Dramadrottningar

Eins og sumir svokallaðra mótmælenda hafa talað undanfarna dag mætti halda að við byggjum við einræði og skoðanakúgun. Eins og sumir hafa klappað sjálfum sér á bakið fyrir eigin frammistöðu mætti halda að hér væri herforingjastjórn og einræði. Meðal mótmælenda er fólk telur sjálfu sér trú um að það sé koma harðstjórn frá völdum og hefur þannig réttlæt fyrir sér eignaspjöll og ofbeldi.

Þvílíkar dramadrottningar!

Við skulum bara gera okkur grein fyrir því að við búum í réttarríki og við búum við lýðræði. Hér eru reglubundnar kosningar, sem enginn hefur eða getur haldið fram að séu ekki lýðræðislegar, og hér situr stjórn studd meirihluta löggjafarþings eins og reglur þingræðisins gera ráð fyrir.

Allt tal um lögregluríki, harðstjórn og ólýðræðislega stjórnarhætti er bara móðursýkisraus. Fólk hefur allan rétt á því að hafa skoðun á stjórnvöldum, láta hana í ljós og fólk hefur skilyrðislausan rétt á að mótmæla... og ólíkt því sem gerist hjá stórum hluta mannkyns veljum við okkur stjórnvöld.

Þeir sem hafa staðið fyrir mótmælum síðustu vikur hafa sagst vera á móti ástandinu. Það álíka gáfulegt að mótmæla ástandinu eins og að mótmæla myrkrinu. Ætli menn (karlar og konur) að mótmæla verða þeir að setja sér markmið sem mótmælin eiga að leiða til. Að koma ríkisstjórn frá völdum til að laga ástandið getur ekki verið markmið í sjálfu sér heldur, í bezta falli, leið að markmiði. Það sem skipuleggjendur mótmæla hefur skort eru skýr markmið, markmið sem gætu þá verið umræðugrundvöllur við stjórnvöld, núverandi og/eða þau sem munu taka við eftir komandi kosningar.

Slys á fólki og eignaspjöll eru á ábyrgð þeirra sem alið hafa á reiði fólks til þess eins að vera á móti án þess að gera sér nokkra grein fyrir því hvað þeir vilja í staðinn.

Lýðræðið getur vissulega verið stirt í meðförum og stundum svolítið seinvirkt en ef við viljum búa í lýðræðisríki þá verðum við að fara eftir leikreglum þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég veit ekki betur en að enn harðari mótmæli en hér séu tíðum í gangi í lýðræðisríkjum.

Hrunið var ekki náttúruhamfarir eins og samlíkingin við myrkrið á að sýna heldur mannanna verk, - manna sem skópu efnahagsumhverfi gervigóðæris sem byggðist á allt of háu gengi krónunnar sem var spennt upp af mannavöldum.

Stjórnvöld manna komu því kerfi á sem blés upp risavaxna sápukúlu fjármálakerfisins sem síðan sprakk og hrundi yfir þjóðina og sökkti þjóðarskútunni.

Þegar landsliðið tapar 14:2 er ekki hægt að kenna um vellinum, vindinum eða hitanum, heldur þjálfaranum og leikmönnunum.

Ómar Ragnarsson, 23.1.2009 kl. 20:33

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Það hefur enginn sagst vera á móti ástandinu. Það sem fólk er að mótmæla er að þetta hafi VERIÐ LÁTIÐ GERAST! Sbr. andvaraleysi stjórnvalda Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Að ekki sé talað um hlut þeirra sem bera mestu ábyrgðina. Bankanna. Ekki það að ég haldi að þýði að tjónka við þig en ekki reyna að halda því fram að hér sé lýðræði en ekki flokksræði. Meira að segja flokksfélagar þínir viðurkenna það.

Ævar Rafn Kjartansson, 23.1.2009 kl. 21:41

3 Smámynd: Hlédís

Þakka ykkur góð innlegg, Ævar Rafn og Ómar!  Ekki að nokkrum detti í hug að þið hróflð við trú pistilritara - en einhverjir aðrir geta slæðst hér inn og lesið það sem þið skrifið

Hlédís, 23.1.2009 kl. 23:03

4 Smámynd: Héðinn Björnsson

Það eru dramadrottningar á báðum hliðum. Hvorki aðferðir mótmælenda né lögreglu voru alltaf til fyrirmynda en þær voru heldur ekki eins dauðalvarlegar og fólk vildi vera að láta. Sá hópur mótmælenda og sá hópur löggunnar sem vildi fara í bófahasar gerði það og jú það urðu einhver minniháttar eignarspjöll og minnháttar meiðsli urðu á báða bóga. Það verður hinsvegar að teljast nokkuð vel sloppið fyrir byltingu. Báðir hópar láta nú í dag eins og þetta hafi verið alveg stóralvarlegir atburðir þar sem hinn aðilinn hafi beitt óafsakanlegu ofbeldi en þeir hafi verið ofsalega saklausir. Sannleikurinn eins og ég sé hann er að ábyrðinni á því að hlutirnir fóru eins þeir fóru má deila milli lögreglu og mótmælenda og á ég þá jafnt við þá staðreynd að ekki fór ver og ekki fór betur. Bæði lögregla og mótmælendur sýndu mikla stillingu en misstu líka á tímum algera stjórn á hasarfólkinu í sínu liði, en þegar upp er staðið fór þetta allt frekar vel fram og við fengum þær kosningar sem við þurftum.

Nú gildir fyrir fólk að stíga út úr fórnarlambshlutverkinu og axla það vald sem því er gefið í aðdraganda kosninga. Setjist niður og finnið út úr því hvað þið viljið ná fram, kynnið ykkur núverandi flokka og athugið hvort þið eigið einhverja samleið með þeim og ef svo er ekki stofnið ný framboð. Þeir sem fyrst og fremst vilja sjá mannabreytingar eru líka hvattir til að hafa áhrif á val á lista í þeim flokki sem þeir velja að starfa í. Það hvað við gerum úr þessum kosningum mun ráða örlögumþessa lands næstu áratugina og því skiftir máli að allir gangi nú í að hafa áhrif á niðurstöðuna.

Héðinn Björnsson, 24.1.2009 kl. 15:42

5 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Ómar, ofbeldi á einum stað réttlætir það ekki á öðrum. Efnahagshamfarirnar eru vissulega af mannavöldum en gættu að því að þessar hamfarir fara nú um allan hinn vestræna heim. Auðvitað hafa menn (karlar og konur) farið alltof geyst og leikið sér með peninga sem aldrei voru til... að sjálfsögðu stóð íslenzkur efnahagur aldrei undir þessu rugli. Það mátti hins vegar aldrei tala um það. Þá voru alltaf einhverjir sem risu upp á afturlappirnar, sýndu klærnar og sögðu að hann Jóhannes og hann Björgólfur og hann Jón Ásgeir og hvað þeir nú heita allir væru þvílíkir dýrðlingar. Segðu mér: Hvaða leiðir hefur þinn flokkur boðið sem valkost við aðgerðir núverandi stjórnarflokka?

Ævar, þetta er ekki rétt hjá þér. Skipuleggjandi mótmælafunda á Austurvelli (lesist: H.T.)hefur einmitt boðað fólk til að mótmæla ástandinu. Auðvitað þarf að heinsa til og það er rétt sem þú segir að sökina er helzt að finna hjá bönkunum... eða þeim sem áttu þá og stjórnuðu þeim. Gáðu að því að ef einhver ekur óvarlega er það ekki aðallega löggunni um að kenna, sem þó á að gæta að umferðinni, heldur mest þeim sem situr við stýrið. Þú getur ekki borið á móti því að hér ríkir lýðræði... það vill bara til að lýðræðið, í þeirri mynd sem við þekkjum það, elur af sér flokka...fólk sem stendur saman um ákveðnar hugsjónir (sameinaðir stöndum vér). Að sjálfsögðu mætti reyna að banna flokka, það hefur sumstaðar verðið gert, en ég held að það þætti ekki sérlega lýðræðislegt.

Hlédís, ég kæri mig ekki um að munnhöggvast við þig. Þú ert ómálefnalegur tuðari.

Héðinn, það er rétt hjá þér að sjaldan veldur einn þá tveir deila... að bera eld að Alþingishúsinu er samt svolítið langt gengið. Ég er svo 100% sammála þér hvað varðar seinni hluta athugasemdar þinnar og hef engu þar við að bæta. Þakka þér fyrir málefnalega og þarfa athugasemd.

Emil Örn Kristjánsson, 24.1.2009 kl. 21:24

7 Smámynd: Villi Asgeirsson

Tvennt.

Af hverju má ekki mótmæla ástandinu? Ástandið var það að enginn var að axla ábyrgð. Er það ekki slæmt ástand í kjölfar fullkomins hruns að ekkert sé að gerast í þeim stofnunum sem áttu að sjá það fyrir og reyna að mýkja fallið?

Ef ökumaður keyrir á ofsahraða er það viðurkennt að eltingarleikur er ekki góð hugmynd. Þannig myndi lögreglan skapa hættu. Yfirleitt bregst hún rétt við og yfirleitt keyrir fólk ekki eins og asnar, en stundum klikkar það.

Villi Asgeirsson, 25.1.2009 kl. 14:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 4909

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband