Hvað finnst mér?

Grein þessi var send Fréttablaðinu, sem svar við grein Guðmundar Andra Thorssonar. Ritstjórn Fréttablaðsins neitar að birta hana og kom í veg fyrir að önnur blöð tækju hana til birtingar með því að stetja hana á lítt lesið vefsvæði án samráðs við höfund. Gerræði af verstu sort...

Guðmundur Andri Thorsson skrifaði grein mánudaginn 8. október með yfirskriftinni „Hvað finnst þér?"

Mér er bæði ljúft og skylt að svara þessari spurningu Guðmundar Andra og ætla að gera það hér í stuttu máli.

Það er nefnilega ekki oft, sem við Guðmundur Andri erum sammála. Satt að segja man ég ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma verið sammála skrifum Guðmundar Andra. Í þetta sinn erum við þó sammála um eitt. Og það er að mæta á kjörstað þann 20. október næstkomandi. En þar með er líklega upptalið.

Mér þykja ýmsar af þeim spurningum, sem velt er upp, áhugaverðar og hef vissulega skoðun á þeim. Mér finnst t.a.m. löngu tímabært að skilgreina hugtökin þjóðareign og auðlind og gera okkur síðan grein fyrir því hvernig auðlindir okkar mega sem bezt nýtast þjóðinni í heild sinni.

Ég hef líka skoðun á því hvort eitt trúfélag umfram önnur eigi að eiga sérákvæði í stjórnarskrá.

Þá getur verið spennandi að hafa eitthvað meira um það að segja hvaða persónur veljast í kosin embætti. Ég sé samt ekki að slíkt ákvæði eigi heima í stjórnarskrá. Það er eðlilegra að það sé í kosningalögum. Sá háttur er t.d. hafður á í Finnlandi, Hollandi og á Írlandi en á vefnum thjodaratkvaedi.is eru þau lönd tekin sem dæmi um hvar persónukjör sé „alls ráðandi".

Mér þykir löngu tímabært að tilskilinn fjöldi atkvæðabærra manna, karla og kvenna, geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp frá Alþingi. Reyndar sakna ég, í tillögum stjórnlagaráðs, ákvæðis um að stjórnarskrárbreytingar skuli alltaf settar í þjóðaratkvæðagreiðslu og einnig að skilyrt sé hve margir þurfi að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu svo hún teljist marktæk.

Enn er þó eftir að svara því hvað mér finnst um höfuðspurninguna: Vilt þú að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Guðmundur Andri, þeirri spurningu ætla ég að svara neitandi. Ekki vegna þess að mér finnst allt ómögulegt sem frá stjórnlagaráði komi. En, með fullri virðingu fyrir því fólki sem það skipaði, þá þykja mér það ekki góð vinnubrögð að 25 manns komi saman og skrifi nýja stjórnarskrá á innan við 4 mánuðum. Það var hægt á 18. öld en í dag tíðkast önnur vinnubrögð.

Ef það væri ætlunin að skrifa nýja stjórnarskrá og til þess þyrfti stjórnlagaþing þá ætti slíkt þing að sjálfsögðu að vera bæði fjölmennara og hafa lengri tíma til verksins.

Í umræðunni hefur manni virzt eins og valið standi aðeins um það hvort samþykkja eigi nýja stjórnarskrá Stjórnlagaráðs eða sitja uppi með afgamla og úrelta stjórnarskrá. En valið stendur ekki bara um það. Við höfum miklu víðtækara val og núgildandi stjórnarskrá er fráleitt úrelt.

Það vill til að stjórnarskráin okkar er að mörgu leyti ágætisplagg, sem hefur tekið ýmsum breytingum í takt við tímann. Allar fullyrðingar um að hún sé leifar af konungseinveldi og hafi ekkert breyzt frá því á 19. öld eru rangar og allar fullyrðingar um hún hafi verið sett sem e.k. bráðabirgðastjórnarskrá eru einnig rangar.

Á lista Economist yfir lýðræðislegustu ríki veraldar trónir Noregur á toppi, Ísland er í öðru sæti, Danmörk í þriðja og Svíþjóð í fjórða. Öll þessi lönd búa við svipað stjórnarfar svo ekki getur stjórnarskráin okkar verið slíkur gallagripur, sem sumir halda fram.

Guðmundur Andri leggur málið þannig upp að við getum kosið um nýja stjórnarskrá stjórnlagaráðs, látið fræðimönnum eftir að skrifa nýja stjórnarskrá eða haldið þeirri gömlu óbreyttri.

Þetta er rangt hjá Guðmundi Andra. Við höfum líka val um að halda stjórnarskrá okkar og breyta henni og endurskoða hana eftir kröfu tímans hverju sinni, eins og gert hefur verið, og vanda þá til verka.

Að sjálfsögðu er kominn tími á ýmsar breytingar og ég hvet fólk til að kynna sér frumvarp til stjórnskipunarlaga, sem Pétur Blöndal flutti á Alþingi í síðasta mánuði, með stuðningi 16 annarra þingmanna úr þremur þingflokkum. Þar er lagt til að allar stjórnarskrárbreytingar skuli lagðar í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta finnst mér tímabært svar við kröfu samtímans um aukið beint lýðræði.

Guðmundur Andri, við munum sem sagt báðir mæta til að greiða atkvæði þann tuttugasta október næstkomandi en mér finnst að ég eigi að segja nei og ég ætla að segja nei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Þakka þér fyrir þessa góðu grein Emil Örn.

Ég skil vel að Fréttablaðið hafi ekki viljað birta grein þína, hún er ekki í anda þess sem þar er borið á borð.  Hún hefði sennilega getað haft áhrif á lesendur blaðsins á þann veg sem þeim finnst ekki boðlegt.

En nú er að fjölmenna á kjörstað í fyrramálið, og merkja við NEI.

Guð gefi okkur góða og ánægjulega helgi.

Tómas Ibsen Halldórsson, 19.10.2012 kl. 22:59

2 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Takk sömuleiðis, Tómas. Vonandi höfum við ástæðu til að fagna á morgun.

Emil Örn Kristjánsson, 19.10.2012 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Emil Örn Kristjánsson

Höfundur

Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Íhaldsmaður

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...gonguferd
  • ...cerne_abbas
  • ...nano
  • takk faroe islands 501x101px.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 4539

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband