Það er gott að búa í Grafarvogi - Til varnar úthverfavæðingunni

Er á leið til Skotlands og lítill tími aflögu. Frekar en að gera ekki neitt birti ég hér hugleiðingar sem hafa áður litið dagsins ljós sem blaðagrein en birtast nú lítið breyttar. 

 

Ég álpaðist einu sinni á opinn fund í Ráðhúsi Reykjavíkurborgar þar sem til umræðu var væntanleg Sundabraut, færzla Hringbrautar og fleira.  Þarna tóku til máls ýmsir þeir sem eitthvað höfðu fram að færa um framtíðarskipulag borgarinnar. Meðal þeirra voru talsmaður “Betri byggðar”, formenn Íbúasamtaka Vesturbæjar og Íbúasamtaka Grafarvogs og fleiri. Mér þótti merkilegt að heyra hvað mörgum virtist illa við úthverfin og menn töluðu grafalvarlegir um að “sporna þyrfti við úthverfavæðingu borgarinnar”.

Þá rifjaðist upp fyrir mér að eitt sinn rataði til mín bók sem heitir “Á lífsins leið VI”, sem gefin er út af útgáfufélaginu Stoð og styrk og rennur ágóði sölunnar til góðgerðarmála. Þarna skrifa ýmsir þjóðkunnir menn (karlar og konur) og segja frá atvikum í lífi sínu. Ein þeirra sem skrifar í umrætt sjötta bindi er sjónvarpskona sem um tíma var þekkt er fyrir spjallþætti á einni sjónvarpsstöðinni okkar og gerir hún meðal annars að umræðuefni gönguferðir um borgina. Í umfjöllun sinni lætur þessi ágæta sjónvarpskona meðal annars þessi orð falla: “Í fínu úthverfi (er) langt á milli húsa og myndarlegar víggirðingar og skjólveggir vernda íbúana fyrir ....... öðru fólki......... Íbúarnir lifðu bak við sínar girðingar.......Maður gat ímyndað sér að fólk þekktist ekki mikið í götunni.” Áfram heldur sjónvarpskonan og tekur nú að fjalla um Þingholtin og Skuggahverfið: “Maður skynjaði þar ólíkan byggingastíl, ólíkan efnahag og ólíka lykt...... Maður andaði að sér lífinu í hverfinu og sögum af ólíku fólki við hvert fótmál” Síðan lýkur höfundur umfjöllun sinni með eftirfarandi orðum: “Ég vil skynja sögur af fólki en ekki bara það nýjasta í landslagsarkitektúr og nýjustu girðingarlínu Húsasmiðjunnar í kringum mig”.

Þegar ég rifja upp þennan lestur og fundinn í Ráðhúsinu þá er mér fyrirmunað að skilja þann hroka og þá fordóma sem sem maður verður svo oft var við í garð úthverfanna og íbúa þeirra. Af orðum sjónvarpskonunnar mætti halda að þeir sem byggju í úhverfum væru helst ofsóknarhræddir mannhatarar og af orðum svo margra annara er helst að ráða að við sem búum í úthverfum höfum annað tveggja ekki átt völ á íbúðarhúsnæði í miðborginni eða við einfaldlega þekkjum ekkert betra.

Sjálfur er ég nú búinn að búa tæp 14 ár í Grafarvogshvefi, nánar tiltekið í Rimunum. Þar á undan átti ég heima í 105-Reykjavík, í Hlíðunum og fyrstu búskapar ár okkar áttum við hjónin heima í 101-Reykjavík við Ránargötu. Okkur leið ákaflega vel, bæði í Vestubænum og í Hlíðunum en sízt þykir okkur verra að búa hér í 112-Reykjavík. Fókið í götunni hittist og gerir sér glaðan dag saman, á góðviðrisdögum leika börnin í götunni sér saman og fólk kallast á milli garðanna sinna.

Það er gæfa okkar sem byggjum þessa borg að hér eigum við kost á að búa í þéttri byggð eða dreifðri, í háreistri byggð eða lágreistri, með fjalla-, sjávar- eða götusýn, allt eftir því hvað smekkurinn býður. Það er líka sjálfsagt að skipulagsyfirvöld virði val íbúa og breyti ekki búsetuforsendum þeirra með því að keyra þétt háhýsahverfi ofan í dreifðari byggðir úthverfanna eða leggi hraðbrautir í gegnum friðsæl íbúðahverfi.

Úthverfi eins og Grafarvogshverfi er fjölbreytt og skemmtilegt, þar þrífst frísklegt og litríkt mannlíf sem ýmsir þeir sem hæzt mæla þekkja minnst. Það er gott að búa í Grafarvogi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Hrönn Elíasdóttir

Mikið er ég sammála þér. Á námsárunum bjó ég í Tjarnargötu, yndislegur staður að búa á svona í miðbænum í návist við tjörnina og Hljómskálagarðinn, en núna bý ég í Grafarvogi eins og þú, reyndar í foldahverfi og útsýnið Esjan og svo Faxaflóinn með Engey og Viðey og svo Akranes í fjarska. Í góða veðrinu sem hefur verið núna, sést vél Snæfellsnesið og jökullinn. Reykjavík býður upp á svo margt, einmitt vegna þeirrar fjölbreytni sem þú nefnir. Það eru algjör forréttindi að geta valið um einbýli, fjölbýli, úthverfi með sínum sjarma eða hringiðuna í miðbænum.

Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 26.6.2008 kl. 14:24

2 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Þakka þér fyrir, Sigríður.

Við höfum það nefnilega mjög gott en við verðum líka að standa vörð um gæðin. Gæta þess að þeir sem telja sig vita betur eyðileggi þau ekki. Íbúarnir eru sérfræðingarnir í sínu hverfi... ekki sprenglærðir fræðingar í Borgartúni.

Emil Örn Kristjánsson, 26.6.2008 kl. 17:36

3 identicon

Ég er mjög svo sammála þér Emil, eins og þú hef ég búið í 105, einnig í 104 og svo í 101 og leið mér mjög vel á öllum þessum stöðum enda á mismunandi stað í mínu lífi í hvert sinn. Núna komin með fjölskyldu sem fer stækkandi þá finnst mér gott að búa í Grafarvoginum þar sem börnin hlaupa um að hitta leikfélagana og íbúar götunnar spjalla saman um landsins gang og nauðsynjar ásamt því að gera sér glaðan dag.

Marta (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 12:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 4909

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband