Færsluflokkur: Bloggar

Reykjavíkurflugvöllur

Í kjölfar þess að ég tilkynnti framboð mitt til prófkjörs Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna í vor hef ég fengið allmargar fyrirspurnir um afstöðu mína til ýmissa mála.

Mest ber þó á spurningum um Reykjavíkurflugvöll. Því þykir mér rétt að birta svar mitt við þessari spurningu hér á þessu vefriti mínu:

Fyrir mér er þetta engin einföld "já eða nei" spurning. Það liggja gild rök fyrir afstöðu minni og því læt ég þau fylgja með hér. Það sem er innan gæsalappa er svo til orðrétt það sem ég hef sagt um þetta sama mál í pontu á 3 síðustu landsfundum Sjálfstæðisflokksins.

"Reykjavík er höfuðborg Íslands og eigi hún að standa undir því nafni af einhverjum metnaði þarf hún einnig að vera samgöngumiðstöð fyrir allt landið. Meðan enginn hefur getað bent á annan og betri valkost fyrir flugvöll í höfuðborginni en þann sem hann stendur á í dag er tilgangslaust hjal að vera að tala um að flytja hann eitt eða annað."

Reykjavíkurflugvöllur er ágætlega staðsettur til þess að gegna sínu hlutverki. Samgöngumannvirki á við flugvelli og járnbrautarstöðvar taka alltaf pláss og því verður ekki breytt.

Allt tal um að það sé einsdæmi að svo miklu rými sé "fórnað" í miðborginni er rakalaust. Ég fullyrði t.d. að flugbrautirnar í Vatnsmýrinni taka ekki meira rými en aðaljárnbrautarstöðin í Kaupmannahöfn ásamt teinunum, sem að henni liggja. Einnig má nefna að þegar Lundúnaborg fékk sinn fimmta flugvöll, fyrir rúmum 20 árum var hann byggður inni í borginni, "London City Airport". Þar fara um 3milljónir farþega um á hverju ári en áætlanir eru um stækka hann svo hann geti þjónað um 8milljónum farþega á ári.

Ég tek fram að ég tel rétt að flugvöllurinn verði áfram á aðalskipulagi borgarinnar og vitna í rökfærslu mína hér að ofan.


Má bjóða þér í Grafarvogsgöngu og kleinukaffi?

Það eru ýmis örnefnin í Grafarvogshverfi sem mörgum eru ókunn, einnig þeim sem þar búa. Þar er einnig að finna áhugaverða sögustaði.

Á morgun, sunnudaginn 17. janúar, býð ég öllum þeim sem áhuga hafa til léttrar gönguferðar í Grafarvogi. Lagt verður af stað frá Grafarvogskirkju klukkan 14:00.

Þann sama dag býð ég einnig til opins húss heima hjá mér að Smárarima 6 klukkan 15:30.

Væri ekki tilvalið að koma með mér í gönguferð og þiggja svo kaffiveitingar á eftir? Eða koma bara þá í annað hvort ef tíminn er naumur.


Má bjóða þér í gönguferð?

Í elzta hluta Reykjavíkurborgar, Kvosinni, er að finna bæði sögufræg hús og staði. Kvosin er heillandi miðbæjarkjarni, sem hefur frá ýmsu að segja.

Á morgun, laugardaginn 16. janúar, langar mig að bjóða þeim, sem áhuga hafa, í stutta gönguferð um Kvosina. Hizt verður við styttu Jóns Sigurðssonar, á Austurvelli, klukkan 14:00.gonguferd.jpg


Þau hæfa hvort öðru

Það segir sitt um dómgreindarleysi og skynsemisskort Jóhönnu Sigurðardóttur að hafa valið sér Hrannar Björn sem aðstoðarmann.

Það segir sitt um Hrannar Björn að gangast upp í því að vera málpípa Jóhönnu Sigurðardóttur.

Það segir sitt að opinber málpípa forsætisráðherra lætur eins og hrekkjusvín í sandkassa.


mbl.is Fésbókarsíðan ekki opinber
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búum öldruðum áhyggjulaust hvað...?

Hvaða hemja er það að krefja ellilífeyrisþega um kvartmilljón á mánuði fyrir húsaleigu? Hvaða endemis "bommertur" er sjómannadagsráð eða dótturfélag þess búið að gera? Það hlýtur að vera meira en lítið skjöldótt við fjármögnun þessara íbúða ef greiða þarf stórfé fyrir ekki stærra húsnæði.

Og hvernig skyldi svo íbúum líða? Ég geri ráð fyrir að flestir hafi átt sitt húsnæði og selt það til þess að geta átt áhyggjulausa elli í leiguíbúð.

Slagorð rekstraraðilanna er víst "búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld". Þvílík þversögn í orði og verki. Hér er einhver maðkur í mysunni og það er krafa allra, ekki bara íbúanna, að allt komi upp á borðið.

Svo er tilgangslaust að tala um "skjaldborg um heimilin" meðan gamla fólkinu er látið blæða...


mbl.is Kvartmilljón á mánuði fyrir litla íbúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er að?

Maður skyldi nú ætla að ritstjórar fjölmiðla á borð við Daily Telegraph væru betur upplýstir.

Lögin, sem forseti lýðveldisins hefur nú ákveðið að bera undir þjóðaatkvæði, hafa nákvæmlega ekkert með það að gera hvort Íslendingar hafa hugsað sér að borga umrædda skuld eða ekki.

Það er búið að gera (arfaslakan) samning um að Íslendingar ætli sér að greiða þessa skuld. Jafnvel þó hún sé hugsanlega hærri en þeim ber að greiða.

Alþingi er búið að samþykkja ríkisábyrgð fyrir þessum greiðslum (með ákveðnum fyrirvörum).

Umrædd lög, sem nú fara til þjóðaratkvæðagreiðslu, ganga aðeins út það hvort ríkisábyrgðin eigi að vera án þeirra (hógværu og sjálfsögðu) fyrirvara, sem Alþingi samþykkti á sínum tíma að skyldu fylgja.

Felli þjóðin þessi lögin frá 30.12. þá munu lögin frá því í ágúst standa áfram. Íslendingar hafa skuldbundið sig til að greiða sk. æsseif-skuld og ríkissjóður ábyrgist greiðslur (með ákveðnum fyrirvörum).

Ég held að Jeremías Warner ætti að vinna heimavinnuna sína betur.


mbl.is Ákvörðun Íslands hneyksli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólakveðja

Óska lesendum öllum gleðilegra jóla. Megi jólahátíðin færa ykkur öllum frið og gleði.


Varasamt fordæmi

Þetta minnir nú svolítið á ýmsar borgir A-Evrópu þar sem götunöfnum hefur verið breytt fram og til baka eftir því hvernig pólitísk rétthugsun býður á hverjum tíma.
 
Ég tel mig þekkja þó nokkuð vel til í þeirri ágætu borg Budapest. Þegar ég dvaldi þar í upphafi 8. áratugar síðustu aldar. Þá hét ein helzta breiðgata borgarinnar Népköztarsaság útja, eða Alþýðulýðveldisstræti. Í upphafi hét hún reyndar Geislagata, síðar var hún kennd við Andrássy fyrrum utanríkisráðherra Austurríks-ungverska veldisins og enn síðar við Stalín. Þá hét hún um tíma Gata ungverskrar æsku áður en hún fékk nafnið Alþýðulýðveldisgata. Núna heitir þessi gata aftur Andrássy út.
 
Ég held að það sé varasamt fordæmi að taka upp á því að breyta götunöfnum í grónum hverfum. Þar með búið að hleypa af stað ferli, sem ekki sér fyrir endann á.
 
Þó má ekki skilja það svo að ég telji ekki að Bríet Bjarnhéðinsdóttir og kynsystur hennar eigi það skilið að götur séu nefndar eftir þeim. Fjarri því og þær eru vissulega betur að því komnar en margir aðrir. Vilji menn (karlar og konur) minnast þeirra í götunöfnum þá væri nær að gera það í nýjum hverfum.
 
Samt held ég að það sé gæfa Reykvíkinga að hafa, með örfáum undantekningum, komizt hjá því að nefna götur eftir fólki sem stendur okkur nær í sögulegu samhengi. Slíkt er alltaf umdeilanlegt og kallar á að aðrir hópar heimti sami sómi sé gerður þeirra fólki.

mbl.is Minning kvenna heiðruð með götunöfnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er nú öll vitleysan eins

Ég vil gjarnan kaupa mínar bækur í bókabúð, en ég vil líka fá þær á hagstæðu verði.

Ég get því ómögulega skilið hvaða della það er að halda bókaverði uppi með því að bjóða manni kjöt með bókinni. Vilji ég kjöt fer ég í matvöruverzlun... og þá kæri ég mig ekkert um að borga meira fyrir kjötið og fá einhverja bók með.

Látum vera þó sérverzlanir bjóði manni einhverja tengda smávöru, s.s. bókamerki e.þ.h. En að maður labbi út með eitt kíló af kjöti undir handleggnum er bara fáránlegt.

Þetta er jafn vitlaust og þegar bifreiðaumboðin kepptust við að bjóða fólki flugmiða þegar keypt var ný bifreið. Látum vera þó þeir bjóði manni fullan tank af eldsneyti eða umgang af vetrarhjólbörðum en maður fer ekki í bifreiðaumboð til að kaupa sér farseðla frekar en að fara á ferðaskrifstofu til að kaupa bifreið.


mbl.is Athugasemd frá Bókabúð Máls og menningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn í slaginn

Þá er það orðið opinbert: Karlinn ætlar í prófkjörsslag.

Ég veit af reynzlu að það getur verið tímafrekt og það getur tekið á að gefa sig í störf fyrir samfélagið og samborgara sína. En ég veit líka hversu gefandi það getur verið og ég vona að það litla sem ég hef megnað að leggja af mörkum á undanförnum árum hafi orðið einhverjum til gagns og góðs.

Það er ásetningur minn að eyða ekki stórum upphæðum í þennan slag heldur sjá hvort reynzlan, verkin og  vonandi góður orðstír verði til þess að ég fái notið trausts og stuðnings til meiri og stærri verkefna á víðtækari vettvangi.


mbl.is Sækist eftir 6. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband