilja ekki þetta, þennan eða hitt ..bara e-ð annað en  hvað? Jú aðra menn í stjórnarráðið, seðlabankann o.s.fr. en hvergi kemur fram hvern eða hverja mótmælendur kjósa til að stjóna né hvernig þeir ónefndu koma til með að leiða okkur betur í þeim ógöngum sem við erum stödd í. Þannig að ég átta mig ekki á því hvernig mótmælin sem slík koma þjóðinni að gagni frekar en aula og sauðs komment hér fyrir ofan lýsa skoðunum  þeirra sem þar kommenta.

Rabbabara, 28.11.2008 kl. 18:29

5 identicon

það er mjög einfalt hvað við viljum í staðin fyrir þennan flokka-skríl sem situr í óþökk okkar á alþingi...fagmenntað fólk með engar flokks-tengingar semsagt utan-þings stjórn.

En fyrst og fremst viljum við " Sjálfstæðis " flokkinn BURT

Atvinnumaður (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 18:46

6 identicon

Afskaplega hlýtur þú að eiga bágt greyjið.....;)

Binni (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 19:12

7 identicon

Emil ..hvað er að þér , liður þér ekki vel...eða ertu bara orðinn allt of vonlaus og missir trú á almenna ...þú getur gert það , reyndu það , komdu út , komdu niðri bæ ..við skulum hjálpa þér að liða vel , ekki missa moðinn , þú át  mikið inni ....stjórnmálamenn gerðu mikið út úr þér ,en þú ert ekki búinn ekki dauður ollum ...

Emil þú ert sterkur  , Emil þú ert leiðtogi , komdu , vertu með gaktu til lið .bylting er á næstu götu , þú getur gert það , ég á trú  , vertu trúaður.

Sjámust  Emil.

Íslendingur (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 20:09

8 identicon

Kæri Emil !!!! Ég vona að þú missir ekki móðinn,  því það verður að hreinsa til á stjórnarheimilinu.  Ég get sagt þér það í fréttum, að allt sem heitir þjóðarstolt hjá Íslendingum  er horfið.  Afhverju?  Jú af því að við höfum handónýta ríkisstjórn sem ekki getur sett lög sem koma í veg fyrir t.d. peningaþvott, og margt annað sem viðgegnst hér á landi.  Við verðum að hafa styrk  Emil að koma þessu liði burt.  Við höfum enga herdeild svona sem er eins og IRA eða ETA  Svo við verðum að mótmæla friðsamlega. Mættu á morgun á Austurvelli og hafðu með þér mótmælaspjald.  

P.S.    Ég gleymdi að skrifa þér að alþingi er nú bara dagheimili fyrir  .........vita

J.Þ.A (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 20:44

9 Smámynd: Carl Jóhann Granz

Hárrétt hjá þér, þetta á við svo marga.

 Spurning um að fara að skipuleggja mótmæli gegn mótmælum ef það verður meira um svona vitleysu. Það er að segja annað en friðsamleg mótmæli.

Carl Jóhann Granz, 28.11.2008 kl. 21:20

10 Smámynd: Kreppa Alkadóttir.

Mikið á þetta fólk erfitt sem er að tjá sig hér að ofan, það virðist vera að það geti með engu móti tekið þátt í málefnalegum umræðum heldur hreytir bara í annað fólk og vill helst þagga niður í þeim sem ekki eru á sömu skoðun það fer lítið fyrir lýðræðiskoðunum hja´þessum aðilum og eins mikið og þeir segjast vera að berjast fyrir lýðræði þá er það ekki svo þegar þeir mæla með ofbeldi og valdaráni, ofbeldi leysir aldrei neitt gerir bara illt verra.

En ég er þér sammála að margir virðast bara mótmæla til að mótmæla og er slétt sama um hver yfirskrift mótmæla eru eins kjánalegt og það er.

Kreppa Alkadóttir., 28.11.2008 kl. 22:10

11 identicon

Emil og Jón Baldur.  Gaman að heyra í ykkur aftur mínir kæru skólabræður þó svo það sé nú bara hér   Við skulum láta af hótunum um vinslit Jón Baldur, fólk hefur bara misjafnar skoðanir. Þannig hefur það alltaf verið og mun verða áfram.  Ég styð það að fólk mótmæli á friðsamlegan máta þegar því finnst ástæða til og virkilegur kraftur í fólki að mæta svona á Austurvöll í kuldanum. Ástandið í landinu er auðvitað skelfilegt og ekki skrítið þó að fólk sé reitt.  EN, ég er alfarið á móti svona skrílslátum eins og áttu sér stað við lögreglustöðina og tel það bara eyðileggja annars friðsamleg og réttmæt mótmæli.  Ég er annars í grunninn til sammála Emil þ.e. mér finnst það hreinlega hættulegt að ætla sér að knýja fram stjórnarslit núna og kosningar. Ég get ekki séð að neinir aðrir stjórnmálaflokkar geti leitt okkur eitthvað betur út úr þessu ófermdarástandi, frekar en þeir sem nú eru við völd. 

það eru skelfilega erfiðir tímar framundan, vonandi tekst okkur að komast sem best frá þeim.  kv. Katrín Linda, skólasystir ykkar úr Flataskóla

Katrín (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 23:42

12 Smámynd: Lilja Ingimundardóttir

Atvinnumaður kemur hér og segir að það sem við viljum er...  er þetta stefnuskrá sem hefur verið sameiginlega ákveðin af mótmælendum eða er þetta hans skoðun og hans vina.

Sjálf skal ég alveg vera sammála þessari hugmynd hans að einhverju leiti en ég er ekki viss um að allir mótmælendur séu það. Margir mótmælendur eru stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar og vilja sjá sinn flokk ná forskoti í næstu kosningum, aðrir mótmæla sjálfstæðisflokknum en nefna ekki aðra flokka á nafn, aðrir virðast bara vera reiðir og mæta á Austurvöll til að sýna þá reiði o.s.fr. Hver og einn mætir og mótmælir á sínum forsendum eins og Haraldur segir hér að ofan. 

Það sem vantar er sameiginlega röddin sem býður aðra möguleika fram í stöðunni ... núna eru margar raddir sem keppast við að tala hver ofan í aðra.

Ég vil endilega benda á hugmyndabankann hjá Photo http://photo.blog.is/blog/photo/ en það er eitthvað sem gæti komið einhverju af stað. Svona listi þarf að komast í hendur ráðamanna (hvort sem það er Geir, Ingibjörg, Steingrímur eða einhver annar) og koma heilabúum af stað í að finna varanlega og góða lausn til að bæta ástandið á Íslandi.

Lilja Ingimundardóttir, 28.11.2008 kl. 23:49

13 Smámynd: Líney

Knús  til þín Emil minn ekki tek ég þátt í þessu þó ég sé sammála  mörgu sem sagt er,ég er líka  andvíg mörgu hehe

Góða helgi

Líney, 29.11.2008 kl. 01:05

14 Smámynd: Hörður B Hjartarson

Greinilegt að þú ert bundinn bláu höndinni í báða skó , og vitræn skrif eftir því.

Hörður B Hjartarson, 29.11.2008 kl. 01:39

15 identicon

Auðvitað á að mótmæla. Ert þú sáttur við að hér sé bullandi okurvextir,  peninga sukk og svínarí og að vaxtastefnan skuli ekki hafa gert rassgat til að stöðva veðbólguna, eina sem vaxtaokrið gerir er að drepa fyrirtæki og almenning?

Starfsmenn  okkar á alþingi þurfa aðhald. þeir hafa allt of lengi komist upp með að gera allt það sem þeim dettur í hug. og núna þegar þeir hafa skuldsett okkur upp fyrir haus og hirt af okkur ævisparnaðinn...... er þá nokkuð nema von að fólk mótmæli.

Við hefðum átt að byrja að mótmæla í mars í síðastalagi. þá ver kreppan að leggja af stað og Geir gerði ekkert allt árið því það var ekki tímabært að gera neitt. Nú eru allir hagfræðingar og spekingar sammmála um að ef eitthvað hefði verið gert frá mars til sept þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir hrun bankana.  Núna eru þeir kannski að gera eitthvað því þeir sjá að við erum ekki ánægð með störf þeirra og þeir finna fyrir því að staða þeirra í ríkisstjórn er ansi tæp. 

Málið með íslendinga að þeim finnst þeir eiga skilið að traðkað sé á þeim, svo spretta upp aðdáendasíður fyrir Geir Harde..... er það ekki týpiskt dæmi um Stokhóls heilkennið

Svo eitt annað mér finnst magnað að helv lífeyrirsjóðirnir skuli vera á móti því að fella verðbætur niður (þó að það sé ekki nema tímabundið) rök þeirra að þá tapi þeir. Málið er að þær aukatekjur sem þeir eru að hirða af okkur hefðu þeir ekki verið að fá ef allt hefði verið í himna lagi. þannig að þeir eiga engan rétt á því. Þetta er eins g berja lyggjandi mann. Svo annað þessi stefna með okurvexti og verðbætur eru að drepa ÖLL fyrirtæki landsins. Er þá lýfeyrisjóðurinn ekki að tapa þá. Því ef engin vinnan er þá greiðir viðkomandi nær engan lífeyrir og svo þegar hann er fluttur af landi brott þá fá þeir ekkert............. held að þessi menn ættu að spá í það...

Halldór (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 02:17

16 identicon

Ef þú hefðir hlustað á það sem ræðumenn á þessum fundum hafa fram að færa og þær undirtektir sem þeir hafa fengið, þá vissirðu líklega hverju fólk er að mótmæla.

Fólk mótmælir því að heimili og fyrirtæki í landinu skuli sitja uppi með skuldir auðmanna sem komust upp með að falsa verðmæti fyrirtækja, á sama tíma og skattgreiðendur héldu uppi fordýrum stofnunum sem áttu að hafa eftirlit með þeim.

Fólk mótmælir því að enginn skuli þurfa að axla ábyrgð á því að hagkerfi heillar þjóðar hafi hrunið, ekki vegna náttúruhamfara eða stríðs, heldur vegna spillingar og andvaraleysis, án þess að almenningur hafi fengið nokkrar upplýsingar um það sem var að gerast.

Fólk mótmælir því líka að ríkisstjórn sem brást trausti þjóðarinnar svo illa að sjálfstæði okkar er nú stefnt í voða, skuli ekki taka til greina eindregnar óskir um að gefa okkur færi á að kjósa eitthvað geðslegra yfir okkur.

Katrín Oddsdóttir varaði við því að embættismenn yrðu bornir út ef óskir um kosningar yrðu hundsaðar. Það er vissulega valdbeiting. Valdbeiting sem á fullan rétt á sér, alveg á sama hátt og þú hefur rétt til þess að reka þjóf út úr húsi þínu.

Hörður Torfason hvatti ekki til óeirða, hann hvatti fólk til að mótmæla ólöglegri handtöku með orðunum 'látið hann lausan'.

Það eru semsagt ekki skipuleggjendur mótmæla sem þurfa að hugsa sinn gang, heldur þú sem þarft að skafa úr eyrunum.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 05:33

17 Smámynd: Hippastelpa

Hér að ofan er kallað eftir málefnalegri umræðu og ég fagna því. Ég hef ekki talað við marga sem eru meðfylgjandi ríkisstjórninni nýlega og því langar mig að koma minni sýn hér að og fagna því ef fólk sem er á öndverðu meiði vill ræða hana við mig.

Ég hef séð ísland sem land tækifæranna. Þú færð ekkert ókeypis en ef þú ert til í að vinna hörðum höndum þá áttu séns. Ég fékk ekki hjálp úr foreldrahúsum því mamma mín er öryrki og pabbi minn dáinn. Ég hef undanfarin áratug unnið mikið, oftast gott betur en 40 tímana, ég hef lika náð mér í háskólamenntun og keypt mér húsnæði. Eg setti það ekki fyrir mig að strita svolítið því ég hugsaði með mér ég er ung og ég mun uppskera. Eftir nokku ár sá ég fram á að geta farið að hafa það miklu betra í þeim skilningi að eiga meiri frítíma og sinna barningu mínu, fjölskyldu og vinum og hugðarefnum. Fyrir því var ég að strita. Í október í fyrra átti ég 18 milljóna veðrétt í eigninni minni, eftir næsta ár mung ég líklega ekki eiga neitt, þegar lánin hafa hækkað samkvæmt verðbólguspám seðlabankans og íbúðaverið lækkað um 30%.

Ég get alveg eins byrjað uppá nýtt í örðu landi, þar sem ekki verður slík skattabyrði og erfið lífsskilyrði eins og hér en ég er íslendingur í húð og hár og langar að bejast fyrir mínu landi. Ég er hinsvegar ekki til i að berjast fyrir sömu stefnu og kom okkur hingað. Aldrei í heimssögunni hefur ríkisstjórn setið áfram eftir svona hrun og ég lít á það þannig að ef ég á nú að strita næstu 10 árin til þess að borga skuldir íslands þá sé lágmark að við fáum uppstokkun hér og nýtt fólk, vil taka það fram að þá er ég ekki að tala um vinstri græna, eða annað stjórnarsamstarf heldur NÝTT FÓLK, til þess að ég geti öðlast traust á því að ég sé ekki að vinna fyrir skuldum ríkissjóðs sem mun ræna mig aftur seinna á lífsleiðinni. 

Mig langar að vita hvernig þeir sem álasa okkur mótmælendum sjá þetta nákvæmlega. Og ekki segja mér að það sé ekki hægt að breyta hlutum það hefur verið gert ítrekað í sögunni. Við skulum muna að konur höfðu ekki kosningarrétt einusinni, við höfðum engin verkalýðsfélög né réttindi sem starfsmenn, lýðræði var einu sinni hugsjón. Þurfum við ekki að vera hugrökk núna og búa til nýja tegnund að stjórnskipan sem getur verndað okkur fyrir svona hlutum í framtíðinni. Er það ekki tilvalið að elsta lýðveldi í heimi komi með 2.0 útgáfuna.

Endilega gefið mér ykkar sýn á því hversvegna við eigum ekki að mótmæla og hvaða leiðir aðrar hægt er að fara til þess að ná fram breytingum sem fá mig til að vilja bretta upp ermarnar og taka þátt í að borga skuldirnar hér.

Hippastelpa, 29.11.2008 kl. 10:34

18 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Alveg kórrétt hjá þér Emil

Jón Aðalsteinn Jónsson, 29.11.2008 kl. 10:53

19 identicon

Mikið er ég sammála þér Emil,,Þessi mótmæli hafa ekkert uppá sig að gera,, Það eru sterkir og dugmiklir menn við stjórn,,Það besta sem Guð hefur gefið okkur síðan við fengum Jesú,,Og þó þeir skapi sér hin ýmsu forréttindi umfram aðra,,verðum við að líta á slíkt sem hvern annan bónus fyrir vel unnin trúnaðarstörf,,Við ættum að vera þakklát fyrir að hafa fengið Geir lánaðan um stundarsakir,,Því það eru afar spennandi tímar frammundan með ótal tækifærum , svo ég vitni í ræðu Þorgerðar Katrínar,, Þótt við höfum öllu glatað ,,höfum við góða heilsu til að byggja ,,á á spennandi tímum svo ég vitni í orð Hannesar Hólmsteins,,(að því tilskyldu að allir fái að borða og hafi efni á að viðhalda góðri heilsu,,)Þetta er nú ekki fyrsta kollsteipan sem Ísland tekur á undanförnum árum,,Þó svo flestar séu á ábyrgð Íhaldsmanna voru það aðrir menn sem stjórnuðu þá,,

Bimbó (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 11:21

20 identicon

Ég verð svo glöð þegar ég sé hvaða fólk það er sem er ekki á Austurvelli. Bloggið er góður staður fyrir ykkur.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 11:55

21 Smámynd: Hippastelpa

Sódóma, 

"Komi það í ljós að ríkisstjórnin beri alla þá ábyrgð sem andstæðingar vilja meina,  þá skal ég með glöðu geði endurskoða hug minn til ríkisstjórnarinnar.   Fyrr ekki.! "

Hvað meinarðu eiginlega? Ég skil þig bara alls ekki. Þeir sátu við stjórnvölinn og komu ekki í veg fyrir þetta. Það er ábyrgðin sem fólkið er að tala um. Þeir einkavæddu bankana undir þeim lögum sem heimiliðu þeim að stækka svo að það knésetti okkur. Hvar liggur ábyrgðarspurningin? Þeim var treyst fyrir að vernda hagsmuni mína og þína og er að takast að gera mig og stóran hluta almennings eignalausa. Ég spyr aftur hvað meinarðu í hverju felst ábyrgðin sem þú ert að tala um? Hvað þartu að heyra til þess að þér finnist þau eiga að víka?

Hippastelpa, 29.11.2008 kl. 12:30

22 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Það er til fólk sem hefur meiri áhyggjur af kröfugöngum og mótmælafundum en því ástandi sem skapar óróa. Við, venjulegir Íslendingar, höfum í meginatriðum tvo kosti til að láta í okkur heyra. Það eru kosningar á 4 ára fresti að jafnaði. Þá er hægt að koma skoðunum á framfæri með kjörseðli og á fundum. Svo eru það fundir þess á milli, bæði útifundir og innifundir. Og nú þegar allt er komið á hvolf í þjóðfélaginu þá fer allt venjulegt fólk að hugsa sinn gang. Og 70% vilja kosningar sem fyrst. Mótmælin eru m.a. til að leggja áherslu á það. Svo er það hin krafan um að ráðamenn viðurkenni mistök og sýni iðrun. Sem m.a. getur komið fram í því að þeir lýsi því afdráttarlaust yfir að það verði kosið á næsta ári. Ef það er þetta sem veldur Emil og hans skoðanasyskinum áhyggjum þá er lítið hægt að gera þeim til hjálpar.

Hjálmtýr V Heiðdal, 29.11.2008 kl. 13:15

23 identicon

Mikið eru þeir sem eru þér ósammála málefnalegir... eða svoleiðis. Góður pistill, hittir naglann á höfuðið, nú þurfum við að fá málefnalegar umræður. Ég er orðinn hundleiður á þessum upphrópunum og innihaldslausa þrasi sem er orðið svo algengt og skilar akkúrat engu.

Ég vil líkja þessari reiði og þessari þörf fyrir að kjósa strax við það þegar maður lendir í framhjáhaldi eða er svikinn á einhvern hátt. Manni finnst maður verða að fá útrás fyrir reiðina, er bara svo sjóðandi illur og grýtir til dæmis disk í gólfið. Maður er ekkert betur settur fyrir vikið, þarf að kaupa nýjan disk og étur ef til vill ekkert fyrr en maður eignast nýjan disk, en maður fékk útrás fyrir reiðina þó svo maður sé jafnvel verr staddur en áður.

Svo verður fólk að átta sig á því að vandinn er ekki heimatilbúinn heldur stærðin á vandanum. Verkefnið núna er að búa okkur undir svona högg svo við stöndum þau betur af okkur næst.

Þórður Ingi (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 15:56

24 Smámynd: Líney

Þó ég  sé  lítið gefin fyrir D.O þá lít ég ekki á hann sem  aðal vandamálið hér. Við sjálf berum  öll ábyrgð á okkar lífi.

Líney, 29.11.2008 kl. 16:04

25 Smámynd: MacGyver

"Ef þú hefðir hlustað á það sem ræðumenn á þessum fundum hafa fram að færa og þær undirtektir sem þeir hafa fengið, þá vissirðu líklega hverju fólk er að mótmæla.

Fólk mótmælir því að heimili og fyrirtæki í landinu skuli sitja uppi með skuldir auðmanna sem komust upp með að falsa verðmæti fyrirtækja, á sama tíma og skattgreiðendur héldu uppi fordýrum stofnunum sem áttu að hafa eftirlit með þeim."

Ef einhver lagabrot hafa verið framkvæmin, þá lenda lagabrotarmennirnir fyrir dómstól. Ef engin lög hefur verið brotin eða ef ákveðin stofnun byggð á lýðræðislegum kosningum er ekki að standa sig, þá er það gert samkvæmt lýðræði almennings. Ef fólkið vildi ekki "halda uppi fordýrum stofnunum sem áttu að hafa eftirlit með þeim" þá hefði þetta fólk átt að kjósa stöðu sína í hag. En þannig var það ekki og þannig er bara lýðræði.

"Fólk mótmælir því að enginn skuli þurfa að axla ábyrgð á því að hagkerfi heillar þjóðar hafi hrunið, ekki vegna náttúruhamfara eða stríðs, heldur vegna spillingar og andvaraleysis, án þess að almenningur hafi fengið nokkrar upplýsingar um það sem var að gerast."

Enn og aftur, ef það kemur í ljós að lagabrot hafa verið framin, þá verða lagabrotarmenn settir fyrir dómstól. Ef fólkið í þessulandi vildi ekki svona stórt bankakerfi þá hefði þetta fólk átt að  beita þeim sjónarhornum í kosningum.

"Fólk mótmælir því líka að ríkisstjórn sem brást trausti þjóðarinnar svo illa að sjálfstæði okkar er nú stefnt í voða, skuli ekki taka til greina eindregnar óskir um að gefa okkur færi á að kjósa eitthvað geðslegra yfir okkur."

Á íslandi hefur almenningur ráðið að ríkisstjórn verði kosin á 4 ára fresti. Almenningur kaus hana og þarf að standa med hana.

"Katrín Oddsdóttir varaði við því að embættismenn yrðu bornir út ef óskir um kosningar yrðu hundsaðar. Það er vissulega valdbeiting. Valdbeiting sem á fullan rétt á sér, alveg á sama hátt og þú hefur rétt til þess að reka þjóf út úr húsi þínu."

Stjórnmálamenn sem vinna lýðræðislegar kosningar eru allt í einu þjófar? Þú hefur mjög skuggalegar pælingar um lýðræði. 

Ég trúi ekki að fólk eins og þú geti komið fram í fréttum.

MacGyver, 29.11.2008 kl. 17:06

26 identicon

Þér finnst semsagt rétt og eðlilegt að menn komist upp með að stinga undan hundruðum milljarða með því að fara í kringum lögin? Og engin ástæða til að mótmæla því?

Þér finnst þá líklega að fólk geti bara sjálfu sér um kennt að hafa ekki séð það fyrir að fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn sinntu ekki skyldum sínum, og engin ástæða til að krefjast þess að menn sem standa sig svo illa víki?

Það að ríkisstjórn sé kosin til fjögurra ára merkir ekki að það megi undir engum kringumstæðum leysa óhæfa ríkisstjórn upp. Hjónaband er hugsað til lífstíðar en ef maki þinn lemur þig, bregst trúnaði þínum, eyðir öllu sparifé þínu í kókaín eða sýnir aðra óviðunandi háttsemi, þá ferðu fram á skilnað. Ég er semsagt að fara fram á skilnað við þessa þjófa já, því þjófur er maður sem tekur það sem aðrir eiga án samþykkis og það er þessi ríkisstjórn svo sannarlega að gera.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 17:25

27 Smámynd: Hippastelpa

Ég hef nokkrar spurningar sem mig langar að spyrja ykkur sem eruð meðfylgjandi ríkisstjórninni. Ég er að reyna að vera málefnaleg hér og kynnast skoðunum þeirra sem eru á öndverðu meiði. Hef aldrei verið með dónaskap við neinn og likar ekki á hvaða plani þessi umræða er að verða hér á blogginu. En mig langar svakalega að svör við eftirfarandi spurningum:

1. Eruð þið ekki með íbúðarlán eða eruð þið virkilega sátt við það að eignir ykkar brenni upp i verðbólgunni og að það eigi ekki að stöðva það?

2. Ef þið eruð með húsnæðislán, hafið þið kynnt ykkur hvað þið munið skulda eftir næsta ár samkvæmt verðbólguspám seðlabankans og hvers mikið eignir ykkar munu rýrna?

3. Finnst ykkur að almannahagsmunir ráði ríkjum í þeim lausnum sem ríkisstjórnin hefur sett fram og finnst ykkur þær ásættanlegar?

4. Hvað finnst ykkur fólk þurfi að hafa gert til þess að það þurfi að segja af sér. Á annað við um stjórnmálamenn ef fólk í öðrum störfum. Ég veit að ég fengi aldrei að halda vinnunni ef stórar fjárhæðir töpuðust í minni umsjón. 

5. Er það raunverulegt traust á ríkisstjórninni sem slíkri sem veldur því að þið viljið að hún sitji áfram eða hræðslan við að eitthvað verra taki við ef hún segir af sér?

Ég spyr vegna þess að mig langar að öðlast skilning á mótívum þeirra sem eru þarna megin við umræðuna og mun ekki kommenta neitt á svörin nema til að óska eftir frekari útskýringum ef ég skil ekki. Hlakka til að lesa ef þið hafið áhuga á að tjá ykkur.

Á endanum erum við öll í sama liði, við erum jú þjóð ekki satt. 

Hippastelpa, 29.11.2008 kl. 17:28

28 Smámynd: MacGyver

"Þér finnst semsagt rétt og eðlilegt að menn komist upp með að stinga undan hundruðum milljarða með því að fara í kringum lögin? Og engin ástæða til að mótmæla því?"

Júju, þegar við komumst upp um menn að fara kringum lög, þá fáum við fulltrúa okkur að breytta lögin.

"Þér finnst þá líklega að fólk geti bara sjálfu sér um kennt að hafa ekki séð það fyrir að fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn sinntu ekki skyldum sínum, og engin ástæða til að krefjast þess að menn sem standa sig svo illa víki?"

Ef fólk fannst Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið ekki sinna skyldum sínum, þá á fólkið að fá fulltrúa sína til þess að fá þessar stofnanir að sinna skyldum sínum. Ef fulltrúarnirnir fylgja ekki ósk almennings þá verða þessir fulltrúar ekki kosnir aftur og þá getur fólk valið hæfara fólk í næst kosningum.  

"Það að ríkisstjórn sé kosin til fjögurra ára merkir ekki að það megi undir engum kringumstæðum leysa óhæfa ríkisstjórn upp."

Einmitt, það er ýmis lagaákveði eins og lýsing á vantrausti frá Alþingi og þannig laga myndi ég gisska.

"Hjónaband er hugsað til lífstíðar en ef maki þinn lemur þig, bregst trúnaði þínum, eyðir öllu sparifé þínu í kókaín eða sýnir aðra óviðunandi háttsemi, þá ferðu fram á skilnað."

Hjónaband og ríkisstjórn er ekki sambærilegt. Segjum frekar pípari og stjórnmálamaður því bæði þessi störf eru þjónustu störf þar sem "viðskiptavinurinn" kýs hvaða manneskja getur gert best vinnan fyrir honum. Ef píparinn þinn skítur á sig, þá færðu þér nýjan pípara næst. Ef stjórnmálamennirnir þínir skíta á sig, þá færðu þér nýja stjórnmálamenn næst.

"Ég er semsagt að fara fram á skilnað við þessa þjófa já, því þjófur er maður sem tekur það sem aðrir eiga án samþykkis og það er þessi ríkisstjórn svo sannarlega að gera.  "

Enn og aftur, að verða kosinn í ákveðna stöðu er ekki þjófnaður. Í Vestræna heiminum köllum við það Lýðræði. 

MacGyver, 29.11.2008 kl. 17:42

29 identicon

Að vera kosinn í stöðu felur ekki í sér heimild til að misnota þá stöðu né útilokar það brottrekstur vegna afglapa í starfi. Ef píparinn héldi partý í íbúðinni þinni, eyðleggði frárennslislögnina  og sendi þér reikning fyrir klósettinu hans Hannesar Smárasonar, myndir þú þá virkilega láta hann klára verkið og tala svo við einhvern annan næst?

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 17:53

30 Smámynd: MacGyver

"Að vera kosinn í stöðu felur ekki í sér heimild til að misnota þá stöðu né útilokar það brottrekstur vegna afglapa í starfi. Ef píparinn héldi partý í íbúðinni þinni, eyðleggði frárennslislögnina  og sendi þér reikning fyrir klósettinu hans Hannesar Smárasonar, myndir þú þá virkilega láta hann klára verkið og tala svo við einhvern annan næst?"

Hvernig hafa stjórnmálamennirnir misnotað sína stöðu? Ef þeir hafa gert það, þá þurfa þeir að fara úr starfi? Hvað, hefur Össur verið að stela frá ríkissjóði eða eitthvað? Ef píparinn gerði þetta allt saman, þá gæti ég kært hann. Alveg eins og með stjórnmálamenn.

MacGyver, 29.11.2008 kl. 17:56

31 identicon

'þá gæti ég kært hann. Alveg eins og með stjórnmálamenn.'  Jújú, þeir eru einmitt að láta vini sína rannsaka sig. Hefurðu virkilega ekki tekið eftir því að valdamenn komast einatt fram hjá þeim lögum sem ná yfir annað fólk?

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 18:06

32 Smámynd: MacGyver

"Jújú, þeir eru einmitt að láta vini sína rannsaka sig. Hefurðu virkilega ekki tekið eftir því að valdamenn komast einatt fram hjá þeim lögum sem ná yfir annað fólk?"

Ertu með einhver sönnunargögn fyrir því? Ef þú ert með það, þá mæli ég með að ferð með það til saksóknara, ef hann vill ekki fá efnið, þá mæli ég með alþjóðlega dómstolanna. 

MacGyver, 29.11.2008 kl. 18:12

33 Smámynd: MacGyver

"Macgyver: Fólk eins og þú og ykkar atkvæði, gera þessum spilltu stjórnmálamönnum færi á að starfa áfram."

Ég hef ekki kosið ein einasta manneskja í þessari ríkisstjórn. 

"Hvað með Árna Johnsen?? hann komst aftur í djobbið sitt vegna þess að einn flokksgæðingurinn náðaði hann í fjarveru forsetans... núna getur hann starfað á þingi í spilltasta flokki landsins (sjálfstæðisflokknum) þrátt fyrir að hafa stolið ítrekað frá skattborgurum.

Manni verður óglatt að sjá fólk verja þessa spilltu einstaklinga.

ALDREI AFTUR X-D !!!"

Ef fólkið vildi ekki sjá afbrotamann á Alþingi þá hefði fólkið átt að kjósa burt hann af Alþingi og þá sem hjálpuðu honum að komast þangað. 

Er eikva svona rosamikið að mér eða skil fólk hreinlega ekki hvernig lýðræði virkar?  Sumir virðist halda að það sé eikva dictatorship hér á landi. Dictatorship þar sem fólkið kýs sína fulltrúa í landi sem hefur talist meðal þeirra minnst spilltru samkvæmt rannsóknum og samanberanir frá öðrum löndum?

MacGyver, 30.11.2008 kl. 15:51

34 Smámynd: MacGyver

"Kjósa hann burt af alþingi? hann bauð sig fram á þing í nafni Sjálfstæðisflokksins og allir þeir sem kusu x-D komu honum á þing.

Fyrir utan þá þúsundir manna og kvenna sem strikuðu hann út, það var bara ekki nóg.

Jáhh.. meira lýðræðið."

Ef menn vilja áveðin flokk á Alþingi (flokkur er hópur manns), þá velja þeir hann og alla sem eru í hann. Ef menn vilja ekki menn eins og Árni Johnse þá ættu þeir ekki að kjósa hann inn á nokkurn hátt.

MacGyver, 30.11.2008 kl. 20:21

35 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Bara að hvetja ykkur til að mæta á þjóðfund á Arnarhóli kl 15 á morgun. Ekki veitir ykkur af :)

Heiða B. Heiðars, 30.11.2008 kl. 22:34

36 identicon

Vá hvað ég er sammála þér Emil.   Ég hef alla tíð velt því fyrir mér hvað þetta fólk er eiginlega að gera þarna niðri á Austurvelli.   Standa þarna með skilti sem á stendur "Vér mótmælum öll" ( duhh that's a given )  En hafa í raun ekkert annað til málana að leggja en að þau séu reið og hóta að bera út stjórnmálamenn.  Veit ekki alveg af hvaða sauðahúsi þetta sauðfé kemur en ég skrifaði grein um þessa sérstöku tegund sauðfé.

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 12:02

37 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Vá, ég þakka ykkur öllum, já, ykkur öllum, sem hafa komið með athugasemdir við þessa veffærslu mína. Ég gleðst yfir því að hafa komið af stað umræðum... orð eru til alls fyrst.

Það væri nú að æra óstöðugan að ætla að svara öllum þeim sem hér hafa tjáð sig, enda hef ég svo ekki lagt í vana minn að gera það.

Ég nefni þó sérstaklega að mér þykir það miður að gamall félagi hóti mér vinslitum vegna skoðanaágreinings. Mér þykir jafn gaman að sjá að gömul skólasystir skuli vilja ganga á milli okkar hér á netheimum. Gaman að heyra frá þér, Linda mín. Nonni, ég ætla ekki að svara þér orð fyrir orð en ég fyrirlít ekki venjulegt fólk, enda sjálfur ósköp venjulegur og þér fylgja aðeins beztu óskir og hlýjar hugsanir frá mér... hvernig sem fer.

Svo það sé alveg á hreinu, fyrir þá sem hafa velt slíku fyrir sér, þá skulda ég líka verðtryggð lán og ég hef líka keypt bifreið með erlendu láni. Ég hef meira að segja keypt mér flatskjá! Rétt eins og flestir aðrir sé ég líka skuldir mínar stóraukast og fæ ekki alveg séð hvernig ég á að standa undir afborgunum.

Eftir sem áður stend ég við þá skoðun mína að maður á ekki að mótmæla, bara mótmælanna vegna og það á ekki að ala á tortryggni og reiði fólks og vonleysi... og ég ætla ekki að mæta á Arnarhól í dag. Mótmælin þar virðast vera með nákvæmlega sömu formerkjum og þau sem haldin hafa verið á Austurvelli auk þess sem stjórnleysingar (anarkistar) eru meðal þeirra sem að þeim standa og ég segi nú bara: Flestum eru menn farnir að hleypa upp í til sín.

Við búum í lýðræðisþjóðfélagi og lýðræðið er skásta stjórnarfar sem við þekkjum. Ég ætla ekki að fullyrða að það sé það bezta, sem til er. Það getur vel verið að það séu til betri kerfi sem við einfaldlega erum ekki búin að uppgötva. Og lýðræðið getur verið mjög gallað en meðan við leikum þann leik, sem heitir lýðræði, verðum við að fara eftir leikreglum hans.

Ég treysti því að ríkisstjórn og Alþingi taki á málinu. Ég treysti því að hlýtt verði á þá sem hafa til málanna að leggja, að upplýst verði um þá sem hafa orðið bortlegir við lög og þeir dregnir ábyrgðar, að bæði stjórnvöld og öll þjóðin læri af reynzlunni og að við leggjumst öll á eitt að skapa fagurt mannlíf í réttlátu þjóðfélagi.

Það verður andsk... erfiðara en okkur tekst það ef við gætum þess að glata ekki trúnni á réttlætið og umfram allt að glata ekki lífsgleðinni.

Það er alltof auðvelt að benda bara, með réttu eða röngu, á einhverja sökudólga og halda að það leysi vandann.

Emil Örn Kristjánsson, 1.12.2008 kl. 13:29

38 identicon

Ace, fólk er óánægt því það veit ekki rassgat hvað er að gerast.  Fólk er óánægt því það veit ekki einu sinni hvað það á að gera.   Fólkið er bara orðið ráðlaust og í örþreyingu sinni fundið næsta blóragöggul til að kenna um málið.   Ef að fólkið myndi aðeins stoppa og sjá hvar raunverulega sökin liggur þá væri fólkið ekki þarna.

Afhverju er fólkið að missa vinnuna sína ???  Jú útaf atvinnurekendur hafa ekki lengur efni á því að veita þeim vinnu.  Hvað liggur að baki því ???   Jú það var svo "ódýrt" að ná sér í lánsfé að þeir eiddu öllum hagnaði af þeirri vinnu sem þeir voru að vinna fyrirfram og létu fyrirtækin bara ganga mánaðarmót frá mánaðarmótum með allt niðrum buxurnar.   Er það ríkisstjórnini að kenna að atvinnurekendur í landinu hafi orðið of fégráðugir og ekki hugsað aðeins fram í tíman ?

Nei veistu ég nenni ekki að eyða fleiri orðum í að reyna að koma þér í skilning um að stór hluti vandans liggur hjá þjóðinni sjálfri en ekki okkar stjórnmálamönnum. Þar sem að þú hefur ekki manndómskap í að taka á móti því.  Þú velur frekar að væla og benda á einhvern annan heldur en að takast á við vandan sjálfur!

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 4627

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband