Reykjavíkurflugvöllur

Í kjölfar þess að ég tilkynnti framboð mitt til prófkjörs Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna í vor hef ég fengið allmargar fyrirspurnir um afstöðu mína til ýmissa mála.

Mest ber þó á spurningum um Reykjavíkurflugvöll. Því þykir mér rétt að birta svar mitt við þessari spurningu hér á þessu vefriti mínu:

Fyrir mér er þetta engin einföld "já eða nei" spurning. Það liggja gild rök fyrir afstöðu minni og því læt ég þau fylgja með hér. Það sem er innan gæsalappa er svo til orðrétt það sem ég hef sagt um þetta sama mál í pontu á 3 síðustu landsfundum Sjálfstæðisflokksins.

"Reykjavík er höfuðborg Íslands og eigi hún að standa undir því nafni af einhverjum metnaði þarf hún einnig að vera samgöngumiðstöð fyrir allt landið. Meðan enginn hefur getað bent á annan og betri valkost fyrir flugvöll í höfuðborginni en þann sem hann stendur á í dag er tilgangslaust hjal að vera að tala um að flytja hann eitt eða annað."

Reykjavíkurflugvöllur er ágætlega staðsettur til þess að gegna sínu hlutverki. Samgöngumannvirki á við flugvelli og járnbrautarstöðvar taka alltaf pláss og því verður ekki breytt.

Allt tal um að það sé einsdæmi að svo miklu rými sé "fórnað" í miðborginni er rakalaust. Ég fullyrði t.d. að flugbrautirnar í Vatnsmýrinni taka ekki meira rými en aðaljárnbrautarstöðin í Kaupmannahöfn ásamt teinunum, sem að henni liggja. Einnig má nefna að þegar Lundúnaborg fékk sinn fimmta flugvöll, fyrir rúmum 20 árum var hann byggður inni í borginni, "London City Airport". Þar fara um 3milljónir farþega um á hverju ári en áætlanir eru um stækka hann svo hann geti þjónað um 8milljónum farþega á ári.

Ég tek fram að ég tel rétt að flugvöllurinn verði áfram á aðalskipulagi borgarinnar og vitna í rökfærslu mína hér að ofan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Halldórsson

Fyrir utan allt annað þá hefur þungamiðja borgarinnar færst austar.

Hörður Halldórsson, 20.1.2010 kl. 00:22

2 identicon

Fullyrðingin hjá þér um að aðaljárnbrautastöð Kaupmannahafnar er mun rakalausari en þá sem þú ert að gagnrýna. Flettu upp Kaupmannahöfn og Reykjavík í Google Maps undir sama skala og sjáðu með eigin augum hvað fullyrðing þín er langt frá sannleikanum. Þar að auki þá eru menn í mörgum borgum að byggja yfir brautarteinana til að nýta mjög dýrmætt byggingarland sem augljóslega ekki er hægt með flugvöll og flugvellir helga mikið land í kringum sig fyrir utan sjálfar flugbrautirnar.

Samanburðurinn við London er fráleitur og þarf ekki að mikil rök til að hrekja. í fyrsta lagi er London er 10 milljóna borg sem hefur marga flugvelli á útjöðrum sínum og London City Airport er 11 kílómetrum frá City of London, skoðaðu þá fjarlægð á korti yfir Reykjavík. Reykjavíkurflugvöllur er nokkur hundruð metrum frá Kvosinni í Reykjavík sem er sögulegur miðpunktur Reykjavíkur. Ef þú plantaðir flugvelli í nokkkur hundruð metrum frá City of London þá gætirðu sett hann kannski þar sem Westminster Abbey og Big Ben eru staðsettir í dag...

Vandamálið með úthverfastefnuna (suburbismann) og einkabílismann sem fylgir því að hann kostar yfirgengilega mikið í rekstri og ferðatíma allra íbúa og færsla borgarinnar austar er sífellt að kosta meira í rándýrt hraðbrautanet. Eina leiðin til að bremsa þetta af er að taka vestari hluta borgarinnar undir byggð og þá þétta borgarbyggð að Evrópskri fyrirmynd þar sem fólk er ekki háð aðeins einum samgöngumáta (eins og miðborg Kaupmannahafnar og Londonar fyrst þú nefndir þær sem dæmi). Eina leiðin til þess er að það þá þarf að finna nýjan stað fyrir flugvöllinn.

Tryggvi (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 02:44

3 Smámynd: Sturla Snorrason

Reykjavík er höfuðborg Íslands og skipulag í borginni verður að miða við hvað er best fyrir landið í heild. Menn eins og Tryggvi sem sitja fastir á sögulegum miðpunti verða að átta sig á því að barnið vex en brókin ekki.

Hér er myndaalbúm sem sýnir aðra þróun en Vatnsmýrahugmyndina.

Sturla Snorrason, 20.1.2010 kl. 10:39

4 Smámynd: Margrét Elín Arnarsdóttir

Tryggvi, það er enginn annar staður fyrir flugvöllinn í Reykjavík, hvort sem þér líkar það betur eða verr. Ef þú ætlar svo að flytja flugvöllinn þá þarf spítalinn að fylgja með og ef þú flytur hann út fyrir Reykjavík þá þarftu ekki einungis að flytja spítalann heldur einnig höfuðborgina.

Margrét Elín Arnarsdóttir, 20.1.2010 kl. 11:09

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæl Margrét.

Þetta með spítalann hef ég aldrei skilið.

Hvernig í veröldinni hefur Norðmönnum, Dönum og Svíum tekist að reka sína spítalaþjónustu undanfarin ár og áratugi með ríkisspítalana í minnst klukkutíma akstri frá næsta flugvelli?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 20.1.2010 kl. 11:39

6 identicon

Friðrik, alþjóðaflugvöllur Íslendinga er álíka langt frá höfuðborginni og Arlanda er frá Stokkhólmi og Gardemoen er frá Oslo, Kastrup er mikið nær miborg Kaupmannahafnar.

Hins vegar hafa bæði Oslo (Kjeller) og Stokkhólmur (Bromma og Barkarby) innanlandsflugvelli sem eru mikið nær miðborgum heldur en alþjóðaflugvellirnir.

Sigvaldi Eggertsson (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 12:03

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Sögulegur miðpunktur" er ekki það sama og raunverulegur miðpunktur.

Þungamiðja byggðar á höfuðborgarsvæðinu er austast í Fossvogsdal og stærstu krossgötur Íslands eru í og við Ellíiðárdal.

Með því að fara með innanlandsflugið til Keflavíkur þarf maður, sem flýgur fram og til baka milli Reykjavíkur og Akureyrar að fara 160 kílómetrum lengri leið en nú.

Hafnirnar í Reykjavík taka álíka mikið rými og Reykjavíkurflugvöllur.

Miklabrautin tekur helming af rými Reykjavíkurflugvallar.

Af hverju þá ekki að reisa íbúðabyggð á báðum þessum svæðum og flytja hafnarstarfsemina til Suðurnesja.

Reykjavíkurflugvöllur tekur 7% af svæðinu vestan við Elliðaár. Sú fullyrðing að nýting þessara 7% hafi orðið til þess að "svefnbæjarbyggðir" risu fær ekki staðist.

Er Smárahverfið í Kópavogi "svefnbæjarbyggð"?

Er Ártúnshöfði "svefnbæjarbyggð"?

Hvernig væri nú að líta á kort og sjá að Reykjavíkurflugvöllur, rétt eins og Reykjavíkurhafnir og Miklabraut, eru öll á besta stað?

Ómar Ragnarsson, 20.1.2010 kl. 13:49

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Akranes, Borgarnes, Hveragerði, Selfoss og Akureyri eiga tvennt sameiginlegt.

Þetta eru vaxandi byggðir og það er innan við klukkustundarferð til Reykjavíkur.

Með því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður er verið að henda út 18 þúsund manna úthverfi Reykjavíkur, sem Akureyri er orðin.

Það er líka rangt að Reykjavík sé miklu dreifbyggðari en sambærilegar borgir.

Í skýrslu Borgarsamtaka Norðurlanda sem sett var niður í skúffu hjá Reykjavíkurborg, kemur í ljós að af 16 borgum á Norðurlöndum, sem bornar eru saman, eru allar þær ellefu borgir, sem eru á stærð við Reykjavík, jafn dreifbyggðar eða dreifbyggðari en Reykjavík.

Að kenna flugvellinum um dreifða byggð Reykjavíkur er fráleitt.

Ómar Ragnarsson, 20.1.2010 kl. 13:53

9 identicon

Ég nefni sögulegur miðpunktur Reykjavíkur vegna þess að það er þrátt fyrir allt ennþá þéttbýlasta svæði Íslands auk þess sem þetta er eina hverfið í höfuðborginni sem hannað er fyrir aðra umferð en einkabílinn. Þrátt fyrir allt er líka 50% af atvinnu borgarbúa á svæði vestan við Kringlumýrarbraut sem er einmitt. Ég held líka að þetta sé eina hveri Reykjavíkur þar sem hægt er að finna allan fjölbreytileika borgarlífsins frá íbúum, fyrirtækjum, verslunum, veitingahúsum, söfnum og stjórnsýslu auk þess eru bara mörg söguleg verðmæti sem við viljum halda í á þessu svæði og þar að leiðandi styrja það frekar en veikja. Þú tekur til dæmis ekki útlenda túrista upp í Smárahverfi eða Ártúnshöfða og sýnir þeim eitthvað sem einhver hefur áhuga á að sjá þar.

Málið er að það þarf að fjölga íbúum í vesturborginni til að draga úr yfirþyrmandi kostnaði við hraðbrautakerfið í Reykjavík og eina leiðin til þess er að taka Vatnsmýrina undir þétta byggð. Hugtakið þett byggð því miður þekkja kannski ekki margir Íslendingar sem hafa ekki búið í Evrópskum borgum heldur miða allt við hina núorðið hraðbrauta og útverfamiðuðu borg, sem því miður er að ganga út úr sér vegna yfirþyrmandi landgræðgi sífellt í austurátt vegna skipulags sem ekki er hugsað til framtíðar. Hluti af vandanum er þannig að fá fólk til að skilja að við þurfum að byggja öðruvísi borg en hingaðtil hefur verið byggð, en fólk skilur það oft ekki fyrr en fólki er sýnt myndrænt hvernit hlutirnir gætu verið ef hugsað yrði til langtíma.

Það er fráleittt að tala um Akranes og Borgarnes í þessu samhengi, einmitt út af því að t.d. flugvöllur á Hólmsheiði yrði langtum nær borginni en þessi svæði, og einmitt álíka langt og London City Airport eins og nefnt var. Það þekkist hvergi á byggðu bóli að flugvöllur sé nokkur hundruð metrum frá sögulegri miðborg. Það væri álíka eins og að flugbraut Kastrup myndi byrja við Nýhöfn ef maður telur Ráðhústorgið miðpunkt Kaupmannahafnar.

Ómar komndu með tölur en ekki órökstuddar fullyrðingar um þessi mál, flettu t.d. upp Stokkhólmi og Kaupmannahöfn í Wikipedia, báðar gefa um 4000-6000 íbua/km2, Reykjavík er 436.5/km2 samkvæmt Wikipeda, þ.e. um tífalt dreifðari en stærstu höfuðborgirnar.

Á endanum snýst málið um að hvort fólk vill flytja borgina eða flytja flugvöllinn, ég held að á endanum sé það bæði hagsmunum Reykjvíkinga svo sem landsmanna allra, sem vilja hafa öfluga höfuðborg, að flytja flugvöllinn frekar en borgina.

Ég til dæmis hvet fólk til að kynna sér skipulagsmál og kostnað við dreifðu einkabíllamiðuðu borgin áður en fólk fer að tjá sig um að flugvöllurinn sé á besta stað.

Tryggvi (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 16:43

10 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég er ekki í þínu kjördæmi, Emil Örn. En er hjartanlega sáttur með rök þín fyrir því að hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er. Ég get heldur ekki að mér gert að brosa, jafnvel dálítið upphátt, að kommenti Tryggva (ath. nr. 9) um að „sögulegur miðpunktur Reykjavíkur“ sé „eina hverfið í höfuðborginni sem hannað er fyrir aðra umferð en einkabílinn“. Ætli hann gleymi því ekki að það er búið að rífa öll hesthúsin þar. Og hann hefur víst ekki heldur tekið eftir því hvernig umferðin þar gengur fyrir sig í nútímanum. Stattu þig, Emil Örn, flugvöllinn þar sem hann er! Hann er flugvöllur allra landsmanna. Það er komið mál til að færa „miðpunkt“ Reykjavíkur nær því sem miðpunktur höfuðborgarsvæðisins er í nútímanum, einhvers staðar á líku róli og viðskiptahverfið í Smáranum. -- Þess vegna, m.a., er furðulegt að ætla að hafa framtíðar hátæknisjúkrahús þjóðarinnar í þessu afskekkta borgarhorni sem nú er verið að ráðgera.

Sigurður Hreiðar, 20.1.2010 kl. 19:31

11 identicon

Sigurður ég veit ekki hvað þú meinar með að ég geri mig ekki grein fyrir hver umferðin gangi þar fyrir sig í nútímanum, mér finnst þú verðir að færa betur rök fyrir máli þínu. Hvað hafa hesthús nokkuð með þetta að gera, það einfaldlega lýsir mínum punkti betur að í gamla daga blandaðist gangandi umferð saman við hestaumferð alveg eins og hún gerir með bílaumferð í dag, og sýnir hvað klassískt þétt götunet þessa hverfis getur aðlagað sig að breyttum aðstæðum og stenst tímans tönn.

Orðið miðborg er dáltið slæmt á íslensku vegna þess að samsvarandi orð á ensku t.d. er down-town, city eða inner-city. Miðborg þarf nefnilega ekki að vera í landfræðilegum miðpunkti heldur er ákveðin gerð á borg þar sem allt sem borg hefur að bjóða upp á blandast saman, og fólk getur gengið, hjólað eða tekið almenningssamgöngur í bland við að nota einkabílinn og umhverfið er mjög sveigjanlegt og dýnamískt. Í útverfunum eins og Smáranum er einfaldlega ekki hugsað um annað en að fólk komi þangað keyrandi þannig að það hverfi er mjög einsleitt og þar af leiðandi leiðinlegt og mónótónískt.

Ég sé ekki fyrir mér "miðborg" í Smáranum, vegna þess að þá þyrfti í raun að rífa eða stórbreyta þeim borgarhluta, og þekki ég þar til þar sem ég hef unnið þarna. Þar er nánast ekki hægt að komast þar um gangandi nema að taka á sig stórar lykkur fyrir hraðbrautaslaufum og óspennandi bílastæðaeyðimörk í bland við hálfkaraða háhýsabyggð þar sem gengur á með vindstrengjum milli háhýsa. Þetta er einfaldlega hverfi sem mun að öllum líkindum ekki standast tímans tönn heldur þarf að stórbreyta til að gera aðlaðandi.

Tryggvi (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 22:35

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þú last greinilega ekki það sem ég skrifaði, Tryggvi. 16 norrænar borgir eru í úttektinni sem ég tala um og ég sagði aldrei að stóru borgirnar, Stokkhólmur og Kaupmannahöfn væru jafn dreifbyggðar og Reykjavík, heldur allar þær norrænu borgir sem eru álíka stórar og Reykjavík og annað hvort voru í þessari skýrslu eða ég skoðaði sjálfur.

Stóru borgirnar, Kaupmannahöfn, Málmey, Gautaborg, Björgvin, Osló, Stokkhólmur og Helsinki eru þéttbyggðari en Reykjavík enda þar á ofan miklu eldri.

Þessar borgir eru af þessum sökum ekki sambærilegar við Reykjavík og þaðan af síður London, Brussel og Dublin, sem alltaf eru nefndar til samaburðar.

Allar aðrar borgir í þessari norrænu úttekt, sem ég skoðaði sérstaklega flestar auk stóru borganna og myndaði í tilefni af skýrslunni, auk nokkurra fleiri borga í stærðarflokki Reykjavíkur, sem ég skoðaði líka, eru álíka dreifbyggðar og Reykjavík eða dreifbyggðari.

Þessar borgir eru: Álaborg, Árósar, Óðinsvé, Þrándheimur, Stavanger, Oulu, Luleaa, Umeaa, og Sundsvall.

Ég vísa því til heimahúsa að ég fari með "órökstuddar" fullyrðingar. Þvert á móti er ég fyrsti Íslendingurinn sem hefur fyrir því að kynna sér einu skýrsluna, sem gerð hefur verið um þetta að algerlega óháðum áðila.

Borgir og bæir verða oftast til við krossgötur. Stokkhólmur, Osló, Selfoss, Reykjavík.

Fram til miðrar síðustu aldar voru krossgöturnar í kvosinni þar sem sjóleiðin mætti landleiðinni. Þangað komu kóngarnir, Laxness og Þorbergur til borgarinnar og héld för sinni áfram.

Nú er höfnin komin nálægt Ellliðaárdal og landsamgöngur og flug mynda krossgötur.

Það er engin hagræðing fólgin í því að byggja úti á nesinu í fimm kílómetra fjarlægð frá stærstu krossgötum landsins heldur að byggja sem næst krossgötunum til að minnka meðalvegalengdina að miðjunni sem þar er.

Hagræðingin er fólgin í því að þétta byggð nær krossgötunum. Í skemmtilegum fyrirlestri Gísla Marteins Baldurssonar sýndi hann hvernig halda mætti öllum verslunum Skeifukerfisins og byggja íbúðabyggð ofan á húsin með fyrir allt að 1500 manns.

Ártúnshöfði er dæmi um vannýtt svæði þar sem nú eru miklar sandnámur. Þessu hverfi má breyta í blandaða byggð þjónustu, verslunar og íbúðablokka.

En síðan er það bara þetta hvort allt fólkið vill eiga heima í íbúðablokkum. 130 þúsund manns eiga heima austan við Elliðaár og sunnan við Fossvogslæk af því að það vill eiga heima þar.

Hvernig í ósköpunum er hægt að kenna 7% svæðisins vestan við Eilliðaár um það?

Gaurarnir í "Samtökum um betri byggð" fullyrða að það sé "svefnbæjarbyggðunum" að kenna að fólk flutti af landsbyggðinni og í þær af því að landsbyggðarfólkið vildi eiga heima í dreifðri byggð.

En af hverju vili landsbyggðarfólkið eiga heima í dreifðri byggð? Var það ekki af því að það fannst slík byggð vera betri byggð?

Er ekki eitthvað bogið við það að "Samtök um betri byggð" vilji hafa byggðina verri fyrir landsbyggðarfólkið og koma með því í veg fyrir að það óhreinki hina sjálfhverfu höfuðborg með því að flytja þangað?

Ómar Ragnarsson, 20.1.2010 kl. 23:12

13 identicon

Ómar, það eru engin rök fyrir því að benda á að sumar borgir séu jafndreifðar Reykjavík. Viljum við ekki auka gæði borgarinnar frekar en gera þau verri og það fæst ekki á annan hátt en með því að auka þéttleika hennar. Stór hluti lífsgæða borgarinnar er nálægðin við þjónustu sem fæst ekki með því að færa borgina sífellt austar, sem þýðir þá að það þyrfti sífellt að flytja "nýjan miðbæ" sífellt austar þar sem alltaf er aukið á úthverfin í austri. Öflugur "miðbær" er einfaldlega stór hluti af aðdráttarafli Reykjavíkur og ef menn gleyma því þá er bara stór hætta á að sífellt fleiri af okkar unga fólki sem við viljum halda í gefist upp á borginni og flytjist suður í Evrópu eða vestur um haf þar sem fleiri tækifæri er að sækja.

Það hafa áður verið gerðar tilraunir með "nýjan miðbæ" eins og átti að byggja í Kringlunni á 7.-8. áratugnum. Sú tilraun hefur augljóslega snarmistekist þar sem ekkert er þar nema "mall" að amerískri fyrirmynd og ekkert mannlíf er til staðar og enginn gangandi maður sést á ferli vegna þess að fólk hefur þar ekkert að sækja nema að versla í Kringlunni og kemur þar náttúrulega á bíl. Það þarf nefnilega svo margt að koma saman til að byggja "miðborg" og það er ekki gert á einum degi, þess vegna eru "miðborgir" iðulega þar sem sögulegur kjarni borgarinnar þróaðist og hann er ekkert endilega í landfræðilegum miðpunkti. Tillagan eins og vísað var í að ofan með "nýja miðborg" við Elliðaá er bara ekki spennandi fyrir svo margar sakir. Eitt er til dæmis þetta skipulag sem minnir til dæmis á nýbyggt hverfi í Borgartúni eða Smáranum þar sem háhýsi liggja þvers og kruss með bílastæðaeyðimörk milli húsa og enginn leggur í að ganga eða fara um á annan hátt en í bíl.

Ég var einmitt á skemmtilegum fyrirlestri Gísla Marteins, þar sem hann varpaði fram þeirri framtíðarsýn að eina vitið í uppbyggingu Reykjavíkur til næstu 50 ára væri að byggja vestan Elliðaáa, sem er ennþá þar sem langstærstur hluti borgarbúa vinnur í dag, og hvers vegna færa borginstarfsemina þá eitthvað annað?

Fólk er í eðli sínu íhaldssamt og þess vegna vilja margir hafa flugvöllinn þar sem hann er þar sem því er ekki sýnt nein alvöru framtíðarsýn og veit lítið hvað kemur í staðinn. Það er náttúrulega þetta klassíska með að betri sé einn fugl í hendi en tveir í skógi. Það verður bara einfaldlega að finna góða lausn á þessu máli og það er bara tímaspursmál hvenær þessi blessaði flugvöllur þarf að víkja fyrir utan að hann á að víkja samkvæmt núgildandi aðalskipulagi.

Ég held bara að sífellt fleiri séu að átta sig á galla úthverfannaskipulagsins, og þá held ég að yngra fólk sé sífellt betur að vakna upp við vondan draum þar sem sífellt meiri tími fer í ferðalög í hraðbrautum og í umferðarteppum með tilheyrandi kostnaði í tíma og peningum, og þá tölum við ekki einu sinni um kostnað umhverfisins með tilheyrandi mengun.

Ómar ég verð nú að segja að ég bara skil ekki þína afstöðu þar sem þú vilt kalla þig umhverfissinna. Þétting borgarinnar er eins og Gísli Marteinn hefur réttilega sagt stærsta umhverfismál hennar. Dreifð og landfrek borg tekur og eyðir augljóslega miklu meira af gæðum náttúrunnar hvort sem er í landeyðslu, brennslu á jarðefnaeldsneytum og tlheyrandi svifryksmengun.

Erum við að byggja borg fyrir flugvélar, bíla eða fólk. Ég heild að flestir vilji nú setja fólkið í forgang fyrir vélunum.

Tryggvi (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 23:56

14 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Það þarf að skoða staðsetningu flugvallarins út frá því til hvers hann er ætlaður. Ef hann er til að tengja landsbyggðina og höfuðborgina saman, auðvelda samgöngur þar á milli, þá á hann auðvitað að vera þar sem hann er en ekki einhvers staðar annars staðar. Ef flugvöllurinn á að vera til að allir landsmenn geti með skjótum hætti komist á bestu sjúkrahús landsins þegar mikið liggur við þá á hann að vera þar sem hann er eða þar sem þessi sjúkrahús verða í framtíðinni. Ef flugvöllurinn er ætlaður til þess að erlendir ferðamenn þurfi sem minnst að hafa fyrir því að komast landshorna á milli á Íslandi þegar þeir eru komnir til landsins til Keflavíkur, þá væri auðvitað best að flugvöllurinn væri lagður niður og keflavíkurvöllur tæki við innanlandsfluginu. Raunar eru bara tveir kostir í stöðunni, annaðhvort verður flugvöllurinn þar sem hann er eða hann verður lagður niður og Keflavíkurvöllur tekur við hlutverki hans. Það væri þá auðvitað skynsamlegast að nýtt hátæknisjúkrahús yrði byggt í Reykjanesbæ, þar yrði það best staðsett með tilliti til samgangna. Þá mætti líka taka landspítalalóðina og byggja eitthvað nýtt á henni. Er hún ekki verðmætt byggingarland eins og flugvöllurinn?

Jón Pétur Líndal, 21.1.2010 kl. 13:08

15 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Í tilefni af þessari færslu ákv. ég að endurtaka hér bloggfærslu mína um samgöngumál frá í ágúst s.l.

Ég hef stundum furðað mig á síendurteknum hugmyndum um allskonar jarðgöng í Reykjavík fyrir bílaumferð. Það hefur verið talað um að setja Miklubraut að hluta í stokk og moka yfir, jarðgöng undir Öskjuhlíð, neðansjávargöng við Sundahöfn og etv. eitthvað fleira. Mér finnst þetta nú arfavitlaust, bílar voru hannaðir til að fara eftir yfirborði jarðar. Mengun frá þeim, eldhætta, hávaði o.fl. gerir það aldrei góðan kost að troða þeim í þúsundavís í jarðgöng og láta þá standa þar á rauðum ljósum í þéttri borgarumferð. En nóg um það.

Það er hins vegar annað sem gæti verið hagkvæmt og skynsamlegt að gera í samgöngumálum á Höfuðborgarsvæðinu. Það er að byggja sérstaka yfirbyggða reiðhjólastíga um allt svæðið og jafnvel grafa eitthvað af göngum fyrir þessa stíga líka. Það er nefnilega þannig að mannskepnan er þannig hönnuð að hún þarf skjól fyrir veðri og vindum og íslenskt veðurfar er aðal hemillinn á að íbúar hér geti nýtt sér hjólreiðar að einhverju marki og þar með talið tekið hjólreiðar upp sem samgöngumáta allan ársins hring.

Í dag eru hjólreiðar fyrst og fremst viðbót við einkabílinn sem menn geta notað sér þegar vel viðrar. Í fáum tilvikum duga reiðhjól til þess að fólk geti alveg losað sig við bílinn, jafnvel þó það fegið vildi. Það eru a.m.k. 8 mánuðir á ári sem koma í veg fyrir það, þeir heita september, október, nóvember, desember, janúar, febrúar, mars og apríl. Það sem heldur fólki frá hjólreiðum þessa mánuði eru regn, kuldi, snjór, hálka, vindur, slysahætta, ófærð og landslag.

Það væri vel athugandi að leggja net yfirbyggðra hjólastíga um allt höfuðborgarsvæðið. 150-200 km. af þessum stígum þyrfti til að mynda net sem dygði til að þessi samgöngumáti yrði þægilegur og aðgengilegur fyrir alla íbúa svæðisins allt árið. Það er auðvitað ómögulegt að spá um kostnaðinn við þetta. Opinberum aðilum er lagið að láta hlutina kosta sem mest, samanber tónlistarhúsið í Reykjavík sem upphaflega átti víst að kosta um 3 milljarða en stefnir víst í tuttugu og eitthvað núna. Ég held að það væri reyndar hægt að byggja stóran hluta af þessu hjólastíga kerfi fyrir upphæð af þessari stærðargráðu, að tuttugu og eitthvað milljörðum, þannig að þess samgöngubót myndi kannski kosta eins og garganið á höfninni.

En það er auðvelt að sjá þetta borgar sig fljótt. Eins og bílaeldsneytið og bílarekstur allur kostar í dag og mun gera í fyrirsjáanlegri framtíð yrði varla erfitt að fá góða nýtingu á þetta samgöngukerfi. Og þar með sést fljótt gjaldeyrissparnaður, malbikssparnaður, minni mengun, bætt fjárhagsstaða íbúanna, minni þörf fyrir önnur ný umferðarmannvirki o.fl. sem skilar þessu fljótt til baka. Þannig sparar þetta fljótt fyrir einstaklingana, sveitarfélögin og ríkið. Um leið skapast einhver atvinna við að byggja þetta og það verður til gjaldeyrir til að borga fyrir Icesave og ESB aðildina. Hvernig er hægt að láta svona góða hugmynd ónotaða.

Og úr hverju ætti að byggja þessa stíga. Það væri gaman að smíða þetta sem mest úr innlendu áli, það er nóg til af því, en kannski er það ekki hagkvæmt fyrir okkur, líklega of dýrt hráefni.

En nú er þessari góðu hugmynd minni hér með formlega komið á framfæri, enda má eflaust byggja alla þessa yfirbyggðu stíga fyrir þá fjárhæð sem kostar að hringla með flugvöllinn.

Jón Pétur Líndal, 21.1.2010 kl. 13:18

16 Smámynd: Hjalti Sigurðarson

Ómar nefnir að Miklabrautin taki mikið pláss en það er einmitt afþví vinnan er vestan Kringlumýrarbrautar og fólkið á heima lengra í austur. Að 16 borgir á norðurlöndum séu óhagkvæmar útflattar og misheppnaðar er ekki ástæða til að við gerum hið sama. Það eru 45km til Keflavíkur frá miðborg RVK, það á að vera hægt að keyra það á 20-22mín. Þá er þessi flugvöllur óþarfur. Það er kannski rétt að hann sjálfur tekur ekki mikið pláss, en mikið byggingarland er ónýtt eða lítið nýtt vegna flugvallarins. Sjúkraflug á að gera með þyrlum. Auðvitað átti að byggja völlinn í Grafarvogi og byggð í staðin. En hitt er líka alveg rétt að við getum byggt 35þ. manna byggð í miðbænum án þess að flugvöllurinn þurfi að fara.

Hjalti Sigurðarson, 22.1.2010 kl. 00:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 4669

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband