Lögverndum starfsheiti leiðsögumanna.

Ein þeirra atvinnugreina sem íslenzkt atvinnulíf mun án efa byggja á í framtíðinni er ferðaþjónustan. Ferðaþjónusta er mannfrek og  skapar því mörg störf og hver og einn ferðamaður sem hingað leggur leið sína skilur eitthvað eftir í hagkerfinu, þó mismikið sé.

Nú skyldi maður ætla að það væri stykur hverrar atvinnugreinar að starfsfólk hennar sé hvatt til að afla sér fagmenntunar. Það hefur hins vegar skort mjög á að til staðar sé markvisst nám sem menntar og þjálfar fólk til starfa í ferðaþjónustu.

Það er því einkennilegt að sá hópur fólks sem lengst af hefur verið sá eini sem hefur átt þess kost að afla sér fagmenntunar í ferðaþjónustu, leiðsögumenn, hefur barizt árangurslausri baráttu í áratugi að fá starfsheiti sitt lögverndað.

Hverjum og einum er frjálst að kalla sig leiðsögumann og selja vinnu sína sem slíkur. Það væri vissulega ekkert athugavert við það væri ekki til staðar lög- og námskrárbundið nám fyrir leiðsögumenn sem kennt hefur verið í hartnær 30 ár í Leiðsöguskóla Íslands. Skóla sem er viðurkenndur fagskóli af yfirvöldum.

Það kæmi víst hljóð úr horni færu ófaglærðir menn, karlar og konur, að kalla sig t.d. rafvirkja, kennara, tannlækna, málara o. sv. fr. og selja vinnu sína sem slíkir án þess að hafa aflað sér tilskildrar menntunar. Þó er ekki þar með sagt að ófaglært fólk fáist ekki við kennslu, húsamálun o.fl. Það má hins vegar ekki nota þau starfsheiti sem eru lögvernduð hafi það ekki aflað sér þeirrar menntunar og réttinda sem að baki búa.

Þetta er samt það ástand sem leiðsögumenn hafa mátt þola alla tíð. Það var því fagnaðarefni þegar Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ályktun um ferðamál á síðasta landsfundi sínum þar sem eitt af yfirlýstum markmiðum flokksins í ferðamálum hljóðar svo: “Tryggja þarf lögverndun starfheitis leiðsögumanna og annarra sem sótt hafa sérmenntun til að gegna afmörkuðum störfum í ferðaþjónustu.”

Nú er því lag fyrir leiðsögumenn að sækja sinn sjálfsagða rétt og ekki degi of snemma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Og hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert í málinu síðan á síðasta landsfundi? Það hefur verið - og er - starfandi nefnd hjá Félagi leiðsögumanna sem hefur það eina hlutverk að vinna að lögverndun starfsheitisins en ekkert gerist. Ekkert.

Og m.a. fyrir vikið er starf leiðsögumanna lítils metið og skelfilega illa launað. Hvaða fagmenntaða stétt léti bjóða sér kr. 1.168,77 (1. flokkur) eða 1.200,25 (4. og hæsti flokkur) án orlofs?

Engu að síður finnst ýmsum ferðaskrifstofum þetta allt of mikið og ráða heldur útlendinga sem aldrei hafa til landsins komið og þekkja hvorki land né þjóð, villast og segja ferðamönnunum tóma steypu. Þeir láta sér nægja fæði og uppihald sem þóknun.

Í mörgum löndum er skylda að hafa innlendan leiðsögumann með í för í hópferðum - auk erlenda fararstjórans. Það mætti íhuga slíkt hér um leið og starfsheitið verður lögverndað - ef það gerist einhvern tíma því það er vinnuveitendunum ekki í hag.

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.7.2008 kl. 01:19

2 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Ég þakka þér hressilega athugasemd, Lára Hanna.

Það er ekki Sjálfstæðisflokksins að eiga næsta leik. Boltinn hefur nú verið gefinn til Félags leiðsögumanna og liggur því hjá þeim. Vandamál stéttarinnar liggur hins vegar í því að félagið virðist liðónýtt og nefndin, sem þú nefnir, gæti allt eins verið dauð.

Ég er nú sjálfur búinn að bera leiðsögumannsbréf í bráðum aldarfjórðung og jafnlengi verið í Félagi leiðsögumanna og veit því aðeins um hvað málið snýst. Ég hef líka starfað mikið sem fararstjóri erlendis (og þá ekki sólbaðs- eða verzlunarferðum) og þekki því líka til þessara hluta í ýmsum öðrum löndum.

Rök þau sem félagið hefur fært fyrir eigin aumingjaskap halda ekki vatni og það er löngu kominn tími til að þar á bæ verði nú brettar upp ermar, spýtt í lófana og tekið til hendinni. Eins og ég sagði: Nú er lag!

Það sem þú nefnir um ferðaskrifstofur og útlendingana, "sem segja ferðamönnum tóma steypu" á vissulega við í sumum tilvikum en þó er ferðaskrifstofum ekki alltaf gert rétt til í þeirri umræðu. Oft er það nefnilega svo að erlendar skipuleggjendur senda sömu fararstjórana ár eftir ár með hópunum sínum og svo þegar þeir hafa lært nóg af íslenzku leiðsögumönnunum þá biðja erlendu aðilarnir um tilboð án leiðsögumanns og þó ferðaskrifstofan hér heima reyni eftir mætti að telja þá ofan slíkri skipulagningu þá er þeim ekki stætt á því að neita því. Meðal annars vegna dugleysis Félags leiðsögumanna.

Emil Örn Kristjánsson, 23.7.2008 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband